top of page
Search

Newcastle vs. Chelsea

Keppni: Enska Úrvalsdeildin.

Dag- og tímasetning: Laugardagurinn 21. nóvember kl. 12:30.

Leikvangur: St James’ Park

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport

Upphitun eftir: Þór Jensen



Eftir það sem hefur liðið eins og lengsta landsleikjahlé allra tíma er loksins komið að næsta leik hjá okkar mönnum. Bláklæddir taka ferðalagið norður til Newcastle þar sem þeir mæta þeim svart-hvítu á St James’ Park á laugardaginn.

Newcastle

Newcastle menn sitja í 13. sæti deildarinnar með 11 stig eftir 8 leiki sem er líklega á pari við væntingar þar á bæ. Norðanmenn hafa verið ansi óstöðugir á leiktíðinni, með stór töp inn á milli góðra sigra. Þeir unnu Everton 2-1 á heimavelli í byrjun mánaðar en töpuðu 2-0 á útivelli gegn Southhampton í síðasta leik. Þeirra hættulegasti leikmaður er án efa refurinn í teygnum Callum Wilson sem hefur skorað 6 af 8 mörkum Newcastle á leiktíðinni, þar af 3 úr vítum. Okkar mönnum hefur oft gengið brösulega gegn Norðanmönnum, en í síðustu 20 viðureignum liðanna hefur Chelsea unnið 10, Newcastle 7 og 3 jafntefli. Síðasti leikur liðanna, sem var í janúar s.l. endaði auðvitað með 1-0 sigri heimamanna á St. James’ Park þegar Kepa ákvað að sleppa því að verja skalla Isaac Hayden á 94. mínútu leiksins.

Chelsea

Cobham Training Centre hefur verið ansi tómlegt um að líta síðustu daga en þar hafa öllu jafna aðeins 4 leikmenn verið við æfingar í þessum landsleikjaglugga. Margir leikmenn Chelsea hafa spilað mikið undanfarnar 2 vikur með sínum landsliðum. Þá má sérstaklega nefna Mason Mount, sem byrjaði alla 3 leiki Englands, Timo Werner sem skoraði tvö gegn Úkraínu fyrir hrunið gegn Spánverjum, Giroud sem skoraði tvö mörk gegn Svíum og kom við sögu í öllum 3 leikjum Frakklands eins og Kanté sem skoraði sigurmarkið í 0-1 sigri gegn Portúgal, Kovacic skoraði tvö mörk fyrir Króata (!!!) í 2-3 tapi gegn Portúgölum og Ziyech sem skoraði 3 mörk í 2 leikjum fyrir Morocco og Thiago Silva spilaði 2x90 mínútur í sigrum Brasilíu gegn Úrúgvæ og Venesúela og hélt hreinu í báðum leikjum. Þá hélt Mendy hreinu í tveimur leikjum fyrir Senegal og var valinn maður leiksins í 0-1 sigri gegn Guinea-Bissau. Sem betur fer sluppu okkar menn merkilega vel við meiðsli í þessum leikjum, en Ben Chilwell fór meiddur útaf með bakmeiðsli gegn Belgum, en hann sat á bekknum gegn Íslendingum og er byrjaður að æfa aftur og er búist við að hann verði tilbúinn fyrir slaginn gegn Newcastle.

Það verður áhugavert að sjá liðsuppstillingu Lampard í þessum leik. Nokkrir leikmenn eins og Silva, Ziyech og Mendy hafa þurft að standa í löngum ferðalögum en þeir lentu í London fyrst í gær en Lampard tók fram á blaðamannafundi að hann yrði líklega ekki með gegn Newcastle eftir sína landsleiki og langt ferðalag. Þá er Kai Havertz búinn að jafna sig á Covid og var greindur neikvæður í vikunni. Hann er nýbyrjaður að æfa aftur eftir tveggja vikna einangrun og mun líklega ekki spila leikinn. Þá er Pulisic enn meiddur, en farinn að æfa af meiri ákefð. Billy Gilmour spilaði leik með Akademíunni í vikunni og styttist í endurkomu hans með aðalliðinu sem eru frábærar fréttir.

Á blaðamannafundinum var Lampard afar ósáttur með leiktímann, 12:30 á laugardegi, eftir allt þetta leikjaálag og löng ferðalög. Einnig talaði hann fyrir því að leyfa aftur 5 skiptingar í leik, líklegt er talið að sú breyting verði gerð á næstu misserum, en enska Championship deildin breytti þessu einmitt hjá sér í vikunni.

Þrátt fyrir leikjaálag og ferðalög spái ég fáum breytingum á byrjunarliðinu. Ég spái byrjunarliði Chelsea svona:

Mikilvægt er fyrir leikmenn og þjálfara Chelsea að nota ekki leikjaálag og leiktíma sem afsökun fyrir lélegri frammistöðu í leiknum og halda okkar góða gengi áfram. Sigur í leiknum gerir okkur taplausa í 12 leikjum í röð, en liðið hefur ekki tapað leik í 2 mánuði, síðan við töpuðum gegn Liverpool 20. septebmer!

Ég spái 3-1 sigri okkar manna með mörkum frá Werner, Tammy og Ziyech.

KTBFFH

- Þór Jensen


bottom of page