Newcastle gegn Chelsea
- Jóhann Már Helgason

- 14 minutes ago
- 4 min read
Keppni: Úrvalsdeildin, 17. umferð
Tími, dagsetning: Laugardagur 20. desember kl:12:30
Leikvangur: St. James’ Park, Newcastle
Dómari: Andy Madley
Hvar sýndur: Sýn Sport
Upphitun eftir: Bjarna Reynisson

Sigurbrautin er sæt og enn sætara er að Chelsea er á leiðinni á enn ein undanúrslitin, þau þriðju á undanförnum 18 mánuðum. Það var B-liðs bragur á liðsvalinu hjá Enzo Maresca sem mætti til leiks gegn Cardiff City í miðri viku, 11 breytingar frá sigurleiknum um síðustu helgi gegn Everton. Chelsea leit í raun alls ekki vel út fyrr en að skiptingar voru gerðar í hálfleik. Alls komu þrír sóknarmenn inn á af bekknum í leiknum, Garnacho, João Pedro og Pedro Neto. Allir yfirgáfu þeir völlinn með mark eða stoðsendingu. Niðurstaðan 1 - 3 sigur og okkar menn mæta annað hvort Arsenal eða Crystal Palace í undanúrslitunum um Carabao bikarinn. Ég hefði verið til í að sjá meira sannfærandi sigur á Cardiff, ég vil sjá Maresca hætta að hrófla svona mikið í varnarlínunni og leyfa áhrifamestu miðvörðunum að spila sem mest saman. Maresca hefur gert fleiri breytingar en nokkur annar þjálfari í deildinni á byrjunarliði síni en þær eru 130 alls þegar rýnt er í allar keppnir. Það eru meira en fimm breytingar í hverjum leik. Eins og gefur að skilja fylgja þessum fjölda breytinga ákveðnir hnökrar en flestir þeirra, að mínu mati, eru tengdir skorti á tengingu milli manna inn á vellinum, skorti á reynslu og skorti á vinnuframlagi. Trevoh Chalobah talaði um það í viðtali á dögunum að það mikilvægast sem að hann hafi lært af Thiago Silva hafi verið leikskilningurinn. Hann lýsti lestri á leiknum sem hæfileika sem að þyrfti að þróa og æfa og vitaskuld gengur það hraðar fyrir sig þegar þú lærir af reynslu meiri liðsfélögum. Tímabilið er rússíbanareið og leikjaálagið er gífurlegt og persónulega vil ég frekar sjá allar þessar breytingar í stað þess að sjá bestu leikmenn klúbbsins hrannast upp á meiðslalistann.
Mikið hefur verið rætt og ritað um Enzo Maresca í kjölfar blaðamannafundar hans eftir leikinn gegn Everton um síðustu helgi, þar sem Chelsea fór með 0 - 2 sigur af hólmi. Þar lýsti hann yfir skorti af stuðningi frá ýmsum aðilum og sagði jafnframt að síðustu 48 klukkustundir hafi verið hans verstu síðan hann gekk til liðs við klúbbinn. Blaðamenn hafa keppst við að rýna í þessi skrítnu og óvæntu yfirlýsingar og orðrómur hefur sprottið upp að Man City hafi jafnvel áhuga á að krækja í Maresca ef skyldi að Pep Guardiola láti af stjórastöðu sinni eftir tímabilið. Snemma í morgunn, á föstudegi, sló Maresco þó á alla þessa umræðu þegar hann sagði eftirfarandi: “Að vera orðaður við Man City hefur engin áhrif á mig, ég veit að þetta er eintómar getgátur. Ég gef svona orðrómum ekki mikinn gaum enda er ég samningsbundin Chelsea til ársins 2029 og er stoltur af því að vera hérna. Það er mikilvægt að skilja af hverju þessar fréttir fóru á kreik, en það er mitt starf.” Ég trúi því að Maresca geti haldið áfram að vinna bikara með þessu liði og vil halda honum hjá klúbbnum. Hann hefur sýnt það í stórum leikjum að hann er verkinu vaxinn.

Síðasti leikurinn fyrir jól hjá okkar mönnum og verkefnið er krefjandi. St. James’ Park er erfiður útivöllur enda stuðningurinn úr stúkunum virkilega góður og reynist stundum sem tólfti maðurinn. Sex stig er það sem aðskilur klúbbana sem sitja í fjórða sæti (Chelsea) og tólfta sæti (Newcastle). Newcastle er annar uppáhalds andstæðingur okkar, á eftir Tottenham. Í gegnum tíðina höfum við farið ósigraðir í gegnum 67 prósent af viðureignum við Newcastle í öllum keppnum, W78, D42 og L58. Aftur á móti hefur Chelsea ekki rokkað upp á St. James’s Park og farið með sigur af hólmi síðan 30. október 2021 og vel orðið tímabært að bæta úr því. Hörð barátta verður háð á miðsvæðinu, Newcastle mennirnir Bruno Guimaraes og Joelinton hafa farið illa með okkur áður enda stórir og stæðilegir miðjumenn. Við munum þurfa að treysta á að Caicedo eigi góðan leik en það verður ánægjulegt að sjá hann og Enzo Fernández saman á miðsvæðinu eftir þriggja leikja bann Caicedo. Tveir fyrrum Chelsea menn spila undir góðu yfirlæti í bakvarðarstöðunum hjá Newcastle en það eru þeir Tino Livramento og Lewis Hall. Báðir eru þó tæpir vegna meiðsla. Því verða líklega engir Chelsea draugar sem dúkka upp og hrella okkur. Nick Pope, markmaður Newcastle er að skríða saman eftir meiðsli og gæti því staðið milli stanganna. Alls eru sjö varnarmenn meiddir hjá Newcastle, Burn, Trippier og Botman svo óhætt er að segja að varnarlínan sé þunn. Í herbúðum okkar hefur meiðslalistinn einnig lengst örlítið en þar má að sjálfsögðu finna Romeo Lavia og Levi Colwill. Liam Delap slasaði sig með eigin kjána látum í glímu við varnarmanna Bournemouth. Undrabarnið Estevao er einnig á hliðarlínunni með vöðvavandamál.
Við getum stillt upp ógnar sterku liði gegn Newcastle en þetta er mín spá um byrjunarliðið. Robert Sanchez verður í markinu að venju. Miðvarðapar skipað af Fofana og Chalobah hefur virkað óaðfinnanlega en þeir hafa haldið hreinu í sex af þeim sjö leikjum sem þeir hafa byrjað. Gjörsamlega frábærir, eitt mark skorað gegn þeim í þessum sjö leikjum en það var í leiknum gegn Arsenal eftir að okkar menn urðu manni færri. Reece James á sínum stað í hægri bakverðinum, Cucurella vinstra megin. Caicedo og Enzo á miðsvæðinu með Cole Palmer þar fyrir framan. Garnacho og Pedro Neto á sitthvorum vængnum og með Joao Pedro fremstan manna. Ég spái okkar mönnum sigri í þessum leik með tveimur mörkum gegn einu. Palmer setur eitt af vítaspyrnu punktinum og Pedro Neto skorar hitt. Newcastle mun samkvæmt minni spá skora eftir hornspyrnu.
Takk fyrir lesturinn, áfram Chelsea og megum við tóra sem lengst á þessari sigurbraut!





Comments