Minning - María Eyvör Halldórsdóttir
- Jóhann Már Helgason

- 12 minutes ago
- 2 min read

Kæru félagsmenn.
Með hlýju og þakklæti minnumst við Eyvarar Halldórsdóttur, kærrar vinkonu okkar í Chelsea-samfélaginu á Íslandi, sem kvaddi þann 6. nóvember síðastliðinn eftir langa baráttu við veikindi, á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Eyvör gekk til liðs við Chelsea-klúbbinn og Chelsea Football Club í október 2019 og varð strax bjartur ljómi í hópnum. Það varð okkur félögum hennar strax ljóst að þar var á ferð einlægur stuðningsmaður Chelsea Football Club. Áhugi hennar á málefnum líðandi stundar í Chelsea-samfélaginu vakti mikla eftirtekt, meðal annars í hlaðvarpinu Blákastið og pistlavefnum CFC.is. Þegar hún sagði okkur frá veikindum sínum á vettvangi Chelsea-samfélagsins og hversu mikinn kraft það gaf henni að hlusta á nýjan þátt eða lesa pistil fyrir leikina, snerti það hjörtu okkar djúpt. Fyrir okkur sem stöndum að þeim miðlum var þetta hlýja viðbragð hennar ómetanleg gjöf.
Þegar okkur varð kunnugt um alvarlegu veikindi hennar og áhuga hennar á að sjá Chelsea leika á Stamford Bridge, tók stjórn Chelsea-klúbbsins þá ákvörðun að bjóða henni ásamt Jórunni Önnu Sigurðardóttur vinkonu hennar á leik Chelsea gegn Brighton & Hove Albion í byrjun desember 2023. Flug til og frá London, gisting á Chelsea-hótelinu á Stamford Bridge og miðar á umræddan leik fyrir þær vinkonur var fjármagnað með styrk úr Minningar- & styrktarsjóði Chelsea-klúbbsins og var þeim fjármunum vel varið.
Þær vinkonur voru afskaplega þakklátar Chelsea-klúbbnum fyrir þetta framtak og fóru ekki leynt með það. Þetta var í fyrsta og eina skiptið sem Eyvör mætti á Stamford Bridge. Verst var að Eyvör var við slæma heilsu þá daga sem hún varði í London og naut því ekki dvalarinnar sem skyldi, en þó það að eigin sögn, að ná að sjá sína menn með eigin augum keppa á Brúnni var fyllilega þess virði að upplifa þrátt fyrir veikindin.
Blessuð sé minning Maríu Eyvarar, hennar verður sárt saknað af okkur félögum hennar í Chelsea-klúbbnum á Íslandi. Útförin fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju föstudaginn 14. nóvember n.k. kl: 13.00
Fyrir hönd Chelsea-klúbbsins á Íslandi
Karl H. Hillers
Hafsteinn Árnason
Jóhann Már Helgason
Ómar Freyr Sævarsson
Þráinn Brjánsson





Comments