top of page
Search

Meistaradeildin - seinni leikur gegn Atletico Madrid: Upphitun

Keppni: Meistaradeild Evrópu

Dag- og tímasetning: Miðvikudagur 17. Mars 2021

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Stöð 2 Sport, BT Sport 2

Upphitun eftir: Markús Pálma Pálmason



Inngangur

Þessi upphitun fer yfir stöðuna fyrir leik Chelsea og Atletico Madrid, í 16 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Okkar menn hafa rifið sig upp töfluna í deildinni, og fóru með frábæran sigur af hólmi gegn Atletico í fyrri leik þessara liða, 0-1, þökk sé frábæru marki frá Olivier „Ollie“ Giroud. Í þessum leik er mikilvægt fyrir okkur að fylgja okkar plani og spila eftir því kerfi sem við höfum unnið með síðan Thomas Tuchel tók við af Lampard, og þá er ekki hægt að trúa öðru en að við stöndum fast í stáli og hirðum þetta sæti í 8. liða úrslitum sem í boði er!


Chelsea

Nú er komið að 13 leik Chelsea undir stjórn Thomas Tuchel, og þá skal gíra sig vel upp í þá veislu. Chelsea er taplaust undir hans stjórn, og hefur aðeins fengið á sig 2 mörk síðan hann tók við. Chelsea hefur spilað frábæran varnarleik í síðustu leikjum, og hefur haldið hreinu í seinustu fimm! Í fyrri leiknum gegn Atletico vorum við yfirburðar betri aðilinn, 63% með boltann, 5 fleiri skot, og vörðumst gríðarlega vel. Við vörðumst í raun það vel, að Atletico átti ekki skot á rammann!


Eins og staðan er núna, þá erum við í ágætum málum hvað varðar meiðsli. Thomas Tuchel staðfesti á blaðamannafundi að Thiago Silva og Tammy Abraham væru báðir meiddir og myndu ekki taka þátt í þessum seinni leik gegn Atletico. Mason Mount og Jorginho eru báðir í leikbanni. Þannig að í raun erum við án 4 leikmanna, en við eigum nóg af frábærum leikmönnum inni til þess að fylla þetta skarð sem þessir fjórir skilja eftir sig. Tuchel mun finna lausnir!


Það ætti oftast nær auðvelt að velja byrjunarlið fyrir svona stórleiki, en það hefur reynst mér erfiðara en vanalega í þetta skiptið. Það er hægt að búast við Mendy á milli stanganna, og svo svipaðari varnarlínu og í síðustu leikjum, með Rudiger, Christensen og Azpilicueta, ég ætla henda Chilwell í vinstri vængbakvörðinn, ásamt Reece James í þeim hægri. Vegna fjarveru Jorgi og Mount, þá finnst mér líklegt að Kovacic og Kante verði aftastir á miðjunni, með Kai Havertz og Hudson-Odoi þar fyrir framan og fremstur yrði svo Timo Werner. Áhugavert verður þó að sjá hvort hann Thomas Tuchel muni jafnvel treysta á Olivier Giroud sem fremsta mann í þessum leik, eftir gullfallega markið sem hann setti í fyrri leiknum.



Atletico Madrid

Atletico Madrid hefur verið eitt sterkasta lið Evrópu undanfarin ár, og sérstaklega undir stjórn Diego Simeone. Þeir tróna á toppi La Liga, 4 stigum á undan Barcelona, eftir 27 umferðir. Þeim hefur aðeins fatast flugið í deildinni í síðustu leikjum. Eftir tap gegn Levante, þann 20 febrúar, þá hafa Atletico menn gert 2 jafntefli, gegn Getafe og Real Madrid, en unnið Villarreal og Athletic Bilbao. Eins og staðan er núna, þá eru Atletico ekki að glíma við mikið af meiðslum, þannig það er hægt að búast við hörkuliði annað kvöld.

Leikmenn Atletico Madrid eru margir hverjir í algjörum heimsklassa. Þeir eru mögulega með besta markvörð heims í dag, auk þess að vera með stjörnuleikmenn á borð við Luis Suarez, Joao Felix, Saul Niguez og Koke. Diego Simone staðfesti að Joao Felix myndi byrja leikinn en hann hefur mátt þola mikla bekkjarsetu að undanförnu eftir ósætti við Simone og Renan Lodi (bakvörð Atletico).


Það verður virkilega áhugavert að sjá nálgun Atl Madrid í þessum leik. Þeir eru undir í viðureigninni og þurfa því að sækja til sigurs, en þetta lið Simone er fyrst og síðast byggt upp á gríðarlega þéttum varnarleik og taka þeir jafnan ekki miklar áhættur sóknarlega. Munu þeir halda í þessi gildi gegn okkur í kvöld eða reyna meira að sækja til sigurs? Við skulum ekkert láta okkur bregða ef Atletico spila öflugan varnarleik til að byrja með og reyni að vinna sig inn í einvígið með öflugum skyndisóknum - nákvæmlega þannig slógu þeir út Liverpool á Anfield fyrir rúmu ári síðan.


Diego Simone er einn hæfasti þjálfari heims og hann kann að leggja svona einvígi upp og sækja úrslit í stóru leikjunum - okkar menn verða að vera við öllu búnir, jafnvel þó að fyrri leikurinn hafi endað frábærlega.


Spá

Ég tel það líklegt að um frábæran leik sé að ræða. Fyrri leikurinn endaði í 0-1 sigri okkar manna, og mun Atletico Madrid koma af fullum krafti inn í þennan seinni leik. Þeir hafa í raun engu að tapa, og vilja berjast til síðustu mínútna. Joao Felix og Luis Suarez geta skapað vandræði fyrir varnarmenn okkar, en ef við spilum skipulega í þessum leik, þá býst maður nú við að við siglum þessu heim. Timo Werner, ef hann spilar, þarf að standa sig og sýna hans virði á móti stóru liðunum og í stóru leikjunum, og í raun er þetta fullkomið tækifæri fyrir hann til þess að eiga stórleik. Ég ætla spá 2-1 sigri okkar manna, þar sem Timo og Hudson-Odoi setja sitthvort markið, ásamt því að Luis Suarez nær að klóra í bakkann fyrir gestina.


Þá er bara ekkert annað en að skella sér fyrir framan sjónvarpið, fylgjast vel með, og styðja við bakið á okkar mönnum alla leið í 8 liða úrslitin!


KTBFFH!

-Markús Pálma

Comments


bottom of page