top of page
Search

Meistaradeildin! Chelsea vs Valencia

Keppni: Meistaradeild Evrópu

Dag- og tímasetning: 17.September kl 19:00

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Stöð 2 Sport og BT sport

Upphitun eftir: Stefán Marteinn Ólafsson


Chelsea

Það er komið að því, Meistaradeild Evrópu er að fara af stað og það sem skemmtilegra er þá erum við með í þeirri stórkostlegu keppni! Meistaradeildina þarf ekki að kynna fyrir neinum aðdáendum knattspyrnu en þessi keppni er sú stærsta í félagsliða fótbolta. Chelsea hefur 16 sinnum verið með í meistaradeildinni eins og við þekkjum hana i dag. Besti árangur okkar kom 2012 þegar Didier Drogba og Petr Cech drógu okkur í gegnum úrslitaleikinn gegn Bayern Munchen á Allianz Arena í Þýskalandi (Fyrir áhugasama þá mæli ég með þáttunum “This is Football” á Amazon Prime þar sem þessi leikur er m.a. tekinn fyrir [þáttur 3]).

Við komum inn í þessa keppni sem sigurvegarar Evrópudeildarinnar og drógumst þvi úr potti 1 þegar dregið var í riðla. H-riðill var okkur úthlutað og fáum við verðuga keppni frá liðum eins og Ajax, Valencia og Lille. Við hefjum leik gegn Valencia á Stamford Bridge en þetta er ekki í fyrsta skipti sem við mætum liði Valencia í Meistaradeild Evrópu en við höfum sex sinnum mæst og þrisvar hafa Chelsea hrósað sigri, þrisvar hafa leikar endað jafnir en Chelsea hefur ekki tapað fyrir Valencia í Meistaradeild Evrópu. Síðast þegar við mættum Valencia var í riðlakeppninni tímabilið 2011/12 í lokaleik riðilsins þurftum við sigur til að komast áfram sem varð rauninn en í þeim leik skoruðu Drogba 2 og Ramires. Við vitum öll hvað gerðist síðan í framhaldinu það árið.

Síðan þá hefur hallað svolítið undan fæti hjá okkar liði í deild þeirra bestu en við höfum fengið að kynnast PSG ágætlega, farið í undanúrslit en tapað fyrir Atlético Madrid og síðast þegar við vorum með féllum við út fyrir Barcelona þar sem Courtois þáverandi markmaður hefði þurft net á milli fótanna á sér. Það er ekkert sem ætti að vera í vegi fyrir því að við gætum náð flottum árangri í ár en þegar úrslitakeppnin fer af stað ættum við að vera búnir að endurheimta okkar helstu hlekki úr meiðslum nema mögulega Ruben Loftus-Cheek sem er að eiga við stærstu meiðslin, þar að auki eru getgátur um að við gætum mögulega nýtt okkur janúargluggann til að styrkja hópinn og þar gætu einhver púsl fyrir Lampard legið til að láta vaða á keppnina en við skulum ekki fara framúr okkur. Lítum núna á hvernig liðið kemur stemmt til leiks.

Á meiðslalistanum má helst finna Ruben Loftus-Cheek og nýlega Emerson en Reece James og Callum Hudson-Odoi eru farnir að æfa svo við ættum að fara sjá til þeirra fljótlega. Þá förum við yfir í hvernig búast má við að Super Frank stillir upp liðinu en ég held að hann haldi sömu taktík og gegn Wolves þar sem við fórum með frábæran 5-2 sigur en með smá breytingum á mannskap.

Ég reikna með að Kepa standi í rammanum, Azpi-Zouma-Christensen-Tomori-Alonso manni vörnina, Kanté mun skýla vörnina ef hann verður orðin heill (annars Jorginho) með Kovacic með Mount og Willian í framliggjandi miðju og ég reikna með að reynslan í Giroud fái traustið og Tammy fái smá hvíld þá mögulega með Liverpool leikinn næstu helgi í huga.


Valencia:

Valencia er forfrægt félag frá Spáni og er 5. Sigursælasta lið Spánar á eftir Real Madrid, Barcelona, Atlético Madrid og Athletic Bilbao en þeir hafa 6 sinnum sigrað La Liga og gerðu það síðast tímabilið 2003/04. Ef horft er í All-Time árangur í La liga í formi heildarstiga stendur Valencia í 4.sæti og hoppar þar uppfyrir Atletic Bilbao.

Valencia kemur inn í keppnina í ár sem handhafar 4.sætis á síðata tímabili en síðustu ár hefur verið ágætis uppbygging í Valencia. Það er ýmislegt sem ber að varast í leik Valencia en þeir spila gjarnan 4-4-2 og treysta á hraðar skyndisóknir. Ég reikna með að liðið sem þeir skipa verði þannig að Jasper Cillessen verji markið hjá þeim, Gabriel Paulista (fyrrum miðvörður Arsenal) og Ezequiel Garay myndi miðvaraparið með José Gayá í vinsti bakverði og Daniel Wass í hægri bakverði. Goncalo Guedes og Ferran Torres munu sjá um kantana, Kondogbia mun sjá um að skýla vörnina og gefa Daniel Parejo meira pláss á miðjunni til að skapa og svo munum við væntanlega sjá Rodrigo Moreno og Kevin Gameiro leiða framlínuna. Það er annars erfitt að rýna í þá núna þar sem þeir voru að sparka þjálfaranum sínum Marcelino en ég reikna þó með að fyrst um sinn mun Valencia halda í 4-4-2.

Fylgjast þarf sérstaklega með Guedes og Parejo en sóknaraðgerðir Valencia fara mikið í gegnum þá og þeirra sköpunargáfu. José Gayá er líka sókndjarfur bakvörður sem er með góð overlap og getur komið með stórhættulega bolta fyrir. Gameiro og Rodrigo hafa þá líka fyrir löngu sannað sig sem frábærir framherjar og því þá ekki líta af þeim.

Spá:

Ég hef trú á því að Chelsea klári þetta verkefni. Möguleikar Chelsea liggja myndir ég halda upp vinstra meginn en Valencia missti aðal hægri bakvörðinn sinn í meiðsli rétt fyrir gluggalok og hafa þeir verið að prufa sig áfram í hægri bak með mönnum eins og Daniel Wass sem er að upplagi miðjumaður en sem dæmi lét 16 ára leikmaður Barcelona Ansu Fati hann líta hrikalega illa út í 5-2 tapi núna um helgina en Börsungar leituðu mikið upp vinsti kanntinn með góðum árangri.

Valencia er samt óútreiknalegt lið en ég hef trúa á að við munum ná að hlaupa yfir þá og ná í stigin þrjú sem skipta máli. Langar að spá þessu solid 2-0 þar sem við fáum óvæntan markaskorara í Kurt Zouma og Giroud. Kepa mun eiga stórleik og halda markinu hreinu.

Comentários


bottom of page