top of page
Search

Meistaradeildin: Chelsea - AC Milan




Keppni: Meistaradeild Evrópu

Tími - dagsetning: Miðvikudagurinn 5. Október kl: 19:00

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur: Stöð 2 sport 2

Upphitun eftir: Finn Marinó Þráinsson


Þá er komið að meistaradeildinni.

Chelsea


Jafnvel þó að blóðþrýstingur Chelsea stuðningsfólks hafi rétt svo náð eðlilegum mörkum eftir leik helgarinnar er strax tímabært að rífa fram þrýstingstöflurnar aftur og búa sig undir aðra rússíbanareið.

Hvað er hægt að segja um leikinn á móti Crystal Palace? Þetta var ekki gott.

Það þurfti gullhærða drenginn okkar Gallagher til að bjarga geðheilsu okkar með alvöru snyttu upp í horn á loka sekúndum leiksins.

Varnarmistök, ónýtt færi og sumir myndu kalla okkur heppin að hafa ekki fengið rautt spjald í leiknum.

Það voru þó nokkrir ljósir punktar sem hægt var að taka með sér eftir leikinn. Áran hans Kepa í markinu var einn þeirra. Hann varði nokkur langskot, kom út í teig og greip bolta í háum fyrirgjöfum og virtist vera með sjálfstraustið í lagi. Eitthvað sem hefur ekki beinlínis einkennt manninn síðustu ár.

Einnig var frábær tilfinning að sjá Aubameyang skora alvöru striker mark í teignum. Þetta er nákvæmlega það sem liðinu vantar. Vonandi kviknar almennilega í honum eftir þetta mark.


Af meiðslum að frétta er þetta helst: Mendy er klár í slaginn. Kante er ekki 100% og Jorginho og Havertz gætu þurft að sitja á bekknum.





AC Milan


Það er óhætt að segja að ýmislegt hafi gengið á hjá núverandi meisturum í spaghettí deildinni við miðjarðarhaf. Biðinn eftir Scudettunni tók loks enda eftir 11 ár af sársauka fyrir þá röndóttu í rauðu og svörtu.

Síðastliðinn áratug hefur “Gamla konan” frá Turin gjörsamlega dominerað í Ítölsku deildinni fyrir utan tímabilið 20-21 þar sem að Conte gerði erkifjendur AC Milan að meisturum.


Fjármal, eigendaskipti, fáránlegar leikmannasölur og ýmislegt fleira hefur plagað klúbbinn síðustu ár og er það efni í heilan pistil hjá okkar eigin Milanista og meðlim í ritstjórn Cfc.is, honum Hafsteini Árnasyni. Það er of djúpt í árina tekið að ætlast til að ég nenni hreinlega að rýna svo djúpt í sögu klúbbsinns. En snúum okkur aftur að fótboltanum!


Gengi AC Milan í meistaradeildinni hefur verið upp og niður síðustu ár. Liðið hefur átt erfitt með að komast upp úr riðlunum sínum og hefur einungis einu sinni komist lengra en í 16-liða úrslit síðan þeir unnu bikarinn árið 2007 gegn Liverpool.

Á síðasta tímabili lenti Milan í neðsta sæti síns riðils með 4 stig eftir einn sigur, eitt jafntefli og 4 töp. Mótherjar liðsins voru Liverpool, Porto og Atletico Madrid.


Meiðslalistinn hjá Milan er rosalegur. Eftirtaldir leikmenn eru meiddir: Davide Calabria, Simon Kjær, Alexis Saelemaekers, Mike Maignan, Theo Hernandez og Florenzi. Heimildarmenn telja einnig einungis helmings líkur á að Origi og Messias spili. Adli, Bakayoko, Zlatan Ibrahimovic og Tatarusanu eru ekki í meistaradeildarhóp liðsins og verður því að segjast að hópurinn hjá þeim sé verulega þunnur. Ef ég er að lesa rétt í aðstæður eru einungis tveir alvöru varnarmenn heilir og eini tilbúni markmaðurinn er þeirra þriðij kostur. Þetta verðum við að nýta.





Byrjunarlið


Það þekkist frá tíma Potter hjá Brighton að erfitt sé að spá fyrir um byrjunarlið og uppstillingu liðsinns sem hann stýrir. Hann getur verið alveg óútreiknanlegur þegar kemur að uppstillingu. Í síðasta leik stillti hann upp mjög “fljótandi” 4-2-2-2 kerfi þar sem leikmenn, þá einna helst framherjar máttu skipta um stöður. Þegar að Crystal Palace sóttu þungt virtist uppstillingin breytast yfir í 4-4-2.


Ég held að hann haldi sig við þetta kerfi í leiknum á móti Milan. Ég hef það á tilfinningunni að þetta sé það kerfi sem hann vilji spila frekar en að stilla upp þremur miðvörðum. Það gæti orðið ansi brothætt þar til liðið hefur vanist því en þetta kemur allt með kalda vatninu.


Það er rosalegt leikjaálag framundan í október og ég held að Potter neyðist til að rótera liðinu eins mikið og hann telur öruggt. Ég held að við sjáum Kepa aftur á milli stanganna með Koulibaly og Fofana fyrir framan sig. Reece James verður í hægri bakverði og Ben Chilwell vinstrameginn. Fyrir ofan varnarlínu verða Jorginho og Kovacic. Svo held ég að Conor Gallagher fái sénsinn með Mount sér við hlið. Uppi á topp verða svo þeir Sterling og Aubameyang.





Spá


Þetta verður alls ekki auðveldur leikur þrátt fyrir meiðslin hjá Milan. Okkar maður Giroud hefur brillerað í Milanóborg og menn eins og Leao geta verið stórhættulegir.

Eitt er víst og það er að við verðum að sækja á þessa örþunnu varnarlínu AC Milan.


Ég býst við að við fáum á okkur mark, en gamla reglan segir okkur að við verðum þá bara að skora fleiri mörk en andstæðingarnir. Þessi leikur fer 3-1 okkur í hag. Sterling, Auba og James sjá um markaskorun hjá okkur og Chelsea “cult” hetjan Giroud setur eitt.


KTBFFH!



Comments


bottom of page