Keppni: Premier League
Tími, dagsetning: Miðvikudagur 6. desember kl: 20:15
Leikvangur: Old Trafford
Dómari: Chris Kavanagh
Hvar sýndur: Síminn Sport og helstu sportbarir landsins
Upphitun eftir: Hafstein Árnason
Það er óhætt að segja að Chelsea slapp með skrekkinn í leiknum gegn Brighton um liðna helgi. Eftir að hafa komist 2-0 yfir nokkuð óvænt með mörkum frá Colwill og Enzo, seig á ógæfuhliðina þegar Conor Gallagher, nældi sér í tvö heimskuleg gul spjöld á 14 mínútna kafla. Hann fauk því útaf rétt fyrir hálfleik, sjálfur fyrirliðinn. Þetta er annað skiptið í röð að fyrirliði liðsins lætur reka sig útaf, og þetta var með þeim glannalegri atvikum sem ég man eftir. Raunar hefur Chelsea liðið safnað flestum spjöldum af öllum liðum. Þau eru hátt í 50 talsins og þar af eru 3 rauð. Mörg gulu spjöldin eru vegna heimskulegra atvika eins og kjaftbrúks. Pochettino tók þetta sérstaklega fyrir á liðsfundi í vikunni. Þessa spjaldaáráttu þarf að stöðva einn, tveir og bingó.
Stuttu áður en Conor fauk útaf náðu Brighton að minnka muninn í 2-1 með marki frá Facundo Buonanotte. Fljótt uppúr seinni hálfleik tók De Zerbi fjórfalda skiptingu og setti inn á Milner, Mitoma, Pascal Gross og Joao Pedro. Brighton voru með hvert áhlaupið eftir annað, en gegn gangi leiksins náði Chelsea sér í vítaspyrnu, sem Enzo skoraði úr á mitt markið. Pochettino brást við með því að setja Cole Palmer, Ian Maatsen og Armando Broja inn á með skömmu millibili. Maatsen var færður hægra megin til að hjálpa til við að stöðva Mitoma, sem var gjörsamlega að hægelda vörnina. Hann komst ítrekað aftur fyrir Disasi og var hættulegasti leikmaður liðsins. Moises Caicedo átti í stökustu vandræðum allan leikinn og var ótrúlega heppinn að haldast inn á vellinum. Af einhverjum furðulegum ástæðum var 10 mínútum bætt við leiktímann. Chelsea voru upp við kaðlana allan tímann og Brighton náðu að minnka muninn með marki frá Joao Pedro. En leikmenn Chelsea héldu þetta út og lokastaðan 3-2. Kærkomin heimasigur og miklir slagsmálapústrar milli leikmanna í leikslok. Við þökkum fyrir þessa þrjá punkta.
Það er stutt hvíld á milli leikja í desember. Framundan er leikur við Manchester United á Old Trafford. Liðsmenn hins ósympatíska Erik Ten Hag hafa verið í bölvuðu brasi á þessu tímabili. Þeir hafa spilað ekkert sérstaklega vel í flestum leikjum, en hafa þó sótt úrslit þrátt fyrir ósannfærandi frammistöður. Fyrr í vikunni hafa fréttir borist af því að Ten Hag sé við það að missa klefann. Fréttamenn Sky Sports fullyrtu að mikið ósætti væri meðal leikmanna um meðferð á Jadon Sancho, og skipulag og tilgangur æfinga sé dreginn í efa. Það er ekki óeðlilegt að draga þá ályktun að Raphael Varane, Jadon Sancho og Marcus Rashford séu gríðarlega óánægðir í augnablikinu. Þetta gerist í kjölfar þess eftir að Harry Maguire var hent á bekkinn eins og hverri annari kúkableyju þegar allir aðrir miðverðir voru heilir heilsu. Erik Ten Hag þurfti að svara fyrir ýmislegt á blaðamannafundi í gær. Þar kom í ljós að hann hafi bannað vissum fjölmiðlum, m.a. Sky Sports og The Athletic að mæta á fundinn. Þarf kannski ekki að eyða mörgum orðum í þetta en lesendur geta séð fundinn hérna:
Leikmenn Manchester United, eða að minnsta kosti stór hópur liðsins, virðast ekki hafa trú á Erik Ten Hag og þjálfunaraðferðum hans. Þar að auki hópurinn skringilega samsettur, þrátt fyrir meiðslin. Við þekkjum að Mason Mount hentar best framarlega á vellinum og Sofyan Amrabat er ekki hægri bakvörður. Luke Shaw ekki miðvörður, en samt hafa þeir verið settir í þær stöður. Stærsta spurningin er hvort Marcus Rashford verði á hægri kantinum, sem hann er bersýnlilega hundóánægður með. Hinsvegar verður að benda á sumir leikmenn hafa vakið athygli fyrir góðar frammistöður t.d. Alejandro Garnacho og furðulega sagt, Scott McTominay, sem er ágætur leikmaður með mikinn baráttuanda, en þegar sá er settur undir pressu, er hann enginn Andrea Pirlo eða Roy Keane. Bruno Fernandes þekkja allir. Líklega þarf að stöðva hann sérstaklega til að stífla sóknarleikinn hjá Manchester United. Við erum með fara mæta þeim á helvíti þægilegum tímapunkti, þegar klefinn logar í björtu báli, ef marka má fjölmiðla. Yfirleitt höfum við mætt United þegar þeir eru nýkomnir með nýjan stjóra í "bounceback" fíling, en kannski leiðir þetta til þess að þetta verði einn af síðustu leikjum Ten Hag! Höfum þó í huga að Chelsea hefur ekki unnið á Old Trafford síðan 2013, þegar Juan Mata setti hann í blálokin - sælla minninga.
Chelsea
Pochettino var nokkuð brattur á fréttamannafundinum. Hann tók það sérstaklega fram að Christopher Nkunku verður ekki með í leiknum á Old Trafford. Við vonum að hann verði klár í næsta leik. Romeo Lavia verður heldur ekki með, ásamt því að Lesley Ugochukwu og Noni Madueke eru að glíma við smávægileg meiðsli. Þannig að meiðslalistinn er óbreyttur í rauninni, plús þessir tveir. Hinsvegar koma Marc Cucurella og Reece James til baka úr leikbanni á meðan Conor Gallagher tekur út sitt. Þetta þýðir þá að byrjunarliðið verður nokkuð svipað og í leiknum gegn Brighton. Gallagher dettur út fyrir Cole Palmer að öllum líkindum, þannig að Mudryk heldur vinstri kantstöðunni og Raheem Sterling þeirri hægri. Aðal spurningin er hvað verður um varnarlínuna. Er Pochettino að fara stilla upp Thiago Silva aftur upp með svona stuttu bili á milli leikja? Hver verður vinstri bakvörðurinn? Colwill eða Cucurella? Reece James mun sennilega koma í hægri bakvörðinn. Ég spái því að liðið verði Sanchez í marki. Colwill í vinstri bakverði. Thiago Silva og Disasi miðverðir, þó það kæmi mér ekki á óvart ef Badiashile fengi traustið á kostnað Thiago Silva. Reece James verður í hægri bakverði. Enzo og Caicedo á miðjunni. Cole Palmer í stöðunni hjá Gallagher. Mudryk og Sterling á bakvið Nico Jackson.
Ef ég ætti að giska á byrjunarliðið hjá Manchester United, þá verður Onana á milli stanganna, Wan Bissaka í hægri bakverði, Luke Shaw vinstri. Lindelöf og Maguire miðverðir. McTominay og Mainoo á miðjunni með Bruno fyrir framan þá. Garnacho er búinn að eigna sér vinstri kantstöðuna og Hojlund verður frammi. Hinsvegar er spurningin hvort Ten Hag velji áhugalausan Marcus Rashford eða getulausan Anthony á hægri kantinn. Ég myndi veðja á þann seinni, þar sem frammistaða Rashford gegn Newcastle var forkastanleg. Meiðslalistinn er þokkalega langur hjá Manchester liðinu. Þeir verða án Casemiro, Christian Eriksen, Johnny Evans, Lisandro Martinez, Mason Mount og Tyrell Malacia. Búast má við því að bæði lið fylli bekkina af ungum og efnilegum leikmönnum.
Hvernig fer leikurinn? Það er nú það. Ef það verður skrítin stemmning á Old Trafford, þá er næsta víst að Chelsea vinni leikinn 0-2. Ef áhorfendurnir rífa upp heimamenn fer leikurinn í jafntefli, eins og alltaf! Segjum þá 2-2. Raheem Sterling skorar loksins gegn Manchester United, hann hefur nefnileg aldrei gert það... hvorki með Liverpool né Manchester City! Palmer skorar svo úr vítaspyrnu. Það verður dramatík!
KTBFFH!!
P.s. muna að skrá sig í Chelsea klúbbinn. Það eru bara nokkrir dagar eftir af skráningunni fyrir þetta tímabil!
Comments