Dag- og tímasetning: Sunnudagurinn 8. janúar 2023
Leikvangur: Etihad Stadium
Hvar er leikurinn sýndur? Stöð 2 sport 2
Upphitun eftir: Markús Pálma Pálmason
Chelsea:
Maður veit varla hvernig hægt er að byrja pistil eins og þennan. Tilfinningar ennþá frekar viðkvæmar eftir síðasta leik, þar sem frammistaða liðsins var betri en hún hafði verið í einhvern tíma. Samt tapast leikurinn. Jákvæðir punktar og allt það, en það er erfitt að réttlæta það að tapa síðustu 5 leikjum af 9, hvað þá ef við tökum æfingarleikinn gegn Aston Villa með líka. Það er hægt að fara djúpt í greiningar á því hvernig þetta klikkaði gegn City á fimmtudaginn, en fyrir mitt leyti voru þetta bara ein hræðileg mistök hjá Kepa. Hins vegar er eitt sem er augljóst. Eitthvað sem er á vörum allra, og hefur sett mikinn þunga á gengi okkar undanfarið. Á meiðslalistanum fyrir leik voru N’Golo Kante, Ruben Loftus-Cheek, Ben Chilwell, Reece James, Edouard Mendy, Wesley Fofana og Armando Broja. Mason Mount meiðis á æfingu fyrir leik, og svo meiðast Christian Pulisic og Sterling. 9 leikmenn á meiðslalistanum, og af þeim 6 byrjunarliðsmenn. Ef að frammistaðan í 0-1 tapinu gegn City á að sýna okkur eitthvað, að þá höfum við alla vega mikið til þess að hlakka þegar menn fara að koma tilbaka úr meiðslum. Við getum búist við að fá alla vega 4-5 leikmenn tilbaka á næstu 2 vikum.
Það að tapa gegn City er aldrei skemmtilegt. Það vekur aldrei upp góðar tilfinningar. Kannski er það í ljósi þess að rekstur félagana er líkur eða bæði lið hafa verið á toppnum í Evrópu seinasta áratug. Sama hvað, þá verðum við að geta horft fram á við. 10. sætið er það sem við erum að díla við í augnablikinu, en þó erum við aðeins 10 stigum frá 4. sætinu og með leik til góða á 3 af 6 liðunum fyrir ofan okkur. Það hefur ekki reynst auðvelt að spá fyrir um hvernig byrjunarliðið okkar mun líta út. Það sem gerir það enn erfiðara en að meiðslalistinn sé langur, er að svo eru nokkrir af þeim sem eftir eru alls ekki að standa sig. Bestu dæmin um þetta eru líklegast Aubameyang, Cucurella og Havertz. Aubameyang var eins týndur og hægt er að vera í síðasta leik. Átti ekki breik í City liðið, og færði liðinu í raun ekkert nema smá vinna tilbaka. Sama gildir í raun um Havertz. Strákurinn hefur gæði í sér, það fer ekki á milli mála, en allur okkar sóknarleikur hægist um helming þegar hann fær boltann. Ekkert við það er eðlilegt þegar flestir okkar sóknarleikmenn vinna einmitt mest úr hraðanum sínum.
Ég áætla að Potter ætli að taka ákveðna nálgun á þetta tímabil, í ljósi þess að Mirror hefur gefið út pistil um að Potter fái traust þó hann nái ekki í 4 efstu sætin í deildinni. Það sem væri áhugavert hjá Potter væri að stefna á titil. FA Cup er mjög virt bikarkeppni, sú elsta í heiminum, og að vinna hana er mikið afrek. Ég gæti séð fyrir mér að Potter fari bara alveg “all-in” í þetta fyrirkomulag. Þess vegna tel ég líklegt að hann haldi einhverjum af þeim sömu úr byrjunarliðinu í seinasta leik, þrátt fyrir að gera að sjálfsögðu einhverjar breytingar.
Svona spái ég byrjunarliði okkar:
Manchester City
Bláliðar frá Manchester. The Citizens. Litli bróðirinn í norðrinu. Manchester City hefur alltaf verið á sérstökum lista hjá mér. Sem harður CFC stuðningsmaður, þá fylgir það því oft að maður hefur litla þolinmæði fyrir öðrum liðum. Af einhverjum ástæðum átti þetta aldrei við um City hjá mér. Ég horfði alltaf á þá sem svona “wanna be” liðið í BPL sem vildi bara “vera með” hinum stórliðunum. Gler, hús, steinar, og allt það dót, en samt sem áður hafa þeir sýnt að þeir eru án efa eitt besta lið í Evrópuboltanum, og hafa verið seinasta áratug.
Pep sýndi sín gæði sem þjálfara í síðustu viðureign gegn okkur, þar sem hann kom með alvöru taktíska ákvörðun þegar hann skipti fyrst út Kyle Walker og Joao Cancelo fyrir Rico Lewis og Manuel Akanji. Akanji átti svo eftir að eiga frábæran seinni hálfleik. Svo kom skiptingin sem skipti öllu máli. Jack Grealish og Riyad Mahrez komu inn á fyrir Bernardo Silva og Phil Foden. Bæði Foden og Silva höfðu lítið getað í fyrri hálfleik, og þrátt fyrir nokkra fína kafla í byrjun seinni hálfleiks, að þá fannst Pep það ekki nóg. Mahrez átti svo eftir að skora sigurmarkið á 63. mínútu, eftir stoðsendingu frá engum öðrum en Jack Grealish.
Svekkjandi að tapa, ennþá meira svekkjandi að tapa gegn City, en það sem var mest svekkjandi er að tapa á heimavelli út af engu öðru en einum litlum mistökum. Að sjálfsögðu setja meiðsli strik í reikninginn, en ekki svo mikið strik þar sem tapið var aðeins 0-1. Ef að liðið sem við tefldum fram var svona svakalega slappt, þá hefðum við tapað töluvert stærra en við gerðum. Við áttum frábæran fyrri hálfleik, ef borinn saman við seinustu leiki hjá okkur, en ein lítil mistök hjá Kepa var það sem gerði útaf við okkur. Nú eru City í bullandi titilbaráttu við Arsenal, og þeir hafa þá í miklu að snúast þar. Ég ætla að spá fyrir því að þeir tefli fram allt öðru liði en í síðasta leik.
Líklegt byrjunarlið Manchester City:
Spá:
Ég spái fyrir um alvöru leik, útileikur fyrir okkur, hefnd í vændum. Ég held að þetta verði hörku viðureign, og alvöru tækifæri fyrir okkar menn að sýna að við erum ekki lið sem á heima í 10. sæti í deildinni, og hvað þá lið sem á að hræðast önnur stórlið. 1-2 sigur verður lokaniðurstaðan, þar sem City kemst yfir eftir mark frá Alvarez snemma í leiknum. Í seinni hálfleik snúa okkar menn þessu við og Chukwuemeka kemur okkur aftur inn í leikinn, áður en að Conor Gallagher skorar sigurmarkið á síðustu 5-10 mínútum leiksins!
KTBFFH!
Comments