Keppni: Úrvalsdeildin
Tími, dagsetning: 25. janúar kl:17:30
Leikvangur: Etihad Stadium, Manchester
Dómari: John Brooks
Hvar sýndur: Síminn Sport
Upphitun eftir: BFR - Bjarni Reynisson

Aftur á sigurbraut eftir glæsilega frammistöðu í síðari hálfleik gegn Wolves. Þetta er það sem stóð upp úr eftir leikinn: Cucurella getur spilað hvar sem er á vellinum og er með vinnusemi á við tvo leikmenn, ef ekki þrjá. Marka þurðin hjá Jackson heldur áfram þrátt fyrir að hann kom boltanum í netið með fínni afgreiðslu, var hann réttilega dæmdur rangstæður. Chalobah áhrifin - Hann elskar þennan klúbb, maður leiksins í endurkomunni úr láni. Hefðum aldrei átt að útskúfa hann og senda á lán til að byrja með. Spilaði vinstra megin í dag og sýnir Maresca kosti sína er varða fjölhæfni. Sanchez…verð að rífa hann í mig, hversu oft þurfum við að þola mistökin frá honum. Með átta markmenn á launaskránni eru þið í alvörunni að segja mér að hann sé besti kosturinn. Ég geri mitt besta í að reyna að styðja greyið manninn en á einhverjum tímapunkti þarf að segja “nú er komið nóg”. Einnig komið nóg hjá Disasi sem fékk traustið til að leysa Reece James af í hægri bakverðinum, vonandi smá auglýsinga herferð í gangi til að koma manninum út í þessum glugga, en hann er orðaður við Atalanta. Þrátt fyrir að Madueke kom boltanum vissulega í netið, þá vita allir sem sáu leikinn að Chalobah hefði átt að fá skráð á sig mark í endurkomunni en ekki stoðsendingu. Ein lausn til að bæta markaskorunina okkar; Tosin frændi upp á topp! Þrjú mörk í síðustu þrem leikjum er klárlega tölfræði sem að sóknarmennirnir okkar væru til í að vera með. Kapteinn Reece - augljóslega búnir að sakna hans. Megi hann haldast heill um ókomna tíð, amen.
Það ríkir hörð barátta um meistaradeildarsæti um þessar mundir og framundan gífurlega mikilvægur leikur fyrir okkar menn er þeir sækja Manchester City heim. Það leikur enginn vafi í mínum huga að Chelsea verður að minnsta kosti í Evrópudeildinni á næsta tímabili, því að við erum allan daginn að fara að vinna Sambandsdeildina. Við vitum samt öll að við eigum heima í deild þeirra bestu, Meistaradeildinni og tími er kominn á að við tengjum saman nokkra sigra í röð og skjóta föstum rótum í topp fjórum. Ég vil að loftið í Manchesterborg verið salt af tárum stuðningsmanna þeirra ljósbláu þegar við tryggjum okkur stigin þrjú og aukum stiga forskotið á City. Enzo Maresca mætir á sinn gamla heimavöll, Etihad, þar sem hann starfaði um skeið við hlið Pep Guardiola. Maður myndi ætla að það samstarf gefi Maresca smá nöf til að byggja á gagnvart City. Við mættum City í fyrsta leik tímabilsins á Stamford Bridge og fór sú viðureign 2 - 0 fyrir gestunum. Margt vatn er runnið til sjávar síðan og Maresca hefur fengið góðan tíma með hópnum til að skerpa á leikstílnum og taktíkinni. Það er samt ákveðið áhyggjuefni að við höfum ekki unnið þá ljósbláu í síðustu 11 viðureignum. Þeir taka á móti okkur í ágætis formi með 22 mörk skoruð í síðustu fimm leikjum sínum. City tók síðu úr leik bókinni okkar þegar þeir fengu Erling Haaland til að krota á nýjan 10 ára samning á dögunum en hann og Phil Foden hafa verið að finna markaskóna sína í undanförnum leikjum. Haaland með fjögur í síðustu fimm og Foden með fimm. Þeir áttu þó ekki sjö dagana sæla undir lok síðasta árs. Það var síðasta stráið sem braut bakið á kameldýrinu þegar Pep Guardiola samþykkti nýjan samning við City til ársins 2027 sem knúði konu hans, Cristinu Serra, til að sækjast eftir skilnaði (líklega). Slæma gengi City manna hófst stuttu eftir að sást til þeirra hjúa rífast á veitingastað í Barcelona. Frá 30. október til 26. desember spiluðu þeir 13 leiki, töpuðu níu, unnu einn og þrjú jafntefli. Persónulega hefði ég verið til í að Cristina hefði beðið í svona átta vikur með að hætta með kallinum.

Okkar menn eru eins og ég nefndi hér að ofan að komast aftur á sigurbraut eftir að hafa átt erfitt uppdráttar í síðustu leikjum. 11 mörk í síðustu fimm leikjum í öllum keppnum er einfaldlega ekki nógu gott, sér í lagi þegar fimm af þeim voru skoruð á móti Morecambe í bikarnum. Maresca hafði orð á því sjálfur að vængmennirnir okkar þurfa að auka framlagið sitt í marka skoruninni. Sóknarlínan okkar er líklega sú þriðja besta í deildinni og það er í lagi að biðja um meira. Margir aðdáendur hafa verið að kalla eftir að Maresca geri skiptingarnar sínar fyrr og þar er ég sammála. Væri svo galið að taka einn vængmann útaf og færa Palmer yfir á hægri vænginn og leyfa Felix að spreyta sig í tíunni. Eða jafnvel að skipta sóknarmanni útaf fyrir miðvörð þegar við þurfum að múra fyrir í erfiðum leikjum þar sem við erum með forystuna. Það sitja spólgraðið menn á bekknum sem dauðlangar að hafa áhrif, bæði uppaldir og aðkeyptir. Meiðslalistinn hjá okkar mönnum er ekki langur en vegur þungt en þar má finna Enzo Fernandez, Romeo Lavia og Wesley Fofana. City glíma einnig við sín meiðsli en þar má helst nefna Rodri og Nathan Aké.
Það er ekki hægt að leysa öll vandamál með því að henda peningum á þau. Chelsea er búið að vera að fjárfesta jafnt og þétt í ungum og efnilegum leikmönnum. Þeir eru margir hverjir sendir á lán til þess að fá meiri spilatíma og þroskast sem leikmenn. Mér finnst mikilvægt að gefa þessum leikmönnum tækifæri með liðinu, sérstaklega á tímum eins og núna, þegar við erum með meiðsla vandræði. Þunnskipaðir á miðjunni, Andrey Santos er á láni hjá Strasbourg og gæti komið sterkur inn, þurfum ekki að spreða í Kobbie Mainoo eða fá Douglas Luiz á láni frá Juventus. Lesley Ugochukwu hefur einnig verið að gera góða hluti hjá Southampton eftir að hann byrjaði að fá mínútur fyrir Dýrlingana. Samuel Rak-Sakyi er svo Cobham strákur sem hefur verið að fá mínútur í Sambandsdeildinni. Möguleg vandræði á vinstri vængnum því að Mudryk er líklega á leiðinni í fjögurra ára bann? Ekkert mál. Neto getur spilað vinstra meginn og svo erum við með Tyrique George sem er mikið efni og gæti þá komið inn á hægri væng. Jackson spilaði á vinstri vængnum hjá Villarreal og gæti nýttst þar ef að við viljum gefa Nkunku fleiri mínútur upp á topp, eða jafnvel Marc Guiu. Svo má ekki gleyma að við erum að fá brasilískt undrabarn sem heitir Estevao Willian á næsta tímabili, hann er vængmaður. Af hverju ættum við þá að fara að sækja Garnacho núna til Manchester United í janúar? Svo að við getum sent hann eða Estevao út á lán á næsta tímabili. Einhver má vinsamlega útskýra þetta fyrir mér því að ég botna ekki í sumum af þessum orðrómum.
Það sem er hins vegar búið að gerast í glugganum hingað til er að Chalobah (25) var kallaður aftur. Frábær ákvörðun! Renato Veiga (21) er farinn á láni til Juve út tímabilið fyrir £4m. Við fengum hann á £12m, góð viðskipti og auka líkurnar hjá Veiga að verða valinn í portúgalska landsliðið. BlueCo verslar þá Mamadou Sarr (19) frá BlueCo, keyptur frá RC Strasbourg fyrir £11,9m. Hann er sagður hafa svipaða eiginleika og Wesley Fofana en ver restinni af tímabilinu á láni hjá Strasbourg. Þá hafa félagsskipti hins unga Dastan Satpaev (16) gengið í gegn fyrir £3,37m. Annar ungur og efnilegur sem var kallaður úr láni er Aaron Anselmino (19), bakvörður sem keyptur var í sumar glugganum fyrir þetta tímabil frá Boca Juniors, þar sem hann var á láni. Spennandi leikmaður sem er nú þegar byrjaður að æfa með aðalliðinu. Framherjar orðaðir við klúbbinn eru þá Liam Delap (21) hjá Ipswich, Dusan Vlahovic (24) hjá Juventus og Mathys Tel (19) hjá Bayern. Aðrir kantmenn, fyrir utan Garnacho (20) sem ég nefndi hér að ofan, eru þá Jamie Gittens (20) og Karim Adeyemi (23) hjá Dortmund. Þá yrði hinn síðarnefndi eingöngu skoðaður sem kostur til að fá á láni. Að venju erum við svo orðaðir við markmenn en þar má nefna Caoimhin Kelleher (26) sem spilar fyrir Liverpool og Zion Suzuki (22) sem leikur fyrir Parma. Mín tvö sent á orðróminn eru þessu: Kaupa framherja til að veita Jackson alvöru samkeppni, ætti að vera Delap að mínu mati. Fá vængmann á láni út tímabilið, hefði ekkert á móti Adeyemi til að vera hreinskilinn, treysta svo á ungu strákana á næsta tímabili. Kalla annaðhvort Andrey Santos eða Ugochukwu til baka úr láni til að gefa okkur meiri breidd í miðsvæðinu. Láta Trevoh Chalobah, Josh Acheampong og Anselmino duga sem breidd fyrir vörnina.
Carney Chukwuemeka var mikið orðaður við Dortmund, en þær sögusagnir hafa dáið niður eftir að stjóri þeirra Nuri Sahin var látinn taka poka sinn fyrir nokkrum dögum. Bayern hafði mikinn áhuga á Nkunku, en £60m verðmiðinn fældi þá frá. PSG hafði einnig áhuga en það var áður en þeir fengu Khvicha Kvaratskhelia. Einhver áhugi var einnig á Felix, lánsáhugi frá AC Milan, en Chelsea hefur ekki áhuga á að lána hann út. Ég tel að flestir séu sammála um að Axel Disasi þarf að finna sér nýjan klúbb, Ben Chilwell sömuleiðis þar sem að það er dagsljóst að hann sé ekki að fara að fá neinar mínútur. Kiernan Dewsbury-Hall hefur ekki gert nóg að mínu mati til að halda honum en West Ham er mögulegur áfangastaður. Sér í lagi þegar Andrey Santos og Kendry Paez eru væntanlegir á næsta tímabili. Ef að Maresca ætlar ekki að nota Chukwuemeka þá vil ég að klúbburinn finni lán handa honum eða hreinlega selji hann. Hann er of góður til að fá engar mínútur.
Þegar Úlfarnir jöfnuðu eftir enn ein mistök Robert Sanchez undir lok fyrri hálfleiks í leiknum gegn Wolves þá hugsaði ég “guð minn eini almáttugur, okkur er fyrirmunað um að vinna leik á sannfærandi máta”. Janúar harðlífið hefur strítt okkar mönnum, það mikið að sumir aðdáendur halda því fram að bölvun hvíli á mánuðinum. Ég tók að mér það verkefni að rýna í þetta janúar gengi undanfarin fimm tímabil í deildinni, til að reyna að sanna eða afsanna þessa bölvun. Það sem vakti athygli mína er að fjöldi sigra og tapa er alltaf jafn hátt gildi. En heildartölfræðin er 20 leikir spilaðir, sex sigrar, sex töp og átta jafntefli. Ef gengið er skoðað þennan janúar mánuðinn þá er kominn einn sigur og tvö jafntefli. Hjátrúafullir myndu því líklega spá því að Chelsea lúti lægra haldi gegn Manchester City, þar sem að janúar mánuðurinn, í deildinni, þetta tímabil er D2 W1. En ég er ekki hjátrúafullur og tel að við getum brotið bölvunina. Mín spá er 2 - 1 sigur, Palmer skorar af punktinum í seinni hálfleik, lendum í orrahríð undir lok leiks frá City en stöndum þetta af okkur.
Mennirnir sem að munu tryggja að spá mín rætist eru; Robert Sanchez í marki, þrátt fyrir sín mistök þá er ekki rétti tíminn að breyta til fyrir jafn mikilvægan leik. Reece James, Levi Colwill (ef hann er heill), Trevoh Chalobah, Cucurella í varnar línunni. Caicedo og Dewsbury-Hall á miðjunni. Sancho, Palmer, Jackson og Madueke.
Takk fyrir lesturinn, áfram Chelsea og KTBFFH!!!!!
Comments