top of page
Search

Man City - Chelsea

Keppni:  Premier League

Tími, dagsetning:   Laugardagur 17. febrúar 2024, kl: 17:30

Leikvangur:  Etihad Stadium, Manchester

Dómari:  Andrew Madley

Hvar Sýndur:  Síminn sport

Upphitun eftir:  Þráinn BrjánssonÞá er komið að risaverkefni fyrir okkar menn! Nú er stefnan tekin á Etihad völlinn í Manchester, þar sem röðin er komin að Pep Guardiola og hans bláklæddu lærisveinum. Það er ákveðin spenna í manni fyrir þessum leik og eftir frábæra seinnihálfleiks frammistöðu gegn Crystal Palace á dögunum. Maður fær á tilfinninguna að eitthvað geggjað gæti gerst á laugardaginn. Það er þó í hæsta máta skrítið að fyllast bjartsýni, eftir einn og hálfan góðan leik, en maður reynir jú að hafa bjartsýnina að leiðarljósi, því ekki hafa góðu stundirnar verið það margar sem af er tímabili.


Það var svosem ekkert sem benti til bjartsýni í fyrri hálfleik liðsins gegn Palace. Við vorum framan af, 80% með boltann, en nákvæmlega ekkert gerðist og spilið einkenndist af miðjumoði sem endaði á sendingu á Petrovic. Allt virtist stefna í enn einn grútleiðinlegan leik. Ekki batnaði það þegar Jefferson Lerma skoraði mark úr langefstu hillunni og Crystal Palace með eins marks forystu í hálfleik. Í hálfleiknum sendi svo diskótekarinn á vellinum okkur hjartnæma kveðju og lék Three Little Birds með Bob Marley heitnum, og hljómaði “Don´t worry about a thing, cause every little thing is gonna be alright” og kunnum við honum alúðarþakkir fyrir!

Þessi kveðja hefur sannarlega blásið okkar mönnum í brjóst, því það var allt annað lið sem kom inn á völlinn í seinni hálfleik. Ekki yrði ég hissa þó þetta lag yrði sungið á hverjum einasta leik okkar manna framvegis. Nkunku var skipt inná fyrir Madueke sem var þó búinn að standa sig ágætlega. Það var hins vegar Conor nokkur Gallagher sem jafnaði leikinn á 47. mínútu og holningin á liðinu varð allt önnur, en það var ekki fyrr en á 91. mínútu sem Gallagher tryggði okkur sigurinn og Enzo bætti svo þriðja markinu við á 94. mínútu og 1-3 sigur okkar manna staðreynd.


Það var þó ekki allt sem gekk sem skyldi og enn er Moises Caiceido í bullandi vandræðum. Það var vandræðalegt hvað drengurinn lét hirða af sér boltann hvað eftir annað. Ég veit ekki með aðra en mikið rosalega hrífur þessi drengur mig lítið! Ég er hreinlega á þeirri skoðun að það væri farsælast að losa okkur við hann í sumar og reyna að fá þá eitthvað fyrir, því hann er all verulega farinn að hrapa í verði. Jackson var ekki sannfærandi og Cole Palmer sást lítið framan af leik, en átti svo góða spretti, en Gallagher var sannarlega maður leiksins og held ég að nú ætti stjórnin að setjast niður með honum og bjóða honum að krota undir einhvern sniðugan samning. Sem betur fer virðist Enzo vera þó hægt og rólega að finna taktinn og er sannfærður um að hann vex með hverjum leik. Fyrri hálfleikurinn var hræðilega leiðinlegur og það er alveg ótækt að liðið þurfi að vera svona seint í gang. Ekki kvarta ég þó ef mörkin komi seint, þar sem þrír punktar eru þrír punktar. Hins vegar hefur leikurinn ekki farið vel í Roy gamla Hodgson, en hann veiktist þegar hann stjórnaði æfingu í vikunni. Hann var fluttur á sjúkrahús þar sem hann gengst undir ítarlegri rannsóknir. Við óskum Roy gamla bata, en því miður er líklega komið að leiðarlokum hjá þeim gamla og stjórnendum Crystal Palace. Þeir eru alvarlega að íhuga að ráða Oliver Glasner þjálfara Eintracht Frankfurt (áður LASK Linz) í stöðu Hodgson. Glasner hefur gert áhugaverða hluti, sérstaklega í Frankfurt.


Chelsea 

Það virðist vera nóg að gera á skrifstofunni hjá klúbbnum um þessar mundir. Stjórnin er þessa dagana, enn og aftur, að reyna að sjanghæja mönnum frá Brighton, en nú hafa þeir augastað á Sam Jewell (syni.... Paul Jewell) sem er yfir leikmannamálum  (Head of recruitment) og hefur náð býsna góðum árangri. Talið er að Manchester United hafi einnig áhuga á að fá hann til liðs við sig. Nú berast sú tíðindi að klúbburinn geti eytt allt að 200 milljónum punda í sumar án þess að brjóta sanngirnisreglur UEFA um fjármál, en frá þessu greinir blaðamaðurinn Ben Jacobs, en hann þykir áreiðanlegur í bransanum. Aukinheldur nefnir Jacobs að ef fleiri leikmenn verða seldir þá gætu þeir eytt allt að 350 milljónum punda, en þá þyrftu menn eins og Gallagher og Chalobah ásamt fleirum að pakka saman. Það þykir ólíklegt að klúbburinn telji sig þurfa að nota alla þá upphæð. Það er þó klárt mál að við þurfum framherja og markamaskínu í sumar þar sem ég held að Jackson sé ekki rétti maðurinn. Persónulega vil ég fá mann með Nkunku sem skorar, en Nkunku er ekki beinlínis nía og það á ekki að spila honum þanni, en hann er geggjaður í holunni og þarf einhvern köggul með sér. Það væri til dæmis gaman að sjá Osimhen þarna og sagan segir að líkurnar séu miklar á því, en PSG eru líka í röðinni en ég trúi vart að hann nenni að hanga þarna í frönsku deildinni og staðna þar eins og svo margir aðrir.  En vangaveltur um hverjir koma og hverjir ekki, verða eflaust miklar allt fram í september og óþarfi að stressa sig mikið á þeim. Meiðslalistinn er að styttast og það er vel en þó er eitthvað í að Lavia stígi á sviðið en menn eru að tínast inn hægt og rólega.


Manchester City   

Það er okkur öllum ljóst að þetta verður geigvænlega erfitt á laugardaginn þar sem City eru fáránlega góðir og fá lið sem ná einhverjum árangri á móti þeim. Þetta lið er svo vel skipað að það er með ólíkindum! Það er þó einhvern veginn þannig að við höfum oft náð að stríða þeim og sigruðum þá í úrslitaleik Meistaradeildarinnar sælla minninga. En þeir hafa jú, norska skrímslið Erling Haaland sem er að koma sterkur inn eftir meiðsli og tryllist ef hann skorar ekki þrjú mörk í leik. Ég gæti talið upp nánast allt liðið sem er ógnarsterkt og bekkurinn af dýrari gerðinni. Þó hafa þeir verið í örlitlum meiðslavandamálum þar sem Grealish og Bernardo Silva verða ekki með liðinu á laugardaginn, en þá verðum við bara að eiga við Haaland, Foden, De Bruyne og alla hina. Pep hefur úr nægum mannskap að velja og alls ekkert hallæri á þeim bænum. Það er alveg sama í hvaða stöðu maður horfir, því alls staðar eru klassaleikmenn, en liðið

situr núna í öðru sæti deildarinnar með 52 stig, að vísu með Arsenal, og eru aðeins tveimur stigum frá toppsætinu. Chelsea situr hins vegar í því 10. með 34 stig.

Liðsuppstilling og spá:

Þetta verður talsvert bras fyrir Poch að líma saman kerfi og vinna vel úr því. Ég held að hann fari 4-2-3-1 og það verða ekki miklar breytingar en þó einhverjar. Petrovic verður klárlega í rammanum og fyrir framan hann verða Disasi - Gusto - Colwill og Chilwell. Eins leiðinlegt og það er þá held ég að Caiceido verði á miðjunni með Enzo sem verður að sjá um að hlutirnir gerist. Þar fyrir framan verða þeir Palmer, Gallagher og Nkunku sem fær sénsinn í byrjunarliðinu og fremstur verður Jackson. Þetta verður fjandanum erfiðara! En ég ætla að halda í vonina um að þeir nái að stríða þeim allavega og þó reynsluboltinn okkar hann Thiago Silva verði ekki með vegna meiðsla þá vona ég að hinir stígi upp og láti ljósið skína. Hvernig væri að úrslitin frá því í maí 2021 yrðu bara endurtekin og Nkunku setur hann og málið dautt. Allavega verður þetta góð skemmtun og allt getur gerst. 


Áfram Chelsea!!!!


P.S. Strákarnir í Blákastinu settust niður að spjalli í vikunni og við hvetjum ykkur öll til að hlusta. Þið getið hlustað á þáttinn á öllum helstu hlaðvarpsveitum.

Comments


bottom of page