top of page
Search

Luton - Chelsea

Keppni:   Premier League

Tími, dagsetning:   Laugardagur 30. desember  kl: 12.30

Leikvangur:   Kenilworth Road, Luton, Bedfordshire

Dómari:   Paul Tierney

Hvar sýndur:   Síminn sport

Upphitun eftir:   Þráinn Brjánsson

Nú árið er (næstum því) liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka! Þegar þessi pistill er ritaður þá sé ég hreint ekki eftir árinu sem nú er að renna sitt skeið, allavega ef við horfum á það í “knattspyrnulegu” tilliti og þá sérstaklega hjá okkar ástsæla liði. Mikil bjartsýni í haust þegar deildin hófst og stórar og miklar kanónur keyptar og framtíðin virtist björt en svo kom bakslagið. Vonbrigðin eru talsverð og sumir taka svo sterkt til orða að þeir tala um “annus horribilis” hjá klúbbnum okkar. Staðan þegar þetta er ritað hefur jú oft verið betri en um áramót er jú venjan að horfa fram á við og vona að betri tímar séu í vændum. Þær fréttir sem við fáum núna af klúbbnum okkar eru þær helstar að ekkert lið klúðrar fleiri færum en Chelsea og fleiri met erum við að slá sem við viljum helst ekkert vera að rifja upp.


Þrátt fyrir fleiri neikvæðar fréttir en jákvæðar þá ætla ég að leyfa mér að horfa frekar á að slæmir tímar séu að baki og hlutirnir fari að þokast í rétta átt. Chelsea er nú í 10. sæti deildarinnar með 25 stig sem verður að teljast slakur árangur á þessum tímapunkti en það jákvæða er að nú erum við að sjá fleiri sigra og mikilvæga menn að koma úr meiðslum þannig að nú held ég að hlutirnir fari að falla svolítið með okkur. Síðasti leikur okkar manna gegn Crystal Palace gefur góð fyrirheit og við sáum all góða frammistöðu og áræðni og á köflum fínasta spilamennska skilaði okkur sigri 2-1. Malo Gusto sýndi sýna bestu frammistöðu í leik og var besti maður liðsins og það var ánægjulegt að sjá hann blómstra og fleiri áttu fínann leik og Nkunku sýndi að hann er klárlega að koma til og Romeo Lavia kom einnig við sögu og stóð sig vel en varð fyrir meiðslum sem munu þó ekki vera alvarleg. Madueke átti góðann leik og sýndi klærnar og virðist ætla sér að sanna að hann eigi heima í byrjunarliði Chelsea. Það var þó Úkraínuundrið Mudryk sem skoraði fyrsta mark leiksins gegn Palace á 13. mínútu en Palace jafnaði rétt fyrir hálfleik með marki frá Michael Olise. Það var svo á 89. mínútu að brotið var á Madueke innan vítateigs og fór hann sjálfur á punktinn og skoraði af miklu öryggi og tryggði okkar mönnum dýrmætan sigur . Unglingurinn Alfie Gilchrist fékk sínar mínútur og stóð sig með ágætum og notaði tækifærið og minnti vel á sig, eða í raun það mikið að John Terry var farinn að peppa hann verulega á samfélagsmiðlum. Gilchirst virðist harfa sömu eiginleika og JT. Að vera kornungur að öskra á félagana sama hvað þeir heita. Þannig gelti JT á menn eins og Marcel Desailly og Gianfranco Zola. Er Alfie næsta club legend?!

Chelsea

Það er alveg klárt að menn munu leika til sigurs gegn Luton enda hvert stig dýrmætt. Poch ætti að geta teflt fram all sterku liði en bæði Cole Palmer og Sterling hafa tekið út leikbann og eru klárir í slaginn. Það er mikið vafamál með Enzo og menn standa ekki alveg klárir á því hvort hann sé með einhverja flumbru eða meiddur en það skiptir kannski ekki öllu máli en það mun vera eitthvað vafamál með hann. Sterling er klár og hann er sannarlega betri en enginn og hefur verið okkar jafnbesti maður sem af er móti en hefur verið óheppinn með færi sem og aðrir reyndar. Mér finnst svolítið vanta enn uppá hjá Jackson og fæturnir svolítið að flækjast fyrir honum en vonandi fer þetta að koma hjá honum og svo lítur Nkunku ljómandi vel út og ég er sannfærður um að hann springi út á komandi ári og helst vonandi meiðslalaus. Hvað Lavia varðar er hann dálítið eins og óskrifað blað en vonandi blómstrar hann á seinni hlutanum. Það er þó slæmt að geta ekki róterað honum á móti Conor og Caicedo þegar Enzo er frá. Það eru spennandi tímar framundan og um áramót er ekki annað í boði en að vera bjartsýnn og það gætu ýmsir óvæntir hlutir gerst á leikmannamarkaðnum í janúar þó ég ætli ekki að vera með neinar bollaleggingar í þá áttina. Verum bjartsýn og förum inn í nýtt ár með jákvæðnina að leiðarljósi.Luton Town

Nýliðarnir í Luton Town sitja nú í 17. sæti deildarinnar með 15 stig og hafa verið í talsverðu ströggli og hafa lent í bæði meiðslum og veikindum. Tom Lockyer fyrirliði þeirra hneig niður í leik gegn Bournemouth og fór í hjartastopp og var það í annað skiptið á ferlinum sem þetta gerist. Hann komst þó fljótt í gang og eftir rannsóknir var græddur í hann bjargráður. Það má telja fullvíst að ferlinum sé lokið þó vissulega séu dæmi um að menn leiki knattspyrnu á hæsta stigi þrátt fyrir vélbúnað af þessu tagi. Luton menn hafa þó átt sína spretti en ég hef þá trú að þeir eigi eftir að ströggla út tímabilið því miður. En við skulum ekki vanmeta neitt lið þar sem okkur hefur ekki gengið neitt sérstaklega vel gegn “litlu” liðunum og hlutirnir oft fljótir að snúast gegn okkur. Luton geta gert öðrum liðum skráveifu með föstum leikatriðum og snjöllum krossum. Framherjarnir eiga það til að geta gert mikinn usla, en lykillinn verður að stoppa þessa vængbakverði, þar sem þeir eru mest skapandi leikmenn liðsins.


Liðsuppstilling og spá

Þá er komið að því erfiðasta en þó kannski skemmtilegasta, að spá og spekúlera. Poch mun halda sig við 4-2-3-1. Það verður leikið til sigurs og árið klárað með stæl. Petrovic mun standa í rammanum og fyrir framan hann verða þeir Gusto sem stóð sig eins og klettur í síðasta leik, Badiashile, Silva og Disasi. Þar fyrir framan verða þeir Caicedo og Gallagher. Þar fyrir framan munu þeir Palmer, Sterling og Madueke standa vaktina og ég ætla að vera svo djarfur að setja Nkunku fremstan.Held að við munum sýna okkar besta leik til þessa og ætla að setja aurana á 1-4 sigur okkar manna og Nkunku setur tvö, Palmer eitt og Sterling eitt. Læt ég þetta verða mín lokaorð og óska ég ykkur öllum gleðilegs árs og vona ég að árið verði ykkur farsælt og okkar mönnum ekki síður. 


Gleðilegt ár til ykkar allra og áfram Chelsea!!!

KTBFFH!!


Comments


bottom of page