top of page
Search

London derby! Chelsea - West Ham

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: Laugardagurinn 3. september 2022 kl. 14:00

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn sport

Upphitun eftir: Guðna G. Kristjánsson


Chelsea fær West Ham í heimsókn á laugardaginn, Chelsea situr í 10. sæti deildarinnar eftir tvo sigra, eitt jafntefli og tvö töp. West Ham hefur farið brösulega af stað líkt og okkar menn. Þeir sitja í 14. sæti og hafa aðeins unnið einn leik, en þeir gerðu 1-1 jafntefli í síðasta leik á móti Tottenham og eru því að spila á svipaðri forgjöf og Chelsea. Eftir síðasta leik Chelsea, er ekki hægt að segja annað en að liðið virðist áhugalaust. Það sárvantar leiðtoga til að rífa menn áfram á nasahárunum. Einhverjar vonir stóðu til um það, að Mason Mount gæti stigið upp í það hlutverk, en það hefur hinsvegar engan veginn gengið eftir. Hans frammistaða er hreinlega 180° u-beygja frá því sem við eigum að þekkja frá kauða.


Ég ætla ekki að eyða miklu púðri í gluggann, en eftir tapið á þriðjudaginn gegn Southampton, hringdi Todd Boehly í örvæntingu sinni í Tomma til að frá góð ráð. Tommi sagðist einu sinni hafa haft gæja sem var alveg rosalega góður að skora mörk. Boehly reif upp veskið og keypti ellilífeyrisþegann og Arsenal-manninn Pierre Emerick Aubameyang, Chelsea mönnum til "mikillar" hamingju. Er ég einn um það, að þegar ég sá kynningarmyndbandið með Pierre Emerick, þá leit hann út eins og maður á mánudagsmorgni í röðinni á leið í Herjólf eftir Þjóðhátið? Voru þetta hrukkur? Á hvaða fæði var hann þarna í Katalóníu? Komst hann ekki í myndatökuna og sendi pabba sinn? Hvað er að frétta?


Þeir Jóhann Már, Stefán Marteinn, Þór Jensen og Markús Pálmi fóru ítarlega yfir gluggann í nýjasta þætti af Blákastinu. Ég hvet alla til að hlusta á hann. Þáttinn má finna á helstu hlaðvarpsveitum og líka hérna:


West Ham líta ekki út fyrir að ætla að halda sama dampi, og fylgja eftir ágætis gengi síðastliðin tvö ár, en það er kannski skiljanlegt þegar þú spilar á sömu lykilmönnunun ár eftir ár. Sturluð staðreynd, Mark Noble er búinn að vera í herbúðum West Ham frá 2004! Þetta verður spennandi viðureign hjá liðum sem bæði þurfa að girða sig í brók, og sýna fram á að þau eigi eitthvað erindi í toppbáráttuna. Þeir keyptu Lucas Paqueta frá Lyon og Gianluca Scamacca frá Sassuolo, en annars er lítið annað að frétta frá Hömrunum.


Byrjunarliðið


Það var allt galopið hægra megin! Ég er ekki einn af þeim sem getur ekki viðurkennt þegar maður hefur rangt fyrir sér. César, elsku César! Þú varst ekki að gera okkur neinn greiða með því að fara ekki til Barca. Ég hef því trú á því að Fofana fari strax inn í byrjunarliðið og myndi þriggja manna línu með Koulibaly og Thiago Silva. Reece James var hvíldur í síðasta leik vegna smá veikinda. Hann er ekki gerður úr sömu frumeindum og ég og þú, þannig að hann ætti að vera í standi til að byrja í hægri vængbakverði, ásamt Cucurella í vinstri. Þó mig langi að sjá Ben, vin okkar, spreyta sig í bakverðinum, þá hef ég ekki trú á því, að Cucurella missi sætið sitt. Þessar sendingar! VÁ!


Það er ekki úr miklu að moða á miðjunni. Ruben Loftus-Cheek er fjarri góðu gamni sem er skelfilegt, því að hann leit mjög vel út í þeim leikjum sem hann spilaði. N'Golo Kante er ennþá meiddur og það þarf að fara að senda hann á þetta Keith Richards hæli í Sviss, annars er ferillinn í hættu. En saumavélin Mateo Kovacic virðist vera kominn í stand og byrjar hliðina á Jorginho. Aubameyang þarf að fá nokkrar vítamínsprautur, en ég spái því samt að hann verði í hóp. Svo vil ég sjá Hakim Ziech byrja á hægri, því hann var helvíti sprækur gegn Southampton. Fremstur verður skemmtiskokkarinn og hundavinurinn Kai Havertz og svo ljósið í myrkrinu Raheem "the dream" Sterling á vinstri. Ég ætti varla að taka það fram en Mendy byrjar í rammanum, af því, hver annar?!
Ég ætla að spá fjörugum leik! Bæði lið hafa margt að sanna. Ég býst við náratæklingum, stöngin inn og rauðum spjöldum í leik sem fer 3-2 Chelsea í vil. Þetta verður leikurinn sem snýr þessu tímabili við! LETS GO!

bottom of page