top of page
Search

Loksins, loksins!

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Tími - dagsetning: Laugardagurinn 1. Október kl: 14:00

Leikvangur: Selhurst Park

Hvar er leikurinn sýndur: Síminn sport

Upphitun eftir: Þráinn Brjánsson





Eftir frestanir og langt og leiðinlegt landsleikjahlé er loksins komið að næsta leik hjá okkar ástkæru og nú skal skottast í annann borgarhluta og staldrað við á Selhurst Park og er Crystal Palace viðfangsefnið þessa helgina. Óhætt er að segja að ný sviðsmynd blasi við hjá okkar mönnum þar sem haust hreingerningar hafa staðið yfir hjá Toddmaster og félögum en Thomas Tuchel er horfinn á braut þar sem að hugmyndafræði hans fór eitthvað öfugt ofan í nýja eigendur og var hann látinn taka hinn margfræga poka og nýr maður er kominn í starfið. Hinn geðþekki en illa rakaði Graham Potter er tekinn við keflinu og tökum við honum að sjálfsögðu fagnandi.


Árangur hans með Brighton er eftirtektarverður og verður gríðarlega spennandi að fylgjast með á næstu misserum. Við verðum að vona að hann hafi getað notað þessar vikur til að hrista mannskapinn saman og vinna sína vinnu vel. Hins vegar er hreinsunum ekki lokið og hefur hluti læknateymis verið látinn fara. Upphlaup vegna brottreksturs heilbrigðisstarfsmanna hefur þó verið í lágmarki þó einhverjir og þar á meðal ég hafi ekki enn fyrirgefið Móra að hafa rekið hina gríðarsnotru Evu okkar Carneiro um árið. En nóg um það og að leiknum.


Það sem mér finnst jákvætt er að Potter hefur haft góðan tíma til að slípa menn saman í hléinu og Kante er byrjaður að æfa þannig að menn ættu að vera í nokkuð góðu standi og Mount og Reece James voru að gera fína hluti með landsliðinu og Kai sjóðheitur með þjóðverjunum. Menn eru að velta því fyrir sér að Broja fái byrjunarliðssæti en mér finnst það ólíklegt en hver veit, held að frammistaða hans gegn okkur íslendingum hafi allavega ekki ráðið úrslitum þar um og finnst mér líklegra að grímuklæddi Gabonmaðurinn fái sénsinn.


Frumraun Potters sem stjóra var engin hátíðarsýning og jafntefli gegn RB Salzburg vart ásættanlegt en nú er að girða sig í brók og hrista vel upp í kristalshöllinni. Síðasti leikur okkar í úrvalsdeildinni var gegn West Ham og var raunar heppnissigur og þurfum við sannfærandi spilamennsku og 3 stig á laugardaginn. Fyrir leikinn erum við í 7. sæti deildarinnar með 10 stig og verðum við að hækka þá tölu upp í 13 enda óhætt þar sem leikið er á laugardegi. Nú ríður á að ná í góð úrslit og safna nokkrum góðum stigum þar sem ekki er langt í mun lengra landsleikjahlé en nú er að ljúka. Ég ætla að vera bjartsýnn og spá okkur sigri!


Crystal Palace


Tímabilið hefur ekki farið neitt sérstaklega vel af stað hjá Vieira og lærisveinum hans. Liðið situr í 16 sæti með 6 stig en þó verður að telja liðinu til tekna að ná 1-1 jafntefli gegn Liverpool og eini sigurinn í ár kom gegn Aston Villa en jafnteflið gegn Liverpool sýnir það að þetta lið er óútreiknanlegt og nær allt of oft góðum úrslitum gegn mun sterkari liðum. Þeirra besti maður er jú Zaha og voru okkar menn eitthvað að snusa af honum í leikmannafarsanum í sumar en ekkert varð úr. Conor Gallagher var kallaður heim úr láni frá Palace en eins og við vitum þá var hann valinn Player of the year hjá Palace á síðustu leiktíð.


Crystal Palace hafa því miður oft reynst okkur erfiðir og í liðinu eru margir fínir leikmenn og auk Zaha sem er þeirra stærsta nafn má nefna varnarmennina Marc Guéhi og Nathaniel Clyne og framherjann Jordan Ayew.





Chelsea


Eftir hléið hlýtur að fara að þynnast meiðslalistinn eða við skulum vona það öllu heldur. Það berast fréttir af því að brosmildi miðjumeistarinn okkar hann Ngolo Kante sé mættur til æfinga en verður að öllum líkindum ekki klár í leikinn en er þó að koma til. Kovatic er hinn hressasti og er að ná vopnum sínum og er það klárlega gleðiefni. Mount virðist vera að finna fjölina eftir talsverða og erfiða leit í undanförnum leikjum og sýndi fína takta með enska landsliðinu og Reece James sömuleiðis og jyppý Kai brilleraði með þýska stálinu og koma þeir vonandi fullir sjálfstrausts inn í leikinn. Aubameyang er vonandi að finna taktinn en karlgreyjið enn að jafna sig eftir barsmíðar spænskra dusilmenna en lét sig þó ekki vanta sem fulltrúi okkar manna á tískuvikunni í Mílanó þar sem hann lúkkaði eins og milljón dollarar.


Þrátt fyrir langt hlé eru menn strax farnir að huga að janúarglugganum og það nýjasta sem heyrist er að að okkar kæru bláliðar hyggjast bjóða þá Ziyech og Pulisic í skiptum fyrir Leao frá AC Milan en miðað við tryllinginn og farsann í sumar ber að taka fréttum með fyrirvara.


Byrjunarlið


Ég hef þá trú að Mr. Potter haldi sig við 3-5-2 og á milli stanganna verði Mendy. Vörnin verður að þessu sinni Koulibaly, Fofana og Silva.

Fyrir framan þá standa vaktina þeir Reece James, Kovacic, Jorginho, Mount og Chilwell þar sem hárprúði heiðursmaðurinn Cucurella er frá vegna meiðsla.


Framvarðarsveitina munu þeir Sterling og Kai skipa með miklum sóma. Hins vegar gæti Potter verið á allt öðru máli en ég en þetta held ég að sé rétta blandan. Þeir leikmenn sem gætu fengið mínútur eru líklega Aubmeyang, og jafnvel Broja. Ef þessir menn detta niður á góðan dag verða úrslitin verulega ánægjuleg.





Spá


Eins og ég sagði fyrr í þessari upphitun þá er ég bjartsýnn. Dreg þó úr fyrri væntingum um einhverja flugeldasýningu en myndi þiggja 3 punkta orðalaust. Ætla að spá okkar mönnum sigri og spái 2-0 og Sterling setur eitt og Reece James eitt, punktur. Er sannfærður um að úrslit laugardagsins verða góð, það liggur hreinlega í loftinu

Góða skemmtun.



KTBFFH!


Comments


bottom of page