top of page
Search

Liverpool vs. Chelsea - úrslitaleikur í Istanbul

Keppni: UEFA Super Cup

Dag- og tímasetning: 14. ágúst 2019 klukkan 19:00

Leikvangur: Vodafone Park, Istanbul

Hvar er leikurinn sýndur? T.d. á Stöð 2 Sport og BT Sport

Upphitun eftir: Árna St. Stefánsson

Á morgun leikur Chelsea gegn Liverpool í árlegum úrslitaleik EUFA Super Cup, en þá mætast sigurvegarar Evrópudeildarinnar og Meistaradeildarinnar. Þess má geta að þetta verður í fyrsta skipti í 44 ára sögu UEFA Super Cup þar sem tvö ensk lið etja kappi. Jafnframt verður þetta í fyrsta skipti sem kona dæmir „major“ karlaleik á vegum EUFA, en hin 35 ára gamla Stéphanie Frappart mun sjá um að flauta leikinn.


Chelsea Chelsea hefur þrisvar áður leikið til úrslita í umræddri keppni. Liðið stóð uppi sem sigurvegari árið 1998 með því að sigra Real Madrid 1-0 með marki frá meistara Gus Poyet, en nokkrum mánuðum áður hafði liðið sigrað Evrópukeppni bikarahafa, sem skilaði liðinu í Super Cup-leikinn. Árið 2012 lék Chelsea gegn Atlético Madrid og mátti þola 4-1 tap, þar sem Radamel Falcao sökkti okkar mönnum með þrennu í fyrri hálfleik. Ári síðar lék liðið svo gegn Bayern Munich og aftur máttu okkar menn þola tap – í þetta skiptið í vítaspyrnukeppni þar sem Lukaku klikkaði á síðustu spyrnunni. Það er því kominn tími á sigur hjá Chelsea.


Chelsea mætir heldur laskað til leiks eftir alltof stórt tap gegn Man United í fyrstu umferð deildarinnar um síðustu helgi. Það má eflaust velta sér endalaust upp úr því hvað fór úrskeiðis í þessum blessaða leik. Spennustigið fyrir leikinn og tempóið í leiknum sjálfum var hátt og það reyndist okkar leikmönnum (lesist Zouma) erfitt. Chelsea lék reyndar skínandi vel á köflum í fyrri hálfleiknum. Liðið pressaði vel, virtist hungrað og hefði átt að setja a.m.k. eitt mark, enda fékk liðið nokkur fín færi, en það voru hins vegar klaufaleg varnarmistök sem kostuðu okkur leikinn. Það er alltaf freistandi, en um leið tilgangslaust, að fara í „ef og hefði pælingar“, en EF við HEFÐUM hunskast til að nýta a.m.k. eitt af færunum í fyrri hálfleik þá HEFÐI leikurinn vafalaust spilast öðruvísi í síðari hálfleik, já og ekki endað á þennan afleita hátt.


Miðað við leikinn um síðustu helgi þá verður varnarleikurinn líklega okkar aðal hausverkur á tímabilinu. Það er því mikið gleðiefni að mikilvægasti leikmaður liðsins, Kante, ferðaðist með liðinu til Istanbul og það er vonandi að hann verði tilbúinn að byrja leikinn og nái að líma varnaleikinn saman. Þá eru Rudiger og Willian einnig í hópnum fyrir leikinn, en skv. Lampard eru þeir ekki orðnir nógu heilir til að byrja og verða því á bekknum.

Lampard er eðli málsins samkvæmt ennþá að móta liðið og hann bíður eflaust í ofvæni eftir að endurheimta alla sína leikmenn úr meiðslum og geta þannig farið að stilla upp sínu sterkasta liði, en þangað til má vænta þess að hann róteri töluvert í byrjunarliðinu. Í leiknum á morgun held ég að Lampard muni treysta á reynslumeiri leikmenn á kostnað ungviðisins, a.m.k. að einhverju leyti. Að því gefnu að liðið haldi áfram í 4-2-3-1 leikkerfinu, þá reikna ég með sömu varnarlínu og gegn Man United ef frá er talin vinstri bakvarðastaðan, en ég spái því að þar komi Alonso inn fyrir Emerson. Með smá óskhyggju að leiðarljósi þá vonast ég eftir að Kante komi inn í liðið á kostnað Jorginho, Kovacic haldi sinni stöðunni á miðjunni, Pulisic og Pedro verði á vængjunum og Barkley í holunni. Þá reikna ég með að Lampard veðji á reynsluna í Giroud uppi á topp.


Liverpool Eftir að hafa sigrað Meistaradeildina með glæsibrag í vor átti Liverpool ansi brokkgengt undirbúningstímabil. Liðið byrjaði reyndar á að sigra Tranmere Rovers og Bradford City nokkuð örugglega, en þar á eftir komu ósigrar gegn Dortmund, Sevilla og Napoli, jafntefli gegn Sporting og svo sigur á Lyon í lok ágúst. Undirbúningstímabil gefur liðum hins vegar ekki neitt og þegar alvaran hófst um nýliðna helgi þá gaf Liverpool heldur betur í og landaði öruggum sigri gegn nýliðum Norwich, 4-1.


Liverpool lét lítið fyrir sér fara á leikmannamarkaðinum í sumar og bætti einungis bætt við sig einum varaskeifu-leikmanni (markverðinum Adrian). Leikmannahópurinn er engu að síður afar sterkur og Klopp treystir augljóslega sínum mönnum fyrir átök tímabilsins. Alison Becker meiddist í leiknum gegn Norwich og verður frá næstu vikurnar og því mun mæða á Adrian í markinu næstu vikurnar. Skv. mínum heimildum eru frekari meiðsli ekki að plaga leikmannahóp Liverpool og getur Klopp því leyft hugarfluginu að ráða við val á byrjunarliðinu.


Spá Þrátt fyrir að hafa borið skertan hlut frá borði áðurnefndum þremur úrslitaleikjum þá vitum við öll að Chelsea er lið úrslitaleikja, enda getur liðið státað af frábærum árangri í úrslitaleikjum í gegnum tíðina, hvort sem um er að ræða á enskri eða evrópskri grundu. Það má deila um mikilvægi leiksins á morgun en það gæti gefið liðinu mikið að ná sigri. Titill er titill og tilhugsunina um að sigra ríkjandi Evrópumeistara hlýtur að kveikja í okkar mönnum. Þá er þetta fyrsti „titlaleikur“ Lampard og hann er eflaust ólmur í að vinna sinn fyrsta bikar sem stjóri og byrja þannig að skrá sig í sögubækur okkar ástsæla félags.


Liverpool kann að skora mörk og þeir munu eflaust herja mjög á vörn Chelsea á morgun. Hvort vörnin standist áhlaupið verður að koma í ljós en ég reikna þó allavega með betri frammistöðu en í leiknum gegn Man United. Ég ætla að leyfa mér að vera yfirmáta bjartsýnn og spái 3-2 sigri Chelsea. Ég held að Pulisic láti ljós sitt skína í leiknum og skori fyrstu tvö mörkin. Bats kemur svo inn á í síðari hálfleik og skorar sigurmarkið í blálokin eftir að hafa fengið boltann óvart í sig og inn.


KTBFFH

bottom of page