top of page
Search

Liverpool - Chelsea

Keppni:   Enska úrvalsdeildin

Tími, dagsetning:   Miðvikudagur 31.janúar kl: 20.15

Leikvangur:   Anfield

Dómari:   Paul Tierney

Hvar sýndur:   Síminn Sport 

Upphitun eftir:   Hafstein ÁrnasonÞað var heldur svekkjandi að gera markalaust jafntefli í FA bikarnum gegn Aston Villa á heimavelli.  Það byrjaði heldur brösulega þar sem Levi Colwill meiddist í upphitun og þurfti að skipta honum snarlega út og hrókera varnarlínunni.  Badiashile var færður í vinstri bakvörð og Alfie Gilchrist kom í hægri bakvörð og ýtti þá Disasi í miðvörðinn. Það kom ekki að sök. Ekki vantaði upp á færin í leiknum, þá sérstaklega í fyrri hálfleik.  Cole Palmer spilaði sem fölsk nía og það mætti segja að það upplegg heppnaðist ágætlega, fyrir utan nýtingu á færum.  Varnarleikurinn og pressan var alveg til fyrirmyndar hjá sóknarmönnum og á köflum voru Aston Villa í basli við að höndla pressuna. Hinsvegar átti Emi Martínez algjöran stórleik og var mjög öflugur að sópa upp lausum boltum o.fl. í þeim dúr.  Einnig varði hann vel meðal annars frá Noni Madueke. Mudryk kom inná í leiknum og nánast hvarf eins og draugurinn Casper. Raunar hefur þetta gengið svo brösulega hjá þeim úkraínska að The Athletic smelltu í heila greiningu um hvað hann sé að gera rangt. Þessi analýsa er mjög sláandi lestur. Ef þú lesandi góður ert ekki með áskrift, þá mæli ég sannarlega með slíku - enda gæðapennar sem skrifa þarna. Í stuttu máli skýlir Mudryk boltanum afar illa, og tapar boltanum mest af öllum vængmönnum í deildinni. Hann missti boltann 50 sinnum innan 5 sekúndna af þessum 807 mínútum sem hann hefur leikið. Það þýðir 5.5 tapaðir boltar hverjar 90 mínútur. Í heildina 2023-24 hefur hann tapað 39 sinnum á hverja 100 snertingar. Greinin fer svo djúpt í hvernig staðsetningar og hreyfingar eru alveg útúr kú hjá greyið Mudryk. Eitthvað sem við höfum tekið eftir í leikjum og Pochettino hefur tekið fyrir m.a. með skiptingum í hálfleik. En nóg um það, leikar gegn Aston Villa enduðu 0-0 og niðurstaðan er rematch leikur á Villa Park þann 7. febrúar nk.Framundan er leikur gegn Liverpool á Anfield. Það er mikil eftirvænting þar sem þetta er fyrsti leikur Liverpool í deildinni eftir að Jürgen Klopp tilkynnti óvænt að hann muni ljúka störfum hjá þeim rauðu eftir mjög farsælan feril. Það mun án efa kveikja bæði í leikmönnum og stuðningsmönnum liðsins. Það verður án efa, rafmögnuð stemmning á Anfield, en vonandi muna þeir bláklæddu eyðileggja þá stemmningu. Lærisveinar Klopp tróna á toppi deildarinnar með 48 stig. 14 sigrar, 6 jafntefli og eitt tap gegn Tottenham á útivelli. Liverpool ásamt Manchester City eru einu liðin sem hafa ekki tapað á heimavelli og slíkur árangur talar sínu máli.  Hinsvegar hafa sex síðustu viðureignir Chelsea og Liverpool endað í jafntefli.  Flestir leikirnir hafa verið járn-í-járn og ekki sérstaklega mikið fyrir augað. Maður hefur á tilfinningunni að þessi leikur gæti spilast eins. Stuð og stemmning í áhorfendum gætu þó breytt þessu. Það mun reyna á ungu leikmenn liðsins að láta ekki trylltan Anfield hafa of mikil áhrif. 


Liverpool verða án Mohamed Salah sem er meiddur. Einnig eru Thiago, Joel Matip, Grikkinn Tsimkas og Stefan Bajetic frá vegna meiðsla.  Wataru Endo verður fjarverandi með japanska landsliðinu í asíukeppninni.  Trent Alexander Arnold og Andy Robertson eru þó hinsvegar komnir til baka úr meiðslum og megum við búast við því að þeir fái einhver tækifæri, þó sennilega ekki í byrjunarliðinu. Framlínan hjá Liverpool verður að öllum líkindum Darwin Nunez, Diogo Jota og Luis Diaz. Miðjan sennilega mönnuð MacAllister, Szoboszlai og Curtis Jones.  Miðverðir Van Dijk og Konate.  Bakverðirnir eru mesta spurningin hvort Klopp treysti á Robertson og Trent, eða Joe Gomez og Conor Bradley hinn tvítugi sem hefur spilað nokkuð vel að undanförnu. Mauricio Pochettino sagði á blaðamannafundi fyrir leik að Christopher Nkunku og Malo Gusto verða í leikmannahópnum. Trevoh Chalobah er ekki sagður vera klár, en það styttist verulega í hann. Levi Colwill verður ekki með vegna meiðslanna sem hann hlaut í upphitunninni gegn Villa, en ekki er búist við langvarandi fjarveru. Romeo Lavia og Robert Sanchez eru ekki enn byrjaðir að æfa en það styttist í þá. Talsvert lengra í alla hina á sjúkralistanum.  Pochettino gaf það í skyn á blaðamannafundi að Nico Jackson gæti verið með í leiknum, þar sem Senegal datt nokkuð óvænt út fyrir Fílabeinsströndinni á AFCON. Myndi alveg búast við honum í leikmannahópnum ásamt Cesare Casadei sem verður núna fyrst gjaldgengur í hóp Chelsea, vegna þess hann mátti ekki spila í bikarkeppnunum vegna þátttöku hjá Leicester. Andrey Santos er einnig fjarverandi vegna undankeppni Ólympíuleika U23 liðs Brasilíu, en ætti að snúa til baka um miðjan febrúar þegar undankeppninni lýkur.


Tveir leikmenn sem ég set sérstakt spurningamerki við, eru Armando Broja og Conor Gallagher.  Þeir hafa verið mest orðaðir við brottför frá liðinu, eða eru að minnsta kosti falir fyrir réttan pening. Hinsvegar er markaðurinn mjög daufur.  Tottenham hafa lýst yfir áhuga á Conor, en þeir geta ekki nælt sér í hann nema Pierre Emile Hojberg verði seldur. Það er ekkert sem bendir til þess að það sé eitthvað fararsnið á þeim danska, þannig ólíklegt þykir að Gallagher færi sig um set. Það mun þó reyna á samningamálin hjá honum þegar líður á tímabilið.  Armando Broja hefur hinsvegar verið orðaður við Fulham og Wolves. Samkvæmt miðlunum er einnig í boði að taka hann á láni með skyldukaupákvæði í lok tímabils. Af þeim sökum telst ólíklegt að hann byrji leikinn gegn Liverpool, til þess að gæta að hann meiðist ekki rétt fyrir lok gluggans. Eitthvað skvaldur hefur verið um að Aston Villa vilji skipta á honum fyrir Jhon Duran, sem Chelsea er sagt hafa hafnað, en hann er samt til skoðunar upp á framtíðina hjá njósnateymi Chelsea samkvæmt David Ornstein hjá The Athletic. Ornstein fullyrðir það líka að Chelsea hafi hafnað því að hefja viðræður við Karim Benzema þegar þeim bauðst það, vegna þeirrar forgangsröðunar sem klúbburin hefur sett ungum og efnilegum leikmönnum. Sanngirnisbókhaldið býður líka mjög takmarkað uppá svoleiðis hugmyndir. Eftir stendur orðrómurinn um Callum Wilson sem Eddie Howe gaf lítið fyrir á blaðamannafundi hjá Newcastle. Þegar Wilson er heill, þá virkar hann mjög vel, en það er einmitt málið. Hann virðist eiga í vandræðum með tognanir aftan í læri, sem við þekkjum ágætlega hjá Reece James, Lesley Ugochukwu og Ben Chilwell.  Það væri ráðlegt að segja pass við slíkum meiðslapésa og setja frekar traustið á Nico Jackson. Undirritaður verður mjög ánægður ef enginn sóknarleikmaður verður keyptur í þessum glugga, þar sem það staðfestir sannfæringuna að Victor Osimhen komi til liðsins í sumar. Treyja númer 9 bíður eftir þeim kraftakarli. Fylgist með honum á AFCON, þar sem Nígería eru líklegastir til afreka. 
En aftur að leiknum á Anfield. Hvernig verður byrjunarliðið? Serbneska blómið verður í markinu. Ben Chilwell í vinstri bakverðinum, en Axel Disasi í hægri bakverði. Badiashile og Thiago Silva í miðvörðum. Enzo og Caicedo verða á miðjunni og Conor verður að öllum líkindum í holunni. Sterling verður vinstri kanturinn og þrátt fyrir slakan leik ætti Noni Madueke að fá traustið aftur. Cole Palmer verður fölsk nía, líklega upp á varnarsinnaðar pressupælingar. Varamannabekkurinn verður vel mannaður í þetta skiptið. Eina sem maður getur vonað er að tapa ekki leiknum og halda út að minnsta kosti jafnteflið. Það væri nú gaman að fá mark úr umdeildu dómaraatviki svo Liverpool samfélagið fari nú á hliðina. Eigum við ekki að segja 1-1 og markið verði úr vafasamri vítaspyrnu sem Cole Palmer skorara auðvitað úr.  Hef óþægilega tilfinningu fyrir því að Diogo Jota skori fyrir Liverpool. 


Áfram Chelsea og eyðileggjum stemmninguna á Anfield! 


E.S. Við minnum á að enn er hægt að endurnýja skráningar hjá Chelsea klúbbnum á Íslandi og nýskrá sig, upp á að fá fyrirgreiðslu fyrir miðakaupum á Chelsea leiki. Þetta verður í gangi næstu daga og vikur. Við hvetjum áhugasama að fara www.chelsea.is - smella á skráning og fylgja leiðbeiningum.


コメント


bottom of page