top of page
Search

Lille vs Chelsea - Mikilvægur leikur í Meistaradeildinni

Keppni: Meistaradeild Evrópu

Dag- og tímasetning: 2. október 2019 kl. 19:00

Leikvangur: Stade Pierre Mauroy

Hvar er leikurinn sýndur? Stöð 2 Sport og BT Sport 2

Upphitun eftir: Árna St. Stefánsson

Inngangur

Það hefur ekki þótt saga til næsta bæjar í gegnum tíðina að Chelsea vinni tvo leiki í röð, en eftir sigurinn á Brighton um síðustu helgi er það engu síður raunin. Chelsea náði að tengja saman tvo sigurleiki í fyrsta sinn á leiktíðinni, en vonandi er þetta þó bara byrjunin á lengri sigurgöngu. Á morgun fær liðið tækifæri til að sýna að þeir séu samkeppnishæfir í Meistaradeildinni þegar þeir heimsækja Lille í Frakklandi í annarri umferð riðlakeppninnar.


Chelsea

Chelsea vann nokkuð sannfærandi sigur á Brighton síðastliðinn laugardag með mörkum frá Jorginho og Willian. Með sigrinum lyfti liðið sér upp í 6. sæti deildarinnar, aðeins þremur stigum frá 3. sætinu. Chelsea var með nokkra yfirburði í leiknum og átti meðal annars 24 skottilraunir. Mörkin létu reyndar á sér standa framan af leik en þau komu á endanum og þegar upp var staðið landaði Chelsea sanngjörnum sigri. Það vakti athygli margra að Jorginho tók (og skoraði) úr vítaspyrnunni sem Chelsea fékk í leiknum, en það eru ekki margir dagar síðan Lampard gaf það út að Barkley væri vítaskytta liðsins, þ.e. eftir að hann klikkaði gegn Valencia. Sú yfirlýsing var þó fljót að gufa upp því eins og áður sagði var Jorghino mættur á punktinn gegn Brighton og eftir leikinn staðfesti Lampard svo að Ítalinn knái muni framvegis taka vítaspyrnur liðsins. Þá vitum við það og áhangendur geta því farið að velta sér upp úr öðrum og mikilvægari hlutum.

En þá að leiknum gegn Lille. Eftir afleitt tap heima gegn Valencia í fyrstu umferðinni þá dylst engum að það er gríðarlega mikilvægt að Chelsea nái í þrjú stig gegn Lille, þ.e. ætli liðið sér upp úr þessum annars tvísýna riðli. Það er ennþá töluvert um meiðsli í herbúðum liðins en skv. síðustu heimildum þá glíma Emerson og Rudiger enn við meiðsli og verða ekki með. Þá hafa Giroud og Zouma báðir átt við minniháttar veikindi að stríða en þeir verða þó mjög líklega báðir tilbúnir á miðvikudaginn. Stærsta spurningamerkið er Kante, en Lampard er þó vongóður um að hann verði orðinn leikfær.


Með bjartsýnina að vopni þá ætla ég að tippa á að Kante byrji leikinn og að Kovacic og Jorginho verði honum til halds og trausts á miðjunni. Varnarlínan verður væntanlega sú sama og gegn Brighton, enda hélt hún hreinu (í fyrsta skipti á tímabilinu). Þá reikna ég með að Mount og Willian byrji á köntunum og Tammy verði fremstur.


Lille

Undirritaður hefur sannast sagna lítinn sem engan áhuga á frönsku deildinni og þekking hans á knattspyrnuliðinu Lille því í lágmarki. Veraldarvefurinn gat þó upplýst mig um að liðið hefur farið ágætlega af stað í deildinni og er í 4. sæti að loknum átta umferðum. Þeir fóru þó enn verr af stað í Meistaradeildinni en okkar menn með því að tapa 0-3 gegn Ajax í fyrstu umferðinni. Liðið hefur á að skipa nokkrum þekktum nöfnum sem hafa þó mátt muna sinn fífil fegurri. Þar má nefna Portúgalann Renato Sanches, en þetta fyrrum „hæpaða“ ungstirni gekk til liðs við Lille frá Bayern Munich í ágúst síðastliðnum fyrir metfé. Hann á þó ennþá eftir að leika sinn fyrsta leik í búningi Lille. Fyrrum Chelseamaðurinn Loïc Rémy hefur spilað fyrir Lille frá árinu 2018 og lætt inn nokkrum mörkum fyrir þá og þá er liðið einnig með José Fonte í sínum herbúðum, en hann gerði það nokkuð gott í ensku úrvalsdeildinni á sínum tíma. Sá leikmaður sem varnarlína Chelsea þarf þó að hafa mestar gætur á í leiknum er án nokkurs vafa Nígeríumaðurinn Victor Osimhen, en eftir að Nicolas Pépé var seldur til Arsenal sl. sumar þá hefur þessi ungi framherji heldur betur stigið upp og er kominn með sex mörk og tvær stoðsendingar í átta leikjum á tímabilinu.


Spá

Ég spái því að sigurgangan haldi áfram og liðið landi dísætum 0-1 sigri. Mount sannar enn og aftur mikilvægi sitt með því að setja sigurmarkið.


bottom of page