top of page
Search

Lille vs Chelsea - Meistaradeildin heldur áfram

Keppni: Champions league

Dag- og tímasetning: Miðvikudagur 16 mars kl 20:00

Leikvangur: Stade Pierre-Mauroy

Hvar er leikurinn sýndur? Stöð 2 sport 2 og Ölver Sportbar

Upphitun eftir Stefán Martein



Góðan og margblessaðan!


Chelsea klúbburinn á Íslandi er 25 ára í dag, þann 16. mars! Að því tilefni ætlum við að fjölmenna á Ölver Sportbar og fylgjast með leiknum gegn Lille.


Það er alltaf blessuð blíðan og lognmolan í kringum þetta ágæta frábæra félag sem við styðjum. Menn keppast við að ætla rífa upp seðlana og fjárfesta og á meðan bíðum við stuðningsmenn með öndina í hálsinum og fingur krossaða um að næsti eigandi sendi ekki félagið lóðbeint í skrúfuna. Svona að öllu gamni slepptu þá er maður andlega búin á því að reyna fylgjast með gangi mála og vona að maður þurfi ekki að fara grafa upp einhverja YouTube linka af Sunday league fyrir næsta season og fylgjast þar spenntur með London FC. Við skulum setja þessar pælingar alveg til hliðar og fara að huga að því sem gerist á vellinum…


Við fengum ríkasta félag fótboltans í heimsókn á Stamford Bridge núna á sunnudaginn og á meðan það er búið að rífa félagið af Roman fyrir tengsl sín við draslið sem stýrir Rússlandi þá er Sádinn sem á Newcastle að aflífa mann og annan þarna í Saudi Arabíu án þess að einhver spái sérstaklega í því, en allavega…

Jamaal Lascelles var mættur fremstur meðal jafningja að leiða sitt lið út á Stamford Bridge að mæta okkar mönnum. Bæði lið komu inn í þennan leik í fanta formi og langt síðan síðasta taps. Bæði lið áttu það sameiginlegt að síðasti tapleikur liðana í deild var gegn Englandsmeistörum Manchester City. Newcastle tapaði fyrir þeim í desember og okkar menn í janúar. Ekkert lið var auk þess búið að sækja fleirri stig á árinu 2022 heldur en Newcastle ef frá er talið Liverpool.


Fyrirfram mátti búast við fínustu skemmtun og opnari leik en það gat líklega ekki verið fjarri sannleikanum þegar uppi var staðið. Drepleiðinlegur en fáránlega nauðsynlegur sigur varð staðreynd þar sem Kai okkar Havertz var áfram á eldi og sigldi þessu heim með stórkostlegri afgreiðslu undir loks leiks og þar við sat. Kai Havertz er nú með 9 mörk/stoðsendingar í 10 byrjunarliðsleikjum á árinu 2022.


Við leiðum einvígið 2-0 eftir fyrri leikinn á Stamford Bridge þar sem Kai Havertz og Christian Pulisic skoruðu mörkin í sitthvorum hálfleiknum. Sá leikur var þannig séð enginn hætta fyrir okkar menn og við krúsuðum nokkuð þægilega í gegnum þann leik án teljandi vandræða. Við ættum því ef allt er eðlilegt að vera með þennan leik í teskeið en Meistaradeildinn er stórkostlegt fyrirbæri þar sem allt getur gerst og mark snemma frá Lille gæti sett allt plan í uppnám svo það er stutt á milli í þessu.


Í leiknum gegn Newcastle vantaði Ben Chilwell, Reece James, Cesár Azpilicueta og Callum Hudson-Odoi. Reece James, Cesár Azpilicueta og Callum Hudson-Odoi eru allir tæpir og reikna ég með að þó þeir verða klárir þá verður reynt að hvíla þá að einhverju leiti.


Þá er það að spá fyrir um byrjunarliðið og þykjast koma með svakalega innsýn inn í hvað Tuchel gæti verið að hugsa. Ég ætla að setja mig í spor þjálfara Chelsea og spá þessu eins og ég myndi vilja sjá þetta verða svo sjáum við bara hvað setur.


Edouard Mendy er fyrstur á blað í markið og það þarf ekkert að færa nein rök fyrir því. Ég reikna með að við spilum með “back four” í þessum leik og sjáum því Andreas Christensen í hægri bakverði, Thiago Silva og Toni Rudiger í miðvörðum með okkar allra langbesta Malang Sarr vinstra meginn við sig. Við erum með 2-0 forystu í þessu einvígi svo við getum aðeins prufað okkur áfram. Á miðjunni verða Matteo Kovacic, Jorginho og Mason Mount. Jorgi verður djúpur að stýra þessu með Kovacic og Mount í attacking áttu. Fremstu þrír verða svo Christian Pulisic vinstra meginn, Kai Havertz á toppnum og Hakim Ziyech hægra meginn.


Sannkölluð kóngaþrenna efst á velli.




Lille

Ég ætla ekki að eyða mjög mörgum orðum um þetta annars ágæta lið frá Frakklandi. Það rétt kæri lesandi, þetta eru þeir sömu og færðu okkur Eden Hazard á sínum tíma svo það er laust við því að maður hugsi hlýlega til þeirra. Þeir eru ríkjandi Frakklandsmeistarar sælla minninga en gengur erfiðlega að verja þann titil og sitja núna í 6.sætinu og eru ekki nema 22 stigum frá efsta sætinu þegar þetta er ritað svo ég leyfi mér að efast um að þeim muni takast það. Það er þó fullt af skemmtilegum köllum í þessu liði og ber þar helst að nefna Renato Sanches, Jonathan Bamba, Jonathan David, Sven Botman, Timothy Weah (sonur George Weah) og Premier League legend-in José Fonté sem spilaði með Southampton og West Ham og Hatem Ben Arfa sem spilaði með Hull City og Newcastle.


Spá

Það er svolítið erfitt að spá í aðstæður þarna. Ég vona að við mætum með kassan langt út og sækjum til sigurs. Þetta lið á ekkert í okkar menn á góðum degi og ættum við öllu jafna að klára þetta sómasamlega. Þetta verður sigur svo mikið er víst en aðal spurningin er hversu stór sigur verður þetta?

Ég ætla að giska á solid 3-0 þar sem Hakim Ziyech mætir með töfrasprotan og býður upp á MOTM sýningu. Skorar fyrsta og leggur upp næstu 2 á Kai Havertz og Romelu Lukaku af bekknum.

bottom of page