top of page
Search

Leicester vs Chelsea

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Tími, dagsetning:  23. nóvember  kl: 12:30

Leikvangur: King Power Stadium, Leicester

Dómari: Andrew Madley

Hvar sýndur: Síminn Sport

Upphitun eftir: Guðna Reyni Þorbjörnsson



Loksins byrjar enska úrvalsdeildin aftur eftir landsleikjahlé. Okkar menn ríða á vaðið og spila hádegisleik á útivelli gegn Leicester City á laugardeginum. Eftir ellefu umferðir í deildinni sitjum við í þriðja sæti, en ég er nokkuð viss um að við hefðum öll verið sátt með það í upphafi leiktíðar, sérstaklega ef við hugsum um síðustu tvö tímabil á undan. Mótherjar okkar í Leicester sitja hins vegar í fimmtánda sæti og hafa í sannleika sagt ekki litið mjög sannfærandi út í upphafi leiktíðar. Þar sem þessi leikur verður leikinn á King Power vellinum í Leicester má taka það fram að heimamenn hafa leikið fimm deildarleiki þar á tímabilinu. Þeir hafa aðeins unnið einn heimaleik, gert tvö jafntefli og tapað tveimur. Chelsea hefur aftur á móti leikið fimm útileiki í deildinni þar sem við höfum unnið þrjá þeirra, gert eitt jafntefli og tapað einum. Tölfræðin ætti því að vera með okkur í liði, en innbyrðisviðureignir þessara liða telja 125 skipti þar sem Chelsea hefur haft vinningin 62 sinnum. Leicester hafa í 28 skipti hampað sigri en 35 sinnum hafa leikar endað með jafntefli. Síðast þegar þessi lið mættust var það í mars á þessu ári, en liðin drógust saman í FA Cup á síðustu leiktíð þar sem Chelsea fór með 4-2 sigur. Marc Cucurella, Cole Palmer, Carney Chukwuemeka og Noni Madueke skoruðu mörk okkar og Axel Disasi skoraði meðal annars magnað sjálfsmark í þeim leik.


Eins og flestir vita þá var Enzo Maresca ráðinn til Leicester sumarið 2023 eftir að liðið hafði fallið úr ensku úrvalsdeildinni. Flestir spekingar voru á þeirri skoðun að Leicester liðið sem féll úr úrvalsdeildinni vorið 2023 hafi verið með of góðan leikmannahóp til þess að falla. Og það var vissulega rétt. Maresca naut góðs af því og var óneitanlega með sterkasta leikmannahópinn í Championship deildinni á síðasta tímabili. Það skal samt ekki tekið af honum að hann gerði mjög vel í að koma liðinu beint upp í úrvalsdeildina aftur. Það hefur reynst mörgum liðum erfitt að koma beint upp í úrvalsdeildina aftur eftir fall en Maresca gerði það á sínu fyrsta heila tímabili. Það heillaði greinilega toppana hjá okkur því Chelsea leituðu síðan til Leicester manna síðasta sumar og sóttu þennan efnilega stjóra til þeirra sem eftirmann Mauricio Pochettino. Ég er nokkuð viss um að Leicester menn sjá mikið eftir Maresca og þeir ætluðu náttúrlega alls ekki að missa hann í sumar. Þeir réðu til sín Steve Cooper, sem var ekki einu sinni þeirra fyrsta val, og virðist hann ekki ná jafn mikið til hópsins eins og Maresca gerði. Leicester menn hafa þó innan sinna raða leikmenn sem við þurfum að hafa góðar gætur á, refurinn Jamie Vardy er alltaf hættulegur og argentískur lánsmaður frá Brigthon, Facundo Buonanotte, hefur virkað sprækur í upphafi leiktíðar. 



Chelsea þurfa að mæta grimmir til leiks. Við höfum gert tvö jafntefli í röð í deildinni og því væru þrjú stig alveg virkilega vel þegin til að koma okkur aftur af skrið eftir enn eitt landsleikjahléið. Þessi tvö jafntefli voru að vísu á Old Trafford gegn Man Utd og svo á heimavelli gegn Arsenal, og vissulega var mjög gott að komast ósigraðir í gegnum þá leiki, en við erum Chelsea og eigum að vilja meira. Þess vegna heimta ég þrjú stig gegn Leicester á laugardaginn og ég veit að við eigum hæglega að geta unnið þennan leik ef okkar menn mæta rétt stemmdir til leiks. Einhverjir leikmenn úr okkar röðum notuðu landsleikjahléið til að dunda sér við meiðsli en þau voru vissulega misalvarleg. Þeir Cole Palmer og Levi Colwill drógu sig báðir úr enska landliðshópnum en ættu báðir að vera leikfærir. Romeo Lavia meiddist í leiknum gegn Arsenal og það er spurningamerki hvort hann verði klár í tæka tíð. Ef hann er eitthvað tæpur finnst mér líklegt að hann verði hvíldur og Enzo Fernandez muni taka sæti hans í þessum leik, enda borgar sig ekki að flýta okkur um of með Lavia, það er betra að fórna honum í einn leik heldur en að missa hann í marga. Malo Gusto meiddist líka gegn Arsenal en hann ætti að vera orðinn klár og mun líklega halda sæti sínu í liðinu. Wesley Fofana var einnig að berjast við smávægileg meiðsli en hann ætti að vera klár í að snúa aftur á sinn gamla heimavöll og Jadon Sancho ætti einnig að vera orðin klár eftir bæði meiðsli og veikindi.Það er nokkuð jákvætt að við getum með nokkuð góðu móti stillt upp byrjunarliði okkar í deildinni, en það er líka nauðsynlegt hvað varðar stöðuleika í leikmannahópnum. Reece James er því miður enn að kljást við einhver meiðsli aftan í læri þannig að hann verður líkast til ekki með að þessu sinni.


Eins og staðan er þegar þessi pistill er ritaður reikna ég með að Sanchez byrji í markinu með þá Colwill og Fofana í hjarta varnarinnar. Malo Gusto verður hægra megin og Cucurella vinstra megin. Á miðjunni verða þeir Caceido og Enzo (að því gefnu að Lavia verði ekki orðin klár) og Palmer fyrir framan þá. Pedro Neto verður á kantinum vinstra megin en eins og staðan er núna er hann kantmaður númer eitt, enda hefur hann verið mjög frískur í síðustu leikjum. Á hægri kantinum verður síðan Madueke, en mér finnst hann vera kominn á hálan ís hvað varðar fast sæti í byrjunarliðinu, hann þarf að stíga meira upp til að halda því að mínu mati. Á toppnum verður síðan Nicholas Jackson og ég býst að sjálfsögðu við marki eða mörkum frá honum í þessum leik. Ég trúi ekki öðru en að hann verði við þeirri beiðni. Ég væri síðan til í að sjá þá Joao Felix og Nkunku fá alvöru mínútur í þessum leik. Þeir eru báðir eiginlega of góðir til að vera svona mikið á bekknum en ég geri mér alveg grein fyrir því að það er púsl að koma þeim inn í byrjunarliðið. Nú hafa verið fréttir um hugsanlegt brotthvarf Nkunku vegna lítils spilatíma í deildinni en ég vil alls ekki missa hann úr okkar röðum. 



Ég spái nú aldrei rétt um úrslit leikjanna en nú ætla ég að reyna að henda í 1-3 spá með þægilegum sigri okkar manna. Jackson setur tvö mörk og Madueke kemur með eitt bara af því ég var að skammast í honum. Mavididi skorar fyrir Leicester. 


Áfram Chelsea!


E.s. Við viljum minna aðdáendur að skrá sig í Chelsea klúbbinn á Íslandi. Þannig er hægt að verða sér út um miða á leiki með Chelsea. Nú eru síðustu forvöð til að skrá sig í klúbbinn eða endurnýja skráningar þannig að forkaupsréttur haldist. Við hvetjum ykkur eindregið til að ganga frá slíku enda eru allar upplýsingar á www.chelsea.is

Комментарии


bottom of page