top of page
Search

Leicester vs. Chelsea

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: 1. febrúar 2020 kl. 12:30

Leikvangur: King Power Stadium

Hvar er leikurinn sýndur? Símanum Sport og BT Sport

Upphitun eftir: Árna St. StefánssonÍ hádeginu á morgun heimsækja okkar menn lærisveina Brendan Rodgers á King Power Stadium. Þetta verður vafalaust hörkuleikur tveggja vel spilandi liða. Chelsea þarf nauðsynlega á sigri að halda til að minnka bilið í Leicester og um leið halda liðunum á eftir í temmilegri fjarlægð. Leicester þarf aftur á móti á þremur stigum að halda til að komast aftur á sigurbraut og halda í við ljósbláa liðið í Manchester.


Chelsea Gengi Chelsea hefur verið ansi upp og niður að undanförnu. Eftir sannfærandi sigur á Burnley kom afleitt tap gegn Newcastle og svo heldur svekkjandi jafntefli gegn Arsenal í síðustu umferð. Mér reiknast svo til að liðið hafi ekki náð að tengja saman tvo sigurleiki í röð í deildinni síðan í nóvember! Lampard er því eflaust farið að lengja eftir einhverjum almennilegum stöðuleika, en til að það raungerist þá þarf liðið að byrja á að dekka almennilega í föstum leikatriðum og hætta að fá á sig klaufaleg mörk.


Mikið hefur verið rætt og ritað um mögulegar hreyfingar á leikmannahópi liðsins í blessuðum janúarglugganum. Ég ætla ekki að fara að þylja upp allt misgáfulega slúðrið sem hefur verið slengt fram að undanförnu en staðreyndin er engu að síður sú að þegar þetta er skrifað er lokadagur leikmannagluggans ca. hálfnaður og ennþá hefur liðið hvorki keypt né selt einn einasta leikmann. Það eina sem hefur gerst er að liðið hefur lánað leikmenn á borð við Danny Drinkwater, Marc Guehi og Victor Moses. Það er aldrei að vita hvað gerist á þessum síðustu klukkutímum gluggans en ég er satt að segja farinn að vona að ekkert gerist því við höfum oftar en einu sinni brennt okkur á misheppnuðum “panikkaupum” í blálok leikmannaglugga.


En aftur að leik morgundagsins. Tammy er tæpur eftir að hafa fengið högg í leiknum gegn Arsenal á dögunum. Það er því líklegt að Michy nokkur Batshuayi taki sæti hans í byrjunarliðinu og vonandi nýtir kauði tækifærið með bravör. Pulisic er ennþá að glíma við meiðsli sem og Loftus-Cheek og þá eru Kante og R. James einnig tæpir skv. nýjustu fréttum. Allir aðrir ættu að vera klárir.


Líklegt byrjunarlið:Leicester Það er tiltölulega auðvelt að færa rök fyrir því að Leicester sé, ásamt Sheffield United, spútniklið deildarinnar það sem af er tímabilinu. Liðið situr í 3. sæti deildarinnar með 48 stig, þremur stigum á eftir Man. City og átta stigum á undan okkar mönnum. Liðið er vissulega ansi vel mannað, en það voru þó fáir sem hefðu spáð þeim svona góðu gengi fyrir tímabilið. Brendan Rodgers hefur einfaldlega náð að stilla upp feykilega sterku og stabílu liði - liði sem fær á sig fá mörk og er stórhættulegt fram á við, með Vardy fremstan í fararbroddi. Liðið hefur reyndar aðeins verið að gefa eftir að undanförnu, sbr. töp gegn Southampton og Burnley, og það er vonandi að okkar menn geti nýtt sér það í leiknum á morgun.


Spá Eftir miklar bölsýnissprár undirritaðs að undanförnu þá ætla ég að leyfa mér að vera bjartsýnn fyrir viðureignina á morgun og spái okkar mönnum 1-2 sigri. Batsman nýtir tækifærið í byrjunarliðinu og setur bæði mörkin fyrir okkar menn. Sigurmarkið kemur undir blálokin sem verður til þess að Lampard tekur hressilegt hliðalínu-hnérennsli í grímuna á stuðningsmönnum Leicester. Rútuferðin til London mun einkennast af taumlausri gleði; CHO og Tomori munu heyja ógleymanlega beatbox-keppni, Azpi heldur gallsúrt eftirhermuuppistand á spænsku, Barkley verður ber að ofan allan tímann og skorar á mann og annan í sjómann, Rudiger deyr áfengisdauða eftir að hafa hesthúsað 12 Strongbow epla-síderum og síðast en síst þá frumflytur meistari Billy McCulloch nýjan brandara.


P.S. Fyrir þá sem þekkja ekki til Billy McCulloch þá hefur hann verið nuddari liðsins í fjölmörg ár og er feykilega vinsæll innan liðsins. Ég mæli innilega með að fólk “youtube-i” manninn!


Comments

Couldn’t Load Comments
It looks like there was a technical problem. Try reconnecting or refreshing the page.
bottom of page