top of page
Search

Leeds United vs Chelsea Football Club

Dag- og tímasetning: Sunnudagurinn 21. ágúst kl 13:00

Leikvangur: Elland Road

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport

Upphitun eftir: Markús Pálma Pálmason





Vikan hefur verið heldur tíðindalítil í aðdraganda næsta útileiks gegn Leeds. Af leikmannamálum er ekki mikið að frétta, nema að Wesley Fofana er orðinn verulega spenntur fyrir væntanlegri komu til okkar. Hann mun ekki leika með Leicester um helgina. Emerson Palmieri er mögulega á leið til West Ham, - tilboði í hann var samþykkt, en einhverjir hnökrar eru með launakröfur hans. Þær eru víst hærri en núverandi laun hjá Chelsea. Marcos Alonso er byrjaður aftur að æfa með liðinu, þrátt fyrir að vera á leiðinni til Barcelona. Pierre Emerick Aubameyang er orðaður við okkur, þar sem Thomas Tuchel á að vera prímus mótorinn í þeim skiptum. Matt Law, blaðamaður Daily Telegraph sagði í London is Blue podcastinu að hann væri hugsaður sem skammtímalausn, en klúbburinn er að horfa til Christopher Nkunku hjá RB Leipzig sem langtímalausnar. Einnig er talað um að Anthony Gordon komi til okkar frá Everton, og líklegt er að Billy Gilmour og Michy Batshuyai verði bíttað á móti. Þetta skýrist líklega allt saman í næstu viku. Klúbburinn splæsti einnig 15m evra í Cesare Casadei, unglingaliðsmann frá Inter. Við hjá CFC.is munum fjalla um það nánar á næstunni. Við viljum einnig minna á lesendur á að hlusta á Blákastið. Þættirnir koma nú með reglulegu millibili. Síðasti þáttur var með Nonna Coach og greining hans á Tottenham leiknum var til fyrirmyndar!


Að öðru er það helst að frétta, að dómararnir í leiknum gegn Tottenham, bæði Anthony Taylor og Mike Dean í VAR, viðurkenndu mistök. Báðir hafa beðist afsökunar á atvikinu. Dean hefði átt að senda Taylor í varsjána og Taylor hefði átt að gefa Cristian Romero rautt spjald fyrir að toga í hárið á Cucurella. Mike Dean hefur verið leystur undan VAR skyldum tímabundið. Mike Dean er einnig aðdáandi Tottenham Hotspur. Hvort það sé einhver tenging þarna á milli skal ósagt látið!




Chelsea: Jæja, þá er komið að því. Næsti leikur á dagskrá er útileikur gegn Leeds. 29 viðureign þessara liða í Ensku Úrvalsdeildinni og nú er tími fyrir okkar menn að rífa sig í gang eftir þetta rugl gegn Spurs. Við látum ekki svona kjaftæði eyðileggja fyrir okkur og okkar markmiðum á tímabilinu. Þetta er tíminn til að setja allt í botn og fara á góða sigurgöngu þar sem næstu 4 leikir ættu allir að vera skyldusigrar.


Í 29 viðureignum hefur Chelsea unnið 11 sinnum, Leeds 8 sinnum og 9 endað með jafntefli. Bæði lið sterkari á heimavelli en á útivelli og ekki mikill munur þar hlutfallslega. Seinustu 5 viðureignir þessara liða í Ensku Úrvalsdeildinni hafa endað með sigri Chelsea, fyrir utan 1 jafntefli. Seinasti leikur á Elland Road endaði 0-3 fyrir Chelsea þar sem okkar eigin Mason Mount, Captain America Pulisic og Lukaku skoruðu.


Þriðji leikur tímabilsins og nóg er eftir. Eins og stendur erum við í 7. sæti og Leeds í 6. sæti með jafnmörg stig og jafngóða markatölu. Flottir leikir um helgina og nóg af stigum í boði þannig skyldusigur er kannski “understatement”. Ég vil sjá alvöru frammistöðu hjá okkar mönnum og halda áfram þessu fallega spili sem við áttum meirihluta leiks gegn Spurs.

Okkar fyrsti leikur, 0-1 sigur gegn Everton var ekki sannfærandi. Spurs leikurinn gaf okkur von þrátt fyrir vonbrigði í lokin, en alvöru frammistaða á sunnudaginn myndi gefa okkur mikinn kraft fyrir komandi leiki.


Ég býst við því að við byrjum með sterkt byrjunarlið til að reyna drepa leikinn sem allra fyrst. Við vitum að N’Golo Kante er frá vegna meiðsla aftan í læri sem hann varð fyrir gegn Tottenham. Mateo Kovacic er einnig frá vegna meiðsla í þessum leik og vonandi kemst hann til baka sem allra fyrst, þurfum á honum að halda á tímabilinu. Stóra spurningin er, hver fær plássið á miðjunni í fjarveru þessara manna? Ég ætla skjóta á að Conor Gallagher fái kallið fram yfir Loftus-Cheek, þar sem Ruben gæti komið inná í hægri væng bakverði þegar það fer að líða á leikinn og James færir sig í hægri miðvörð ef Azpilicueta verður orkulaus í seinni hálfleik.





Leeds United:

Leeds United. Einn helsti óvinur Manchester United, en einnig einn helsti óvinur okkar. Ég sjálfur gleymi aldrei því að hafa bölvað Raphinha sundur og saman á Brúnni með nokkrum vel völdum Chelsea stuðningsmönnum. Fyrsti leikur Leeds á tímabilinu endaði með 2-1 sigri heimamanna á Wolves, en svo lentu þeir á vegg í annarri umferð og gerðu 2-2 jafntefli gegn Southampton þar sem Rodrigo skoraði bæði mörk Leeds áður en Southampton skoraði 2 á

10 mínútum til að jafna.


Samkvæmt nýjustu fregnum úr hlaðvarpi sem maðurinn var í, að þá er víst Patrick Bamford frá vegna meiðsla í þessum leik. Einnig eru Stuart Dallas, Luke Ayling og Junior Firpo á meiðslalista Leeds. Ég hugsa að Jesse Marsch muni stilla upp skemmtilegu liði á móti okkur, þar sem jafnvel sumir byrjunarliðsmenn gætu komið á óvart. Þeir eru að fara inn í ágætt prógram framundan gegn Brighton, Everton og Brentford og vilja væntanlega ná í sem flest stig í þeim leikjum.


Líklegt byrjunarlið Leeds:


Spá:

Ég ætla að spá hörkuleik, alvöru baráttu og jafnvel smá hita í leiknum. Menn eru ennþá verulega pirraðir eftir þennan Tottenham leik á Brúnni og vilja ná í góð stig núna á útivelli. Á meðan verða Leeds menn harðir á sínum heimavelli, með sína grjóthörðu stuðningsmenn. 1-3 sigur okkar manna verður lokaniðurstaða. Sterling kemur okkur yfir, Rodrigo jafnar, og svo koma 2 sleggjur frá Gallagher og Pulisic sem kemur inn á í seinni hálfleik.


KTBFFH!

Comments


bottom of page