top of page
  • Twitter Social Icon
  • Facebook Social Icon
Search

Leeds gegn Chelsea

  • Writer: Jóhann Már Helgason
    Jóhann Már Helgason
  • 1 day ago
  • 6 min read

Keppni: Enska Úrvalsdeildin, 14. umferð

Tími, dagsetning: Miðvikudagur 3. desember kl: 20.15

Leikvangur: Elland Road, Yorkshire England

Dómari: Darren England

Upphitun eftir: Þráinn Brjánsson


ree

Það er skammt stórra högga á milli nú þegar aðventan er gengin í garð. Nú er komið að 14. umferðinni í ensku úrvalsdeildinni og skottast nú okkar menn alla leið í Jórvíkurskíri og við heimsækjum Leeds á Elland Road. Við fáum tvo daga til að ná vopnum eftir stórskemmtilegan og vægast sagt athyglisverðan leik gegn toppliði Arsenal á sunnudaginn var. Það var klárt í hvað stefndi vel fyrir leik á sunnudaginn. Menn voru vel gíraðir og frá fyrstu mínútu var ljóst að nú skyldi tekið á því. Peppræðan hjá Maresca hefur klárlega skilað sér því menn voru á stundum full ákafir og kom það örlítið niður á gæðum leiksins, en okkar menn voru mjög ferskir og undrið hann Estevao átti meðal annars dauðafæri snemma leiks, en skaut hátt yfir markið og skrifast það klárlega á reynsluleysi og ungæðishátt. Það á eftir að slípast af honum og segi ég slípast því drengurinn er demantur sem á eftir að verða einn af þeim stóru. Malo Gusto var býsna góður, miðjumennirnir Reece James og Caicedo áttu miðjuspilið skuldlaust. Flestir aðrir í liðinu áttu fínasta leik og Arsenalmenn gerðu fátt annað framan af leik, nema þá einna helst að safna gulum spjöldum og uppskáru heil sex spjöld í leiknum og fengu dágóða sekt fyrir þann árangur. En auðvitað þurftum við að fá eins og eitt rautt, og að þessu sinni var það Caicedo sem hrærði í hressilega tæklingu og skóf aðeins legginn á Merino .Okkar "ástsæli" Anthony Taylor veifaði því gula framan í okkar mann, en skrapp svo í skjáinn og ákvað að dengja á hann rauða spjaldinu, og sendi hann í sturtu á 38. mínútu. Það var ekki laust við að það færi um mann eftir þennan gjörning og tilhugsunin um rúmlega hálfan leik gegn Arsenal manni færri var ekkert spes á þessum fyrsta sunnudegi í aðventu. Það læddist að manni sú hugsun hvort maður ætti bara að fara og klára kransinn eða horfa áfram. En jú áfram skyldi haldið og liðin gengu til búningsklefa í hálfleik í stöðunni 0 - 0.


Maresca ákvað að skipta Estevao útaf í hálfleik fyrir Garnacho og þá kom meiri hraði í leikinn. Stóra skrefið var svo stigið á 48. mínútu þegar Vottur Chalobah skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu frá Reece James. Það var ekki laust við að aðventan hafi kikkað hraustlega inn og maður var jafnvel farinn að sjá stig út úr viðureigninni. Á þessu augnabliki fór maður að vona að Maresca myndi skipa sínum mönnum að leggja rútunni, en það er reyndar ekki sérlega gáfulegt á móti liði eins og Arsenal. Arteta með sína óviðjafnanlegu hárgreiðslu var við það að fara á límingunni á hliðarlínunni og virtist koma því klárlega til skila til sinna manna að sækja sem aldrei fyrr. Á 59. mínútu náði Merino að jafna leikinn með skallamarki eftir stoðsendingu frá Saka og sættust liðin á jafnan hlut og lauk leiknum með jafntefli 1 - 1. Ég held að bæði lið hafi verið nokkuð sátt. Þetta var að mörgu leyti flottur leikur hjá okkar mönnum og mér fannst allir byrjunarliðsmenn eiga nokkuð góðan leik. Estevao var frábær, Gusto og Fofana fínir í bakverðinum og Cucurella er alltaf eins og kolvitlaus Chihuahua hundur sem glefsar endalaust í hælana á mönnum. Hann lætur andstæðinginn aldrei í friði og er þindarlaus út um allan völl. Það er reyndar furðulegt hvað hann komst upp með í leiknum og held ég að hann megi prísa sig sælan fyrir að hafa fengið að klára leikinn. Mikil yfirferð á Pedro Neto, Enzo traustur að vanda og Joao Pedro fínn sem fremsti maður. Það verður samt að viðurkennast að Robert Sanchez var okkar besti maður og átti hann stórkostlegar vörslur og virkaði yfirvegaður og klár í slaginn. Megi hann sem oftast stíga upp í “stóru” leikjunum og var hann valinn maður leiksins að þessu sinni og að mínu mati mjög verðskuldað. Heilt yfir, fínasti leikur hjá okkar mönnum og við erum enn í toppbaráttunni og þar viljum við vera. En snúum okkur þá að næsta leik!


ree

Chelsea:

Það er alveg ljóst að það hefur orðið einhver meiriháttar hugarfarsbreyting hjá liðinu og hafa undanfarnir leikir sýnt að við höfum kraft, ákafa og getu til að vinna öll lið. Það er kannski ráð að reyna að hemja örlítið ákafann þar sem rauðu spjöldin eru orðin ansi mörg og má segja óþarflega mörg. En meiðslalistinn styttist og Palmer sem varð fyrir því óhappi að tábrotna heima hjá sér er allur að koma til. Hann var ónotaður varamaður gegn Arsenal en kemur væntanlega vel hvíldur í leikinn gegn Leeds. Delap kom inná fyrir Joao Pedro gegn Arsenal, en náði ekki að setja mark sitt á leikinn og virðist ekki alveg ná fullum takti en það kemur vonandi. Essugo mun verða væntanlegur í byrjun nýs árs og Lavia verður til taks um miðjan desember segja sögur, en það er nú kannski ekki hægt að stóla mikið á drenginn þann, ekki nema að sjúkraþjálfurum takist að framkvæma eitthvað kraftaverk. Mannskapurinn er í nokkuð góðu standi og er vonandi hægt að álagsstýra mönnum nú þegar stíft leikjaprógramm er framundan. Nú er bara að vona að Maresca sjóði saman réttu blönduna fyrir leikinn á miðvikudagskvöld. Ég hef fulla trú á að við náum góðum úrslitum og missum ekki liðin of langt fram úr okkur.



Leeds:

Leeds er að mörgu leyti merkilegur klúbbur og fornfrægur. Flestir Leeds aðdáendur sem ég þekki eru komnir á seinni hálfleik ævinnar með örfáum undantekningum þó. Þjóðverjinn Daniel Farke er þar við stjórnvölinn en gengi liðsins hefur verið betra, en þeir sitja í 18. sæti með 11 stig. Leeds var á miklu skriði á árunum 2018 til 2022 þegar Marcelo Bielsa var við stjórnvölinn eða “El Loco Bielsa” eins og hann var kallaður. Hann kom þeim aftur upp í Premier League eftir 16 ára fjarveru. Bielsa er einn merkilegasti þjálfari sem starfað hefur í enska boltanum og aðferðir hans við þjálfun hafa orðið efni í margar góðar sögur og frægt er, að skömmu eftir að hann tók við þá tók hann hópinn út með sér og skipaði þeim að tína rusl og hreinsa æfingasvæðið í góðann tíma. Hann sagði þeim að því loknu að þetta væri tíminn sem tæki venjulegan verkamann að vinna fyrir miðanum á leik og fannst það bara fínt að þeir gerðu sér bara grein fyrir því. Sagan segir einnig að Bielsa hafi stundað að láta leikmenn spila það sem hann kallaði “murderball” í langan tíma en það mun vera leikur sem boltinn fer aldrei úr leik og leikmenn fá lítinn tíma til að ná andanum. Hann gerði alltaf miklar kröfur um líkamlegt atgervi leikmanna og það komst enginn upp með neitt kæruleysi. Einhverju sinni var fangelsi gengt æfingasvæði Leeds og sátu fangarnir oft og fylgdust með æfingu og prísuðu sig sæla að þurfa ekki að upplifa þennan þrældóm sem Bielsa lagði á sína menn. Þetta skilaði sér sannarlega því liðið varð frægt fyrir mikið úthald, hraðan leik og fljóta leikmenn. Þessi skemmtilegi þjálfari var svo látinn fara 2022 og síðan hafa nokkrir stjórar komið og farið og meðal annars gamla brýnið Sam Allardyce, en Daniel Farke tók svo við 2023 og situr enn við stjórnvölinn þrátt fyrir sögusagnir um að það sé verulega farið að hitna undir honum. Líklegt er að hann sé næsti stjórinn sem fær að fjúka. Hvorki hefur gengið né rekið á yfirstandandi tímabili þrátt fyrir að mannskapurinn sem hann hefur yfir að ráða gæti alveg verið verri. Margir ágætis leikmenn eru í herbúðum Leeds og má nefna Ethan Ampadu, Pascal Struijk, Sean Longstaff og Dominic Calvert-Levin. Einhver vandræðagangur virðist vera á liðinu og þjálfarinn ekki að finna lausnirnar.


Liðsuppstilling og spá:

Þó Leeds séu í talsverðri lægð þá held ég að ekki sé nein ástæða til að detta í eitthvað vanmat sem stundum hefur brunnið við. Mér finnst ráðlegt að tempra aðeins ákefðina og skapgerð liðsins. Fara inn í þennan leik af skynsemi og yfirvegun. Ég held að það sé alveg klárt að Sanchez verði í markinu og fyrir framan hann verða þeir Cucurella, Chalobah, Fofana og Gusto. Caiceido verður fjarri góðu gamni og situr sinn fyrsta leik út af þremur, sem er í sjálfu sér fínt frí fyrir hann. Á miðjunni verða þeir Santos og Enzo en hin heilaga þrenning þar fyrir framan verður Pedro Neto, Cole Palmer og Estevao og mig langar að setja Joao Pedro fremstan en hann virkaði þreyttur í Arsenal leiknum svo Delap verður líklega fremstur að þessu sinni. Ég vil sjá ákveðni en þó hóflega, og menn þurfa aðeins að gíra niður og forðast rauðu spjöldin þó jólaleg séu. Mér finnst ekki óeðlilegt að spá þessu 1-3 og okkar menn stýri þessu frá byrjun og Estevao verður búinn að stilla kúrsinn og setur mark og Neto og Palmer setja eitt hvor en Leeds setja eitt í blálokin. Þetta verður skemmtilegur leikur og vafalaust okkar mönnum til sóma.


Góða skemmtun og áfram Chelsea!!!


P.s. við minnum enn og aftur á að fresturinn til að skrá sig eða endurskrá sig í Chelsea klúbbinn er að renna út. Þetta er besta leiðin til að tryggja sér miða á leik með Chelsea. Allar upplýsingar á www.chelsea.is


 
 
 
  • Grey Google+ Icon
  • Grey Twitter Icon
  • Grey LinkedIn Icon
  • Grey Facebook Icon

© 2023 by Talking Business.  Proudly created with Wix.com

bottom of page