top of page
Search

Krasnodar vs. Chelsea

Keppni: Meistaradeild Evrópu

Dag- og tímasetning: Miðvikudagurinn 28.október

Leikvangur: Krasnodar Stadium

Hvar er leikurinn sýndur? Stöð 2 sport 4, Sky sports 1

Upphitun eftir: Snorra ClintonChelsea

Það virðist vera sem leikirnir koma á færibandi nú eftir landsleikjahlé og því ber auðvitað að fagna! Framundan er því þriðji leikurinn á átta dögum. Um miðja síðustu viku mættum við Sevilla í bragðdaufum 0-0 leik á Stamford Bridge.


Næst var förinni heitið norður til Manchester þar sem okkar menn heimsóttu Óla Gunnar og hans skósveina hjá United. Það voru án efa margir sem spáðu miklum markaleik þar sem varnir þessara liða hafa verið þeirra veikasti hlekkur það sem af er tímabili og bæði lið með mikla hæfileika sóknarlega. Aftur á móti sýndu bæði liðin upp á agaðan og frábæran varnarleik. Heilt yfir var leikurinn nokkuð jafn en heimamenn í Man Utd voru þó líklegri til að setja boltann í netið þegar líða tók á seinni hálfleik. Sóknarlega náðum við ekki að skapa nægilega mikla hættu og er ég nokkuð viss um að De Gea hafi sleppt því að fara í sturtu eftir leik þar sem hann náði ekki að svitna. Hann hefur þó væntanlega fengið smá hland fyrir hjartað þegar okkar menn gerðu vítaspyrnutilkall þegar sólstrandargæjinn hann Harry Maguire tók Azpilicueta hálstaki og hékk á bakinu á honum eins og skólataska á smákrakka. Dómari leiksins hafði engan áhuga á þessu og VAR-sjáin engu nær því að gefa okkur víti þar sem um klárt brot var um að ræða.


Það var svo rétt fyrir lok fyrri hálfleiks þegar besta færi leiksins lét dagsins ljós. Keim líkt öðru markinu sem við fengum á okkur gegn liverpool, við missum boltann við að byggja upp sóknina, sending fram og Rashford er kominn einn á móti Mendy sem varði meistaralega og kom í veg fyrir að Utd menn færu inn í leikhléið marki yfir. Það er leiðinlegt að segja það en allur þessi sóknarþungi sem keyptur hefur verið inn í liðið sást ekki í seinni hálfleik og getum við þakkað annarri heimsklassa vörslu frá Mendy að heimamenn settu ekki mark undir lok leiksins. Rétt þykir að taka fram að aftasta lína Chelsea sýndi sínar bestu hliðar. Silva, James og Mendy báru höfuð og herðar yfir samherja sína spiluðu þeir alveg hreint frábærlega. Viðvera Silva í boxinu hefur þvílík áhrif á vörnina, það er unun að horfa á hann staðsetja sig og leiðbeina samherjum sínum. Hann er með þennan X-factor sem fáir leikmenn búa yfir, þ.e.a.s. hann gerir samherja sína betri. Einnig er það upplifun höfundar að vörnin sé ekki jafn stressuð með Mendy í búrnu eins og þegar Kepa er þar. Sá síðarnefndi gæti eflaust ekki haldið hreinu á Pollamóti í Vestmannaeyjum, með fullri virðingu fyrir pollunum.En nóg um þennan leik, gerðum ekki nóg sóknarlega til að taka 3 stig en gerðum nóg varnarlega til að taka gott stig frá Manchester.


Eins og staðan er núna getur Lampard valið sitt besta lið og þarf ekki að hafa áhyggjur af meiðslum. Eingöngu Kepa og Gilmour eru á meiðslalistanum. Ég gæti trúað því að Lampard róteri aðeins í byrjunarliðinu fyrir þennan leik og leyfi nokkrum lykilmönnum að hvílast aðeins og aðrir sem eru að reyna komast í sitt besta keppnisform fái séns hér.Án vafa er fyrsti maður á blað hjá Lampard Senegalska undrið á milli stanganna, Edouard Mendy. Reece James heldur plássi sínu í liðinu í stað fyrirliða vor og Christensen kemur inn fyrir gamla brýnið hann Thiago Silva. Aðrar breytingar á byrjunarliðinu spái ég að verði Kovacic inn fyrir Kanté, Odoi og Mount fara á sitt hvorn kantinn og Tammy byrjar frammi. Á pappír er þetta algjör skyldusigur og ágætis leikur til að hvíla menn á borð við Pulisic, Werner og Havertz enda langt ferðalag til Krasnodar og þessir menn spilað hvað mest upp á síðkastið.


Krasnodar

Ég gef mér það að fáir Íslendingar hefðu heyrt getið um knattspyrnuliðið FC Krasnodar ef að hann Ragnar „Sykurinn“ Sigurðsson hefði ekki spilað þar við góðan orðstýr í tvö ár eða þar til enska stórveldið Fulham keypti hann eftir glæsilega frammistöðu hans á EM í Frakklandi 2016. En látum það ekki stoppa fróðleiksmolana. Heimamenn seitja nú í 8. Sæti í rússnesku Úrvalsdeildinni með 18 stig eftir 12 leiki. Liðið er í mikilli stöðugleika kreppu þessa dagana en það hefur aðeins unnið 2 af síðustu 5 leikjum (í öllum keppnum). Liðið sótti þó gott stig til Rennes í síðustu umferð. Það er einmitt svona leikir sem gerðu mig dauðhræddann á síðustu leiktíð. Öll litlu liðin sem voru búin að vera í ströggli mættu okkur til að létta álögunum. En trú mín á varnarleiknum og nýja markverðinum hefur tvíeflst eftir síðustu 2 leiki eða í raun frá því að Silva og m-Mendy stigu saman inn á völlinn, fer ég því mun bjartsýnni inn í þennan leik en ég hefði gert fyrir ári.


Spá

Ég hugsa að við tökum þá í kennslustund, vörnin verður læst og hungraðir sóknarmenn sem hafa þurft að sætta sig við bekkjarsetu í undanförnum leikjum sýna heimamönnum hvar Davíð keypti ölið. Við munum yfirgefa Rússland með 3 stig í pokanum og vinna þennan leik 0-5 með mörkum frá Ziyech, Odoi, Mount og Tammy með tvö.

KTBFFH

- Snorri Clinton

Comments


bottom of page