top of page
Search

Ipswich

Keppni: Enska Úrvalsdeildin

Tími, dagsetning:  30. desember  kl. 19:45

Leikvangur: Portman Road, Ipswich

Dómari: John Brooks

Hvar sýndur: Síminn Sport 2

Upphitun eftir: BOB - Björgvin Óskar Bjarnason


Margir Chelseapungar lýstu yfir vonbrigðum með markalaust jafntefli við Everton á Goodison Park fyrir um viku síðan. Ég var þó ekki einn þeirra því ég vissi að lærisveinar Dyche mundu verða okkur erfiður ljár í þúfu. Það liggur svo auðsjáanlega í orðans hljóðan. Dyche þýðir samkvæmt orðsifjum einfaldlega manngerð hindrun (virkisskurður) sem hafði  mikið notagildi á miðöldum. Dyche=dyke=ditch=díki eða skurður grafinn til varnar óvininum. Það er annar slíkur á Lifrapolli en bara í “hinu” liðinu en það er hollendingurinn (Van) Dijk.  En tjallinn ber nafnið (Dyche) fram sem “dæs” sem skýrir fyrirbærið eða frekar hvernig það virkar enn betur því sögnin að dæsa þýðir að “vanmegnast í illviðri og kulda” skv. Orðabók Blöndals. Leikurinn var spilaður í 15 m/s vindi þræsingi eða dæsingi (allhvasst = 7 gömul vindstig) og 4° hita (eða um frostmark með vindkælingu). Hinar fínstilltu sóknarvélar úr Vestur-London fylltust allar af krapa og leiðindum og komust ekkert áleiðis yfir díkið eða síkið sem menn Dyche höfðu grafið umhverfis eigið mark. Þeir einu sem létur þetta frassaveður ekki á sig fá voru varnarjaxlarnir okkar sem og markmaður og miðjumennirnir tveir. Svo ekki gekk rófan í okkar hinsta leik á þessum volaða velli. Farvel frans.



Aðstæður á Brúnni voru öllu betri þegar Chelsea tók á móti strákunum úr hverfinu. Fullham er alveg fullþroska lið, undir stjórn Marco Silva, sem vaxið hefur við hverja raun. Chelsea sýndi ágætis fótbolta í fyrri hálfleik og komst í 1-0 en gestirnir voru samt alveg að stríða okkar mönnum út um allan völl. Mér fannst síðan eins og að okkar menn teldu að fyrri hálfleikur og fyrstu 5-6 mínúturnar af þeim seinni væri skrattans nóg puð á helgidagakaupi og eiginlega allir sem einn virkuðu eins og þeir nenntu þessu ekki. Öll barátta um boltann vannst oftast af Fulhamleikmönnum sem virkuðu líkamlega sterkari, fljótari, hugrakkari, teknískari og ákveðnari. Seinni hálfleikur var eiginlega Deja-vu frá því á sama tíma í fyrra. Okkar menn eiga ágætis fyrri hálfleik, tækifæri og skora án þess að “klára” leikinn. Koðna, hætta að berjast, fúska auðveldum færum og nenna ekki að verjast í þeim seinni. Hanga þó á roðinu þar til  seint í leiknum þegar andstæðingurinn (t.d. Burnley, Sheffield Un.) jafnar og horfa aulalega á þegar þeir skora sigurmarkið í uppbótartíma. Mér fannst  Maresca  klikka verulega í stjórnun á leiknum alveg eins og á móti Everton. Það var þó skiljanlegra miðað við aðstæður. En aðeins ein skipting á 73. mínútu meðan Silva skipti fjórum út á miðju og framlínu sem gjörbreyttu leiknum fyrir Fulham. Tveir af “varamönnunum” skoruðu síðan mörk Fulham seint í leiknum en þá var svo komið að leikmenn Fulham höfðu algera yfirburði í öllum stöðum á vellinum, ekki síst á vængjunum. Ég veit ekki hvort reynsluleysið, spennan að keppa um efsta sætið eða taktísk yfirsjón Maresca varð Chelsea að falli. En eitt er víst, ekki er það leikjaálagið. Ég hefði þó viljað að Maresca hefði brugðist við fyrr og betur þegar allir sáu í hvað stefndi um miðjan seinni hálfleik. 


Á síðasta mánudegi þessa árs heimsækjum við Suðurfólkið (Suffolk) á Portman Road í Ipswich (Gippesvík). Eða “The A team” eins og Ed Sheeran einn eigandi félagsins mundi syngja. Það má með nokkru sanni segja að Ipswich Town sé  “The A team” meðal enska lið þegar kemur að árangri í Evrópukeppni félagsliða en Ipswich hefur leikið 62 leiki í Evrópukeppnum og ALDREI tapað leik á Portman Road og hafa þó leikið þar gegn Real Madrid, AC Milan, Inter Milan, Lazio og Barcelona meðal annarra stórliða. Geri aðrir betur. Á blómatímum liðsins stjórnuðu því stjórar eins og Sir Alf Ramsey og síðan hinn frábæri Bobby Robson, en báðir hættu sem stjórar Ipswich til að taka við enska landsliðinu. Eftir að hafa leikið stöðugt í efstu deild frá 1962 til 1985 þá féll Ipswich um deild. Eftir að Úrvalsdeildin vor stofnuð var Ipswich nokkuð duglegt að halda sér Deildinni fyrstu 10 árin. Þeir enduðu meira segja í 5. sæti á fyrsta tímabili Deildarinnar eftir aldarmótin. Ofar en Chelsea með Hasselbaink, Eið, Terry, Zola, Cudicini, Poyet, Wise, Le Saux, Di Matteo og Nigeríuskreiðina Babayaro og fullt af karakterum eins og Desailly, Melchiot og Leboeuf (buffarinn) innanborðs. Ekki má gleyma uppáhalds Chelsealeikmanni flestra andstæðinga okkar, Winton Bogarde, sem plokkaði 40.000 pund af peningatré Chelsea í hverri viku í fjögur tímabil án þess að nenna eða vilja sparka í bolta fyrir okkur.


Ipswich datt niður í fyrstu deild (síðar Championshipdeildin) árið eftir eða 2001-02 og var að dandallast þar næstu 18 árin þegar þeir féllu aftur um deild í League One. Kieran McKenna, stjóri Ipswich, er síðan búinn að hífa þá upp um tvær deildir síðan 2021-22 tímabílið og kom þeim í Úrvalsdeildina. En varla er útlit fyrir að dvöl þeirra í efstu deild verði til langframa. Ipswich er næstneðst í Deildinn með aðeins 12 stig úr 18 leikjum. Og tekist að skora aðeins 16 mörk í þeim. Nú er hún Snorrabúð (Portman Road) stekkur því þar hefur enginn heimaleikur unnist af níu (5 töp) og aðeins sex mögur skoruð en 16 mörk fengin á sig. Portman Road er ekki lengur þetta vígi sem það var í Evrópukeppnum. Ég ætla rétt að vona að okkar menn farið ekki að eyðileggja þann árangur með að verða fyrsta Deildarliðið að tapa á Portman Road í aldarfjórðung.


Ipswich er með nokkra ágæta unga stráka á sínum snærum. Hutschinson eru meðal  dýrari leikmannakaupa félagsins en þessi fyrrum Chelseamaður var lánaður til Ipswich í fyrra, stóð sig vel og keyptur í kjölfarið. Lék sem vængmaður  og skoraði 10 mörk og átti 6 stoðsendingar. Hann hefur ekki verið eins atkvæðamikill í markaskorun í Deildinni með eitt mark og eina stoðsendingu. Liam Delap er ungur og líkamlega stór og sterkur framherji úr Man City akademíunni (fyrst í Derby acad.) sem kom til liðsins í sumar. Hann hefur skorað eða komið að yfir 40% allra marka Ipswich í Deildinni sem komið er. Hann er sonur Rory Delap sem var frægur fyrir sín “þrumuköst” fyrir Stoke og öllur lið. Delap eldri er talinn eiga 35 stoðsendingar að marki með innkasti. Mörg Deildarlið eru á eftir unga Delap, þar á meðal Chelsea, enda byggður eins og enskur bolabítur en þrátt fyrir það þokkalega teknískur. Eins kom hinn ákafi framherji Szmodics frá Blackburn. Hann er með ágætis markanef (og fót).  Hjá liðinu er einnig Kalvin Philips (í láni frá Man City) þannig að liðið er þokkalega mannað. Frá Burnley kom tveggja metra sláninn frá Kosovo í markið. Hann sýndi  ítrekað af sér glæfraskap í markteignum í fyrra og hefur greinilegt ekkert lært í ár. Þar liggur veikleiki sem Chelsea ætti að nýta sér því Ipswich er ekkert að hætta því allt í einu að leika út frá marki. A. Muric er ekki sá nettasti með boltann af markmönnum Deildarinnar og er búinn að kosta Ipswich (eins og Burnley) nokkur mörk nú þegar með sínum flækjufótum og fífldirfskusendingum. Hann lét þó af þessum sið á móti Arsenal og reyndi ekkert stutt spil. Og varði eins og berserkur. Vörnin hjá Ipswich er alveg á vetur setjandi. Fremsta ber að telja O'Shea og Greaves en með þeim eru líkamlega sterkir strákar sem eru vanir harkinu og því engar veimiltítur. 


Ipswich lá alveg til baka í fyrri hálfleik gegn Arsenal á Emirates og reyndu skyndisóknir sem sterkir varnarmenn Arsenal börðu strax niður en snemma í síðari hálfleik þá náði Ipswich þokkalegum leikkafla í nokkrar mínútur þar sem þér héldu boltanum vel og sköpuði sér marktækifæri. En þótt Arsenal væri að leika á heimavelli við næstneðsta lið Deildarinnar þá var að áberandi að ALLIR leikmenn liðsins komu sér “aftur fyrir” boltann þegar Ipswich sótti. Eitthvað sem leikmenn Chelsea geta tekið sér til fyrirmyndar frá Norður-Lundúnarlíðinu. Og ólíkt Chelsea þá hékk Arsenal á 1-0 roðinu út leikinn. 


Ég held að Maresca muni stilla upp nákvæmlega sama liði og á móti Fulham og gera nákvæmlega sömu innáskiptinguna og hann hefur gert í undanförnum Deildarleikjum. Nkunku inn fyrir Jackson á 70.-80. mínútu. Felix og Madueke virðast ekki eiga upp á pallborðið hjá Maresca. James og Lavia eru meiddir en eru leikmenn sem breytt geta leik fyrir Chelsea. Dewsbury-Hall, Casadei, Veiga og Chukwuemeka er greinilega ekki treyst frekar en ungliðahreyfingunni. Í leiknum á móti Fulham var Gusto greinilega búinn að keyra sig út með tilgangslitlum hlaupum. Af hverju ekki að setja Josh inn á fyrir Gusto? Josh kann allavega að verjast og hangir í stöðunni. Chelsea er að breytast úr skemmtilegu margbreytilegu sóknarliði í fyrirsjáanlegt dútlið snjallra einstaklinga og varnar sem haldin er sjálfseyðingarhvöt. 


Liðið: Sanchez, Gusto, Tosin, Colwill, Cucurella, Enzo, Caceido, Sancho, Palmer, Neto og Jackson.

 

Leikurinn fer 2-1 fyrir Chelsea. Það er ég vona að við náum að skora tvö mörk en auðvitað lekum við einu marki. Markaskorarar Palmer og Cucurella, sem virðist graðari í teignum en stormsenterinn okkar Jackson.


En svona á kátari nótunum. Gleðileg jól og farsælt komandi ár kæru félagar í kristi. Megi nýja árið færa okkur margar ánægjustundir á knattspyrnuvellinum, helst í formi ótal stiga og marka, sem okkar menn munu vonandi færa okkur með sigrum sínum og árangri!



Áfram Chelsea!


BOB


  

 

    


  


Comments


bottom of page