Keppni: FA Cup
Dag- og tímasetning: 25. janúar 2020 kl. 17:30
Leikvangur: KCOM Stadium
Hvar er leikurinn sýndur? Stöð 2 Sport, Bein Sport 2, BT Sport 1
Upphitun eftir: Sigurður Torfi Helgason
Chelsea
Ennþá heldur þetta blessaða lið okkar að valda manni svolitlum vonbrigðum. Chelsea gerði 2-2 jafntefli við erkifjendur okkar í Arsenal. Okkar menn komust yfir í leiknum með marki úr vítaspyrnu frá Jorginho. Mustafi varnarmaður Arsenal gaf boltann klaufalega til baka og Tammy Abraham komst inní sendinguna, á hæla hans var David Luiz, fyrrum leikmaður Chelsea. Luiz brýtur á Abraham innan teigs og þar sem hann var síðasti varnarmaður Arsenal liðsins fékk hann rautt spjald fyrir vikið. Eftir að verða manni fleiri og marki yfir myndi maður ætla að okkar menn ættu að sigla heim þægilegum sigri. Annað kom á daginn, okkar menn virtust slaka á og náðu ekki að skapa sér mikið af færum. Það endaði síðan að Arsenal jafnaði metin á 63. mínútu þar sem Ngolo Kanté gerði sig sekan um afar sjaldséð mistök sem hinn ungi og efnilegi Brassi, Martinelli, nýtti sér og jafnaði metin 1-1. Það leit síðan út fyrir að Chelsea væri að tryggja sér sigur þegar fyrirliðinn Cesar "Dave" Azpilicueta kemur Chelsea yfir eftir fast leikatriði. Tammy Abraham var haltrandi um völlinn að reyna að verjast eitthvað á með varamaðurinn Michy Batshuayi var bara hangandi upp á topp. Það endaði með því að Abraham er sólaður auðveldlega af Hector Bellerin sem leggur hann smekklega í fjærhornið með vinstri löppinni. Lokatölur urðu því 2-2. Í aðdraðandanum í seinna jöfnunarmarki Arsenal er leiðtogaleysið í liði Chelsea algjört. Terry hefði skipað Abraham að hunskast til að liggja áfram í grasinu og fá aðhlynningu og þar með drepa tempóið í leiknum. Emerson hefði líka betur hlustað á Mount sem öskraði úr sér líf og lungu á þann fyrrnefnda að lúðra boltanum út af.
Gífurlega svekkjandi þetta!
Hvað varðar þennan Hull leik á morgun þá myndi ég ætla að liðið verði blandað af minni spámönnum og byrjunarliðsmönnum. Willy mun koma í markið geri ég ráð fyrir - örugglega margir sem hoppa hæð sína yfir því. Tomori, Reece James, Zouma og Marcos Alonso munu allir koma inn í varnarlínuna. Ég held að hann gefi Kanté pásu í þessum leik og að Barkley komin inn í staðinn. Svo upp á topp verða það Pedro, Mount og Batshuayi.
Hull
Þetta Hull lið siglir lignan sjó í 12 sæti í Championship deildinni. Þjáfari liðsins er Grant McCann. Undirritaður kannast voða mikið við það nafn. Ábyggilega þegar maður hefur verið að leika sér í Football Manager í neðri deildunum í gamla daga. Helsti markaskorari Hull er Jarrod Bowen, en hann er strákur sem er búinn að vera hjá þeim síðan 2014. Hann er búinn að skora í heildina 17 mörk á leiktíðinni í heildina og því er þetta leikmaður sem við verðum að passa okkur á. Hull liðið er búið að tapa tveimur leikjum í röð í deildinni, og báðir hafa þeir tapast 1-0. Við munum vona að þessi markaþurrð verði enn til staðar á morgun.
Spáin
Allt getur skéð í bikarnum og allt getur skéð hjá þessu Chelsea liði. Gegn minni spámönnum hefur liðið verið orkulaust upp á síðkastið. Ég vona að þessar breytingar á liðinu hafi einhver áhrif á það. En ég hugsa að við náum ekki að halda hreinu frekar en venjulega. Lokatölur 1-2. Mörk frá Marcos Alonso og Mount.
Comments