Heimsókn til Spurs
- Jóhann Már Helgason

- 4 days ago
- 4 min read
Keppni: Úrvalsdeildin, 10. umferð
Tími, dagsetning: Laugardagur 1. nóvember kl:17:30
Leikvangur: Tottenham Hotspur Stadium, Lundúnir
Dómari: Jarred Gillett
Hvar sýndur: Sýn Sport
Upphitun eftir: Bjarna Reynisson

Jæja góðir hálsar, okkar ástkæru bláklæddu garpar snúa aftur í Úrvalsdeildinni á morgunn eftir vægast sagt skrautlega viku. Frá því að tapa gegn Sunderland á Brúnni yfir í heimsókn til Wolverhampton í Carabao bikar leik þar sem allt var í blóma, stefndi í þægilegan sigur. En eins og Chelsea á það til að gera þá hleyptum við óþægilega mikilli spennu í lokamínúturnar og það þurfti glæsimark frá Jamie nokkrum Gittens til að tryggja að við færum ekki í vítaspyrnukeppni. Framundan er heimsókn á Tottenham Hotspur Stadium en Spursararnir eru á ágætis róli í ensku Úrvalsdeildinni en þeir sitja í þriðja sæti deildarinnar, með 17 stig. Þess má til gamans geta að það er akkúrat sætið sem að við Chelsea menn sætum í ef að leikurinn gegn Sunderland hefði unnist. Það er engin ást á milli þessara tveggja klúbba, einungis rígur og banter. Mér skilst að John Terry hafi fengið boð á leikinn frá stjórn Tottenham, þeir báðu hann að mæta klukkan 17:29 svo að hann gæti séð verðlaunagripa skápinn áður en að hann færi í sætið sitt. Að öllu gríni slepptu þá er þetta Tottenham lið töluvert betur sett taktísklega séð síðan að Thomas Frank tók við. Persónulega mun ég sakna háu línunnar sem Ange Postecoglou bauð uppá og ég veit að snöggir menn eins og Pedro Neto og Garnacho hugsa slíkt hið sama.
Það er hægt að matreiða tölfræðina á marga vegu. Bjartsýn manneskja myndi staðhæfa að fjórir af síðustu fimm leikjum í öllum keppnum hafa unnist. Væri maður meira svartsýnn myndi maður segja að þrír af síðustu fimm í Úrvalsdeildinni hafa tapast. “Maresca er bara að standa sig þrusu vel, tveir bikarar og topp fjögur sæti í deildinni á síðasta tímabili” myndi jákvæði maðurinn segja. En ef við berum hann saman við Lampard þá hefur Maresca safnað 83 stigum í 47 leikjum en Lampard var með 84 stig eftir sama leikjafjölda. Ég ætla að velja að vera fremur bjartsýnn og jákvæður. Lampard var með allt annað lið en Maresca er að vinna með. Það verður samt þreytt að fleygja fram afsökuninni að Chelsea er með að meðaltali yngsta byrjunarliðið í deildinni og þurfi tíma. Liðið þarf að levella upp í sameiningu en það er að reynast erfitt þegar meiðsli setja ítrekar strik í reikninginn.

Tveir hlutir í leik okkar manna sitja gífurlega í mér. Sex rauð spjöld í síðustu níu leikjum, þetta er bara of mikið. Þau hafa verið mis gáfuleg og mis afdrifarík. Rauða spjaldið á Sanchez gegn Man Utd var líklega mest pirrandi, því það var leikur sem að við hefðum átt að vinna, og rauða spjaldið á Liam Delap í síðasta leik var það heimskulegasta. Enda hlakkaði í mörgum stuðningsmönnum Chelsea að fá Delap til baka til að létta á Joao Pedro. Samt sem áður þá hafa fjórir af þessum sex leikjum unnist en þetta er agaleysi sem má ekki viðgangast. Svo eru það löngu innköstin. Þetta er algjör akkilesar hæll hjá liðinu eins og er og þarfnast tafarlausra úrbóta. Við höfum fengið á okkur afdrifarík mörk úr löngum innköstum og lélegum varnarleik í okkar eigin markteig. Töpuð stig á móti Brentford, Sunderland og gerðum okkur erfitt fyrir gegn Wolves. Það eru ákveðin tímamót að eiga sér stað á þessari leiktíð því að fjölmörg lið eru farin að leggja upp með beinskeyttari herkænsku, löng innköst, langar sendingar fram og svo framvegis. Meðfylgjandi tafla sýnir hvernig leikstíll úrvalsdeilarliðanna hefur þróast á milli tímabila. Direct Speed Upfield er tölfræðin bakvið hversu hratt boltinn berst upp völlinn og Passes Per Sequence heldur yfir hversu margar sendingar lið tekur í sóknaraðgerðum. Þ.e.a.s. frá því að uppbygging sóknar hefst og endar þegar boltinn fer úr leik, þegar andstæðingurinn nær boltanum eða með skoti á marki. Punkturinn táknar leikstíl liðsins á síðasta tímabili og lógóið er staðsett miðað við gögn frá þessu tímabili.

Hér má sjá að lærisveinninn og lærifaðirinn, Maresca og Guardiola, leggja báðir upp með margar sendingar í uppbyggingunni og fara hægt fram völlinn. Mér finnst þetta ákveðið áhyggjuefni því að vængmennirnir okkar eru það hraðir og tæknilega hæfileikaríkir að ég held að þeir gætu valdið töluverðum usla ef að boltinn bærist hreinlega hraðar upp til þeirra. Ef að fólk hefur áhuga á að kafa dýpra ofan í þessar pælingar þá er þetta helvíti flott grein: Beinskeyttari úrvalsdeild - löng innköst o.fl.
Meiðslalistinn okkar er skipaður af nokkrum lykilmönnum, Cole Palmer og Levi Colwill en þá er Badiashile og Essugo meiddir þar til í desember. Listinn hjá Spurs er töluvert lengri en þar má helst nefna Solanke, Romero, Bissouma og James Maddison. Ég myndi byrja Sanchez í markinu, því ef að hlutverk Jörgensen er að veita Sanchez harða samkeppni þá þarf hann virkilega að bæta sitt ráð og sinn leik. Reece James, bestur í heimi í sinni stöðu, á sínum stað í hægri bakverði, miðvarðapar skipað af Fofana og Chalobah, Cucurella á sínum stað vinstra meginn. Á miðsvæðinu okkar ástsælu Caicedo og Enzo. Jamie Gittens fær tækifæri eftir frábæra frammistöðu í Carabao, João Pedro í tíunni, Pedro Neto á hægri kantinum og Marc Guiu í fremstu víglínu.
Helst væri ég til í að sjá hreint mark og sannfærandi sigur en Spurs eru annar djöfull að eiga við eftir komu stjórans Thomas Frank og því held ég að þetta verði ekki auðvelt. Tölfræðin er þó með okkar mönnum í liði, höfum unnið Spurs í síðustu fjórum viðureignum, við höfum skorað 15 mörk í síðustu fimm leikjum og frammistöðurnar á útivöllum hafa verið góðar á leiktíðinni. Því spái ég okkar mönnum þremur stigum með 3 - 1 sigri. Mörkin koma frá Gittens, Guiu og Estevao af bekknum. Það væri óþolandi týpískt ef að Xavi Simons myndi skora fyrir Spurs en það er akkúrat það sem ég held að gerist.
Takk fyrir lesturinn, áfram Chelsea!
P.s. munið svo að skrá ykkur í Chelsea klúbbinn. Nei, í alvöru. Það marg borgar sig. Nánari upplýsingar á www.chelsea.is





Comments