Heimaleikur gegn Wolves
- Jóhann Már Helgason

- Nov 7
- 10 min read
Keppni: Úrvalsdeildin, 11. umferð
Tími, dagsetning: Laugardagur 8. nóvember kl:20:00
Leikvangur: Stamford Bridge, Lundúnir
Dómari: Andrew Kitchen
Hvar sýndur: Sýn Sport
Upphitun eftir: Björgvin Óskar Bjarnason

Kæra Chelsea-fólk. Ég sat hér í stofunni minni á Íslandi, kaffibolli í annarri og fjarstýringin í hinni, og horfði á okkar menn fara 5.000 kílómetra austur í Azerbaídsjan til að mæta Qarabag í Baku. Þetta var eins og að senda lambið í sláturhúsið – en lambið kom lifandi út, þó með blóðugt nef og tvö týnd stig. 2-2 úrslit, sem finnst mér eins og tap. Enzo Maresca róterar liðinu eins og hann sé að prófa nýjan kokteil, og niðurstaðan? Sprengja sem springur í andlitinu á okkur.
Byrjum á því góða, því það er alltaf eitthvað jákvætt ef maður leitar vel. Estêvão Willian, þessi brasilíski töframaður skoraði á 16. mínútu með skoti á nærstöngina. En þá komu mistökin, eins og venjulega þegar við spilum með varnarmenn sem virðast vera að læra að ganga. Jorrel Hato, sá mæti hollenski piltur, missti boltann við átök gegn Camilo Duran sem skaut í stöngina og Leandro Andrade – sem var einn besti maður Qarabag afgreiddi boltann viðstöðulaust á fjær. Hato var svo 10 mínútum síðar í aðalhlutverki þegar hann fékk bolta í höndina innan teigs við að reyna stöðva fyrirgjöf. Marko Jankovic steig á punktinn og sendi Sánchez í vitlaust horn. 2-1 staðan í hálfleik fyrir Azerum og stemmningin eftir því. Maresca gat ekki róterað Moises Caicedo sökum þess Romeo Lavia meiddist í læri á 5. mínútu. Það aftraði honum ekki til að gera róttækar breytingar í hálfleik, þegar hann skiptir George, Gittens og Andrey Santos í hálfleik út fyrir Garnacho, Enzo og Liam Delap. Það lifnaði yfir leiknum og sóknarleikurinn batnaði, með þeim afleiðingum að Garnacho skoraði eftir ágæta skyndisókn. Qarabag liðið er metið á einhverjar tugi milljón punda, en Chelsea á einhverja milljarða. En þeir spiluðu eins og menn sem höfðu engu að tapa – hratt, beinskeytt, með Andrade og Duran að angra varnarlínuna okkar eins og moskítóflugur í sumarhita. En allt kom fyrir ekki og jafntefli varð niðurstaðan. Þetta skrifast að miklu leyti á Maresca varðandi uppstillingu á byrjunarliði. Við höfum nú sjö stig eftir fjóra leiki, jöfn með Qarabag, og Barcelona bíður næst heima.
Agaleysi eða heimska?
Er ekki nóg að Chelsea þurfi að glíma við meiðslavandræði lykilleikmanna, alvarlegan skort á gæðamiðverði (mögulega miðvörðum) og allavega varamarkmanni. Heldur virðist algjört agaleysi ríkja innan liðsins þegar það leikur í Chelseabúningum. Agaleysi sem nú þegar hefur kostað okkur allmörg stig og mun kosta kosta okkur fleiri þegar fram í sækir þegar menn þurfa að taka út refsingu vegna gulra spjalda. Svo ég tali nú ekki um þau rauðu.
Á rúmlega mánuði (20. sept til 29. okt) hefur Chelsea fengið SEX rauð spjöld og alls ef með er talinn brottrekstur Maresca sjálfs í Liverpoolleiknum. Sjö alls á þessu tímabili ef talið er spjald Jackson í CWC sem var helsta ástæðan fyrir því að framherjinn var látinn fara. Frá því að BlueCo tók yfir félagið hefur agaleysið verið allsráðandi hjá Chelsea og leikmenn hafa safnað spjöldum af slíkum krafti að þeir toppa spjaldasyndatöfluna:
Tæknileg brot: 89 ( það hæsta í Úrvalsdeildinni)
Gróf brot: 89 (númer tvö, Crystal Palace efst)
Mótmæli: 67 (efst)
Tímasóun: 38 (númer tvö, Aston Villa efst)
Dýfur: 7 (efst)
Fagn úr hófi: 4 (?)
Aldrei hefur agaleysið eins slæmt en undir „stjórn“ Maresca en hann hefur dregið fjöður yfir agabrot sinna manna (Gusto gegn Forest var svo „ákafur“ að hann vildi ekki láta Forest skora. Staðan var að vísu 3-0 og leiknum að ljúka) og afsakað þau. Hann að vísu beit nærri hausinn af Delap fyrir brottreksturinn gegn Wolves á dögunum og ég segi bara. Batnandi mönnum er best að lifa. En spjaldasöfnum leikmanna hefur ekki verið eins mikil hjá neinum stjóra Chelsea á BlueCo tímanum þ.e. frá 2022-2023 tímabilinu.
Enzo Maresca, rauð spjöld.
Nov 28, 2024 Cesare Casadei Heidenheim W2-0
Dec 15, 2024 Marc Cucurella Brentford W2-1
May 11, 2025 Nicolas Jackson Newcastle L2-0
Jun 20, 2025 Nicolas Jackson Flamengo (n) L3-1
Sep 20, 2025 Robert Sanchez Man Utd (a) L2-1
Sep 27, 2025 Trevoh Chalobah Brighton (h) L3-1
Sep 30, 2025 Joao Pedro Benfica (h) W2-1
Oct 04, 2025 Enzo Maresca Liverpool (h) W2-1
Oct 18, 2025 Malo Gusto Nottingham Forest (a) W3-0
Oct 29, 2025 Liam Delap Wolves (a) W4-3
Leikir 77 Rautt eða 10 leikir per rautt: 7.7
Tuchel, Potter, Lampard, Pochettino og Enzo Maresca rauð spjöld samtals.
Heildarfjöldi leikja: 178
Rauð spjöld: 18
Leikir per rautt spjald: 9.9
Fjöldi leikja „fyrir“ Maresca: 101
Rauð spjöld: 8
Leikir per rautt spjald: 12.6
Og skelfilegasta staðreyndin við þetta rótgróna agaleysi er að þriðjungur gulu spjaldanna (113 gul spjöld af 301) hefur leikmaður Chelsea fengið á síðustu 15 mínútum leiksins. Við erum einnig að tala um vel yfir 100 spjöld fyrir mótmæli og tímasóun. Maresca verður að taka á þessu agaleysi og virkja til þess „reyndari“ leikmenn liðsins og fyrirliða. Annars er hætta á að dómarar taki sér skotleyfi á þessa ríku óknyttastráka úr Vestur-London. Og fleiri rauð spjöld fylgi.

Wolves – Chelsea í Carabao cup.

Chelsea stillti upp mjög ungu liði (meðalaldur 21 ár) þar sem burðarásar liðsins fengu kærkomið frí og hvíld fyrir átökin við Tottenham nokkrum dögum seinna. Wolves hvíldi einnig nokkra aðalmenn byrjunarliðinu og lék hefðbundið 4-1-4-1. Okkar unga Chelsea lið hafði tögl og hagldir frá fyrstu mínútu og sýndu oft á tíðum góðan samleik og árangursríkan fótbolta. Chelsea skoraði þrjú mörk í fyrri hálfleik og voru þau öll vel unnin, sérstaklega mark Estevao. En okkar ungu leikmenn stóðu sig flestir frábærlega með Gittens og Santos fremsta meðal jafningja. Þó fannst mér Buonanotte mjög mistækur og síðan er Jörgensen „markmaður“ alveg heill kapítuli fyrir sig. Þessir ungu strákar pressuðu hátt og kom t.d. þriðja markið eftir mikla pressu. Í seinni hálfleik skipti Pereira þjálfari miðjumönnunum Munetsi og Krejzi inn á og fór eiginlega í 5-3-2 eða frekar 5-4-1. Hwang og Arokadare fengu skotleyfi að tudda okkar bæði miðjumenn og varnarmenn með góðum árangri. Einnig losnaði um báða bakverðina, en vinstri bakvörðinn Wolfe átti eftir að verða okkur skeinuhættur í leiknum. Sem gerði það að verkum að okkar yfirmönnum á miðjunni hvarf eins og dögg fyrir sólu. En fram að þeim tíma höfðu unglingarnir sýnt og sannað hversu efnilegir þeir eru. Og markatala var 3-0 í hálfleik.
En það var ekki allt dans á rósum hjá liðinu. Bæði Tosin og Josh réðu ekkert við Arokadare hvorki á jörðinni hvað þá í loftinu og þar varð eiginlega angistarástand þegar Wolves sendi háa bolta inn í okkar teig því markmaðurinn bak við miðverðina var svo óöruggur og mistækur að grípa einfalda bolta að það hálfa væri nóg. Eins og hann spilaði með mokkalúffur en ekki markmannsvettlinga.

Í byrjun seinni hálfleiks snérist dæmið við með taktískum breytingum Pereira og Wolves eiginlega yfirtók miðjuna og þeirra fremstu menn pressuðu á „boltamanninn okkar“ frá marki sem venjulega var Lavia > Buonanotte. En með því að setja pressu á þann síðarnefnda sem á ending klúðraði síðan baksendingu komust þeir inn í sendinguna og skora ódýrt mark á Jörgensen og komust þannig inn í leikinn.

Og úr varð einhver aumasti seinni hálfleikur sem ég hef séð lengi (hef þó ágætlega leikinn gegn Lincoln City í huga). Maresca sá í hvað stefndi og skipti Enzo, Delap og Cucurella inn á. Þegar sýnt var að Estevao réð ekki við sókndjarfan Wolfe sem náði að skora með hjálp Agbadou (miðjumanns/miðvarðar) sem er álíka boli og Arokodare, þá kom Neto inn á í stað unga Brassans til að hafa hemil á Norsaranum.

Hófust nú skrítnustu 16 mínútur sem ég hef sé lengi. Chelsea með gjörunnin leik búinn að tapa niður forskotinu í 3-2 gegn einhverju lélegasta liði deildarinnar og það virtist allt í hers höndum á vellinum. Innbyrðis líkamleg átök á milli liða meðan Wolves notaði innköst, aukaspyrnur og horn til að þvinga marki með sína góðu og líkamlega sterku skallamenn sem hreinlega söltuðu okkar menn á þessu sviði. Ekki bætti úr að markmaðurinn okkar og miðverðirnir báðir pissuðu niður og virkuðu vonlitlir þegar þeir fóru upp í návígi við leikmenn Wolves. Þetta var eins og að mæta Stoke á sterum og Rory „gamla“ Delap andsetinn í innköstum.
Síðan voru aðrir sem hreinlega misstu sig í innbyrðis baráttunni við „sinn mann“. Agbadou hafði bolað Delap af boltanum í skallaeinvígi í okkar teig í aðdraganda marksins númer tvö þannig að Wolfe hafði frítt spil í skot sem Jörgensen varði auðvitað ekki. Þetta greinilega sat í Delap því hann tók Jackson-geðveikina nokkrum mínútum seinna því hann fékk 2 gul spjöld á sömu mínútunni en það seinna var fyrir glórulaust brot á Agbadou sem hefði verðskuldað beint rautt. Nú var Caicedo settur inn á til að forða frekari skaða en djöflagangurinn hélt áfram með okkar menn sem „minni máttar“ í þessum átökum.
Gittens hafði farið mikinn í fyrri hálfleik þegar bæði lið reyndu að spila knattspyrnu, en þegar skærurnar hófust í seinni hálfleik var eins og grasið hefði gleypt hann. Á 89. mínútu tók Wolves innkast til móts við eigin vítateig sem Hato skallaði til baka í átt að vítateigshorninu. Gittens áttaði sig og elti og tók síðan viðstöðulausa þrusu í stöngina og inn. Fallegasta mark leiksins á lokasekúndu hans. Maður hélt að þetta mark gæfi borð fyrir báru með stöðuna 4-2 því aðeins uppbótartíminn var eftir. Því var öðru nær. Norðmaðurinn ætlaði greinilega að spila Haaland út úr landsliðinu því hann skoraði aftur með aðstoð Agbadou þannig að Delap hefur ekki dældað þann kall mikið í níðingsbrotinu. Og staðan orðin 4-3 og áframhaldandi slagsmál með tilheyrandi gulum spjöldum (mest okkar menn) og lítið eftir af naganlegum nöglum á báðum höndum.
Til allra hamingju var uppbótartíminn aðeins sex mínútur þannig að Chelsea eða frekar Gittens bjargaði sínu liði frá því að missa unnin leik í næstum vítakeppni. Ég næstum viss um að handalausi markmaðurinn okkar hefði ekki varið tuðru í þeim samskiptum.
Tottenham – Chelsea
Ég bar vissan kvíðboga fyrir leiknum gegn Tottenham þrátt fyrir að sögulegar staðreyndir segi það óþarfa. En ég ber virðingu fyrir Thomas Frank sem stjóra og hvað hann áorkaði hjá Brentford. Svo virðist sem vissir leikmenn Tottenham beri ekki sömu virðingu fyrir honum og ég (sem og fleiri). En það verður ekkert tekið af Maresca. Hann sýndi enn og aftur að hann er vel undirbúinn undir leiki við „stóru“ liðin (afsakið félagar að kalla Tottenham stórlið).

Mér fannst leikurinn eiginlega vinnast á miðjunni þar sem Caicedo, James og Enzo fóru hamförum. Í staðinn fyrir hefðbundið bakvarðar/miðjublending var Cucurella látinn gæta þeirra hættulegasta sóknarmanns, Kudus, meðan Gusto þjónaði sem sóknarbakvörður. Og við sáum nýja útgáfu af „kassanum. Það var hrein unun að sjá hvernig þessi fjórir unnu hver fyrir annan í sókn og vörn. Ég hef aldrei séð James eiga eins frábæran leik fyrir liðið þar sem hann skipti úr varnarmiðjumanni í sóknarmiðjumann og í næstu andrá í hægri bakvörðinn eða miðvörðinn. Fyrir utan að vera eins og landafjandi um allan völlin að kæfa elda í fæðingu áður en upp úr sauð því Jarred dómari (VARdómarinn Craig Pawson hafði tækifæri að skoða tvö brot Bentancur, annað víti þegar hann tók Fofana á groddalegu koshi guruma og hitt beint rautt að mínu mati þegar hann tæklaði James fyrir ofan ökkla) dæmir ekkert eftir reglum í þeim tilgangi að „láta leikinn fljóta“. Það var ekki Jarred að þakka að menn slösuðust ekki alvarlega, en hann gerði allt til þess að breyta leiknum í slagsmál. Fyrir utan þá pressu sem þessir fjórir settu á miðjumenn Tottenham þá notfærði Maresca sér helsta veikleika Tottenham í að leika frá marki. Að dekka alla stíft nema Danso þannig að sókn Tottenham hófst yfirleitt hjá honum. Og hann er ekki mesta tæknitröllið hjá Tottenham, þannig að það var óttalegt basl á þeim að koma boltanum fram. Þar tóku við okkar miðjumenn og gjörsamlega lokuðu á allar tilraunir Tottenham að búa til marktækifæri. Aumingja Frank sagðist að leik loknum aldrei hafa stjórnað liði sem skapaði sér jafn fá marktækifæri í einum leik. Í heildina átti Tottenham þrjú skot að marki og þar af eitt á rammann og xG = 0.05
En tilgangur Danso á leikvellinum dvínaði til muna þegar Maresca kom með mótspil við vanhæfi okkar að verjast löngum innköstum sem virðast vera að komast í tísku hjá jafnvel betri liðunum. Danso er KASTARI Tottenham en sem mótvægi við löngum köstum inn í teig þá setti Maresca þrjá fljótustu leikmenn okkar fram á miðlínu þannig að eitt spark eða markmannskast út úr teignum þýðir mögulega skyndisókn Chelsea. Og þetta virkaði því Tottenham þurfti að puðra varnarmönnum í að dekka þessa leikmenn. Eins prófaði Maresca að láta Chelsea verjast aukaspyrnum með beinni varnarlínu og Sanchez sem sweeper. Hvort Maresca mun nota þessa taktík á móti Wolves verður að koma í ljós.
Ég verð að hrósa öllu liðinu fyrir AGAÐAN og góðan leik gegn Tottenham. Caicedo er hreinlega ekki mennskur og James var þvílíkt frábær í öllum aðgerðum auk þess að peppa menn upp og lægja öldurnar (þegar skrýtnir dómar birtust) og virkilega sýna leiðtogahæfni sína. Sanchez er að verða öruggari í sínum aðgerðum og jafnvel spyrnur hafa batnað hjá honum. Fofana virkaði nokkuð öflugur og vonandi helst hann heill. Chalobah er enginn AÐALMIÐVÖRÐUR, en hann er góður miðvöður þegar einhver tekur hitt að sér. Cucurella hafði Kudus í vasanum. Gusto virkar flott í þessum sendisveinaverkefnum sem eru lögð fyrir hann í ögurleikjum. Enzo er ótrúlega duglegur fyrir liðið og naskur að skynja hættusvæði bæði í sókn og vörn. Eins fannst mér öll sóknarlínan (varamenn meðtaldir) vinna vel, en guð minn góður hvað maður hefði þegið fleiri mörk (allavega fjögur) úr þessum algjöru dauðafærum hjá Gittens og Pedro.
Chelsealiðið er skrítin skepna. Eina stundina leikur liðið skipulagðan og fallegan fótbolta og er næstum óvinnandi. En í næsta leik er eins og allt liðið hafi farið á þriggja daga fyllerí og kastar fyrir róða öllu leikskipulagi, baráttu og mjög oft skynsemi. Chelsea er núna algert jó-jó lið sem sveiflast milli þess að vera mjög gott eða hreinlega hörmulegt. Ekki er hægt að gera kröfur um alvarlega baráttu um Englandsmeistaratitil fyrr en það lagast. En þegar Maresca hefur jafnað þessa óróasveiflu, skerpt verulega á agamálum og vakið upp baráttuhug í hverjum leik og allan leikinn, er hægt að tala um meiri kröfur um þann titil. En fyrst þurfum við að gera Stamford Bridge að óvinnandi vígi að nýju. Það er ekki boðlegt að „algerir minnimáttar“ komi á Brúnna, leggist í vörn og fari hlakkandi burtu með þrjú stig. Þessi lágblokkarvanhæfni okkar manna er ekki bara til vansa heldur til skammar og Maresca VERÐUR að leysa það vandamál fyrr en seinna.
Chelsea – Wolves.
Ég geri ráð fyrir að Maresca stilli upp sterku liði gegn Wolves þótt þeir séu jafnlélegasta liðið í Deildinni. Passa þarf upp á að ofgera ekki James og Fofana, en við eigum nógu góðan mannskap í þessa tvo leiki þótt stutt sé á milli.
Lið: Sanchez, Acheampong, Fofana, Chalobah, Cucurella, Santos, Caisedo, Gittens/Garnacho, Pedro, Delap, Estevao/Neto.
Lið Wolves verður eins og stillt var upp í seinni hálfleik nema Perreira er ekki lengur stjóri og því ekki vitað hver tekur við (skrifað 4.nóv.) en oft er erfiðara að leika á móti liðum eftir að stjórinn hefur verið rekinn. Einnig fékk Agbadou reisupassann á móti Fulham þannig að hann pirrar ekki Delap í leiknum þ.e. ef Delap leikur. Hvernig fer leikurinn? Vonandi vel sem þýðir að Chelsea vinnur og enginn okkar manna meiðist.
Við minnum svo lesendur að skrá sig í Chelsea klúbbinn. Það margborgar sig ef þið hafið í hyggju að fara á leik með Chelsea. Allar upplýsingar á www.chelsea.is
Ef þið eruð í Reykjavík þá verður Keiluhöllin með allt til alls til að fylgjast með leikjum í enska boltanum. Prýðilegt til þess að lyfta sér aðeins upp yfir leiknum!






Comments