Keppni: Úrvalsdeildin
Tími, dagsetning: 10. nóvember kl:16:30
Leikvangur: Stamford Bridge, London
Dómari: Michael Oliver
Hvar sýndur: Síminn Sport
Upphitun eftir: BFR - Bjarni Reynisson
Bæng, bæng, bæng, bæng, bæng, bææææng (Mudryk), bæng, bæng! Átta mörk, takk fyrir pent. “B-liðið” með frábæra frammistöðu í Sambandsdeildinni og maður brosir allan hringinn. Smá vonbrigði að ná ekki 10 mörkum og hefði verið virkilega gaman að sjá hinn unga Rak-Sakiy skora í sinni fyrstu innkomu með aðalliðinu. Maresca stillti upp liði með mikinn sóknarþunga í 4-1-4-1 kerfi og það hentaði Nkunku og Felix virkilega vel sem spiluðu fyrir framan Enzo. Það var gott að sjá að stjóri var sammála okkur stuðningsmönnunum að Dewsbury-Hall sé ekki rétti maðurinn fyrir okkur úti á hægri vængnum og því fékk Tyrique George sitt fyrsta tækifæri í byrjunarliðinu. Við fengum að sjá Argentínu Enzo sem var allt í öllu í fyrri hálfleik með þrjár stoðsendingar. Finnst hann vera að svara gagnrýninni á sig og taka leikinn sinn upp um gír, aðdáunarverð viðbrögð við að hafa misst sætið sitt í aðalliðinu . Með svona sannfærandi frammistöðu þá getur maður ekki annað en velt fyrir sér hvort að þessir menn í framlínunni gætu ekki hjálpað okkur í Úrvalsdeildinni. Bara ef að það væri einhver leið að sjá hvernig “A-liðið” myndi spila á móti sömu andstæðingum og skuggaliðið spilar á móti. Þá gæti maður séð gæðin og getuna svart á hvítu. En ó, bíðum við! Það var raunin þegar við lékum tvo leiki í röð gegn Newcastle á dögunum. En eins og flestum sem að lesa þessa pistla er kunnugt um þá vannst leikurinn í Úrvalsdeildinni gegn þeim 2-1, en sá síðari gegn þeim í Deildarbikarnum tapaðist 2-0. Skuggaliðinu til varnar þá náði Maresca líklega ekki taktíkinni réttri þann daginn, því að það býr hellingur í þeim.
Okkar menn í “A-liðinu” heimsóttu Old Trafford síðustu helgi í leik sem var heilt yfir frekar bragðdaufur að undanskyldum nokkrum rispum af gæðum. Madueke átti skalla í stöngina í fyrri hálfleik en svo dró ekki til tíðinda fyrr en klaufinn okkar Robert Sanchez braut óþarflega á Hojlund inn í vítateig og gaf þeim víti. Bruno Fernandes stígur á punktinn og skorar. Sem betur fer spilar fyrir Chelsea F.C. Moises nokkur Caicedo sem að fjórum mínútum seinna hamrar boltann í hornið niður við stöng og tryggir að við förum ekki tómhentir heim. Stig á kjaft eins og raunin hefur verið í átta af síðustu 13 viðureignum okkar við Manchester United. Þess má einnig til gamans geta að þessi viðureign er sú viðureign í deildinni sem hefur oftast endað í jafntefli, eða 27 sinnum.
En nóg um fortíðina og liðna leiki því á sunnudaginn kemur er annar dýrðar dagur undir sólinni á Stamford Bridge þegar erkifjendur okkar úr norður Lundúnum koma í heimsókn. Tími á að sanna að London er blá enn eina ferðina og þó að gengið gegn Arsenal hefur verið langt um gott upp á síðkastið (höfum sótt eitt stig gegn þeim úr síðustu sex viðureignum í deildinni) þá tala bikararnir sínu máli. Skytturnar voru ósigraðar eftir fyrstu sjö umferðirnar en hafa ekki unnið leik undanfarnar þrjár umferðir í úrvalsdeildinni (2L 1D). Þeir sitja í fimmta sæti með sama stigafjölda og við. Declan Rice virðist eiga eitthvað óuppgert við Chelsea því hann hyggst spila með brotna tá, einnig gæti verið ákveðinn meðbyr fyrir Arsenal að endurheimta Martin Ødegaard úr meiðslum. Á sama tíma bíðum við Chelsea stuðningsmenn eftir fréttum af íspinnanum okkar, Cole Palmer, en þetta er það sem Enzo Maresca hafði að segja um stöðuna á honum: “Þó að hann geti labbað og borðað kvöldmat þá þýðir það ekki að hann sé 100% heill.” Og “vonandi náum við að ná honum á eina æfingu, í það minnsta á laugardag, og svo tökum við ákvörðun.”
Patrice Evra sagði þetta best nú á dögunum. “Að horfa á Arsenal er eins og að horfa á Netflix, maður þarf alltaf að bíða eftir næsta seasoni.” Ég ætla að leyfa mér að vera brattur og segja að við vinnum leikinn 2-1 og dældum titilvonir Arsenal verulega á sama tíma og við tryggjum okkur áframhaldandi viðveru í meistaradeildarsæti þegar við förum inn í landsleikjahléið. Það má þó ekki vanmeta skytturnar, þeir eru á erfiðum kafla í tímabilinu sínu og líklega örvæntingafullir að komast aftur á sigurbraut. Þeir munu mæta hungraðir á Brúnna og við þurfum að sjá til þess að þeir fari svangir heim.
Ef að ég væri Maresca myndi ég byrja þessum 11.
Sanchez, James, Fofana, Colwill, Cucurella, Lavia, Caicedo, Palmer (ef hann er heill), Neto, Jackson og Madueke. Þurfum að vera þéttir og skynsamir varnarlega og halda Martinelli og Saka hljóðum. Myndi gefa Nkunku, Felix og Mudryk mínútur ef að framlínan finnur ekki markaskónna sína og einnig finnst mér Enzo verðskulda mínútur eftir frammistöðuna sína í vikunni.
Áfram Chelsea og KTBFFH!!
Við viljum svo minna fólk á að skrá sig í Chelsea klúbbinn á Íslandi, sérstaklega ef þið lesendur góðir hafið áhuga á að fara á leiki með Chelsea í vetur, þá er Chelsea klúbburinn besti milligönguliðurinn með að útvega miða. Allar nánari upplýsingar á www.chelsea.is
Comments