Keppni: Evrópska Sambandsdeildin
Tími, dagsetning: 28. nóvember kl: 17:45
Leikvangur: Voith-Arena, Heidenheim an der Brenz, Þýskalandi
Dómari: Serdar Gözübüyük (Holland)
Hvar sýndur: Stöð 2 Sport 5
Upphitun eftir: BOB - Björgvin Óskar Bjarnason
FC Heidenheim 1846 (Heidenheim = “heimar hinna heiðnu”) var stofnað árið 2007 þegar knattspyrnudeild félagsins var aðskilin frá móðurfélaginu Heidenheim Sportsbund (margar íþróttadeildir) sem stofnað var sem íþróttafélag árið 1846 eða fyrir 178 árum síðan. Lykilmaður Heidenheim SB og FC Heidenheim 1846 síðustu þrjá áratugina er heimamaðurinn Holger Sanwald en hann tók við stjórn knattspyrnudeildar Heidenheim SB árið 1994 og náði góðum árangri fljótlega með þýskum dugnaði. Enda titlaður "Abteilungsleiter/Geschäftsführer/Vorstandsvorsitzender” eða fyrirliði, straffískytta og senter í stjórnunarlegu tilliti. Ekki síst þegar kom að því að afla nýrra styrktaraðila, og síðast en ekki síst, stuðningssamning við bæjaryfirvöld Heidenheim (hluti af Baden-Wurttenberg) í Suður-Þýskalandi. Íbúafjöldi Heidenheim er um 50.000 manns.
Þótt fjárhagsgeta FC Heidenheim sé aðeins brotabrot af því fjármagni (ca. 5%) sem stærri félögin í Þýskalandi hafa yfir að ráða (sem flest hafa einn eða fáa styrktaraðila) þá stærir FC Heidenheim sig af því að vera með marga en “litla” styrktaraðila sem flestir eru staðbundnir í Heidenheim og nágrenni. Og leggja metnað sinn í að standa vel við bakið á sínu félagi. Verulegur örlagavaldur í velgengni félagsins er síðan annar heimamaður eða Frank Schmidt. Eftir atvinnumannaferil hjá Nurnberg og fleiri liðum endaði hann sinn leikmannaferil hjá heimafélaginu árið 2003 og lék því með Heidenheim SB þar FC Heidenheim 1846 var sett á laggirnar árið 2007, en þá tók hann við þjálfun félagsins og hefur verið þjálfari þess alla tíð síðan.
FC Heidenheim 1846 lék í svæðisdeild Baden-Wurttenbeg þar til árið 2009 er það komst í þriðju deild (3. Liga) en árið 2014 unnu þeir deildina og færðust upp í 2. Bundesliga þar sem þeir voru að dandalast í níu tímabil eða þar til þeir unnu þá deild einnig, og færðust þar af leiðandi upp í Bundesliga þar sem þeir hafa leikið í tvö síðustu tímabil. Á fyrra tímabilinu náðu þeir 8. sæti í Bundesliga sem er ástæðan fyrir því að Chelsea er að leika við þetta unga/gamla félag í Sambandsdeildinni þar sem þeir hafa unnið alla þrjá leiki sína og eru með sama stigafjölda og Chelsea. Eftir ellefu umferðir í Bundesliga situr Heidenheim í 15. sæti með sex tapaða leiki, tvo unna og þrjú jafntefli. Markatalan er 15 skoruð mörk og 20 fengin á sig sem segir að leikmenn Heidenheim kunni að verjast (nema í síðasta leik á móti Bayern Leverkusen þar sem þeir töpuðu 5-2) en síður duglegir að skora þó þeir hafi komist í 2-0 á móti B. Leverkusen.
En snúum okkur að Chelsea. Jafntefli við Manchester United (úti), Arsenal (heima), sigur gegn Leicester (úti) og þriðja sætið í Deildinni þegar nóvember er að ljúka. Ekki svo slæmt þegar aðeins eru um fjórir mánuðir síðan Maresca tók við hátt í 50 manna óskipulögðum leikmannahóp Chelsea og þurfti að byrja að hreinsa kjarnann frá hisminu. Þeirri vinnu er ekki lokið þannig að við getum átt von á að Maresca og Chelsea haldi áfram því verki sem hófst í sumar. Mögulega verða einhverjir leikmenn seldir eða lánaðir í janúarglugganum og eða næsta sumar. Sumir leikmenn falla hreinlega ekki inn í leikkerfi Maresca, sumir er skiljanlega óánægðir með of lítínn leiktíma meðan aðrir hafa hreinlega ekki staðið undir væntingum. Við erum að tala um Chilwell, Chukwuemeka, Guiu, Badiashile, Disasi,Dewsbury-Hall og jafnvel Nkunku og Enzo.
Helsta vandamál Chelsea er þó markmannsstaðan þrátt fyrir kaupæði á markmönnum undanfarin tvö ár. Sanchez getur varið ágætlega öðru hvoru en hann kostar okkur reglulega með markmannsmistökum sem á ekki að sjást hjá liði sem vill og ætlar keppa um titla. Sanchez er því miður efstur markmanna á lista yfir “klaufamörk” og slæleg vinnubrögð í teignum fyrir utan skelfilega fótavinnu og sendingar. Við sáum dæmi um það í síðast Deildarleik okkar gegn Arsenal. “Óheppni” Sanchez heldur áfram því hann fékk að spreyta sig seinni hálfleikinn í landsleik Spánar og Sviss. Hann náði ekki að loka markinu (né klobbanum) í mjög þröngum skotvinkli (líkt og í Arsenalleiknum) og Sviss jafnaði leikinn. Hann átti síðan eina bjánasendinguna til viðbótar (sem hefði getað kostað mark) í Leicesterleiknum sem varð til þess að Caceido var bókaður. Því miður virðist undirtylla hans Jörgensen ekkert skárri þau fáu skipti er hann fær stóra sviðið til að sýna sig. Chelsea þarf að huga að markmannskaupum sem og miðverði því Monacobræðurnir eru ekki nógu góðir þ.e. Disasi of hægur og Badiashile er bara svipur af sjón eftir meiðslin og gerir of mörg mistökum. Eins og hann leit vel út þegar hann kom til okkar. Honum til varnar verður að segjast að hann átti mjög góðan leik gegn Leicester þannig að Badiashile fær einhverja sénsa hjá mér áfram.
Þetta eru nú eiginlega einu kaupin sem þarf þar sem við erum vel mannaðir í öllum öðrum stöðum (nema senterstöðunni margumræddu þar sem Jackson spjarar sig meir en ágætlega). Jafnvel svo vel að sumir leikmenn hafa ýjað að því að hafa vistaskipti þar sem komist ekki í aðalliðið af einhverri ástæðu.
Það er að segja “að sögn” gulu pressunnar sem virðist alveg í mun að hundelta Chelsea með getgátum og falsfréttum og reyna að gera félaginu allt til miska með niðurrifsstarfssemi með því að “lesa í aðstæður” þótt enginn flugufótur sé fyrir Gróunni. Ef við skoðum fjölda leikmanna bestu liða í Deildinni þá eru 26 skráðir hjá City (þar af þrír markmenn) en aðeins 22 leikmenn hjá bæði Arsenal og Liverpool (þar af tveir markmenn). Hjá Chelsea eru skráðir 30 leikmenn þar af 4 markmenn. Augljóst er að leikmannahópur Chelsea er of stór miðað við önnur topplið og þarf að minnka svo fremi sem ekki eru yfir 10 leikmenn á sjúkralista að staðaldri eins og í fyrra. Flestir heilvita menn vita að þeim niðurskurði er hófst í sumar er ekki lokið, aðeins frestað um stund. Eða frekar að umfram leikmenn “frusu inni” vegna naums tíma í haust. En ekki bulla í mér að sumir leikmenn Chelsea séu þeir einu sem séu óhressir með of lítinn leiktíma. Það hljóta einnig flestir leikmenn annarra toppliða að vera. Annað væri óeðlilegt.
Flestir “helstu” leikmenn Chelsea hafa fengið vel yfir 600 mínútur í vetur hver, að viðbættum landsleikjum en flestir eru þeir landsliðsmenn. Lavia og James eru að koma út meiðslum (og svosem báðir dottnir í meiðsli aftur) og hafa fengið leiktíma í samræmi við það. Þeir einu sem geta kvartað yfir of fáum leiktækifærum eru Bergström (0 mín), Bettinelli (0 mín) Kellyman (meiddur), Guiu (242 mín), Chukwuemeka (49 mín) og Chillwell (45 mín) sem lítið sem ekkert hafa sést í Chelseaskyrtu í vetur (og gera má ráð fyrir að verði seldir eða lánaðir í janúarglugganum). Hvað mættu þá sumir í leikmannahópi Man City og Liverpool segja þar sem að mestu er notast við 13-15 manna hóp sem eru þegar komnir með 1000-1300 leikmínútur (+ landsleikir) þegar um þriðjungur leiktímabils er að baki. ManCity er komið í bullandi vandræði með meiðsli lykilmanna og álag á leikmannahópinn. Og það áður en hinn erfiði desembermánuður er hafinn.
Óánægjuumræða gulu pressunnar snýst mest að Nkunku en hann hefur leikið 697 mín fyrir Chelsea en 212 mín fyrir Frakkland. Og Enzo (1002+427). En einnig að Joao Felix (634+102) sem aðeins hefur leikið 163 mín í Deildinni. Bæði Nkunku og Felix léku heilan landsleik í sl. viku. Nkunku sem sóknarmiðjumaður en Felix sem fölsk nía. Felix var kjörinn maður leiksins (Króatía - Portúgal) og stóð sig frábærlega. Nkunku var ekki að gera neinar rósir í leik sínum fyrir Frakkland. Ég vil reyndar sjá meira af bæði Nkunku og Felix í Deildarleikjum og skil í reynd ekki Maresca að láta Jackson og Palmer hjakka frekar í gamla farinu þegar ekkert er að frétta sóknarlega (og Palmer er oftast leikið út úr stöðu) frekar en að færa Palmer út til hægri og nota Felix í holunni eða hreinlega sem vinstri vængmann. En Felix getur skotið, sent og tekið menn á, sérstaklega á þröngu svæði. Og við vitum allir hvað Nkunku getur (þegar kominn með 10 mörk) þannig að henda honum inn á í uppbótartíma fyrir Jackson er óvirðing að mínu mati.
Þrátt fyrir að Madueke hafi átt þokkalega landsleiki finnst mér Neto betri hægri kantmaður en Noni. Sancho byrjaði vel á vinstri kantinum en tveir síðustu leikirnir sem hann lék voru ekkert til að hrópa húrra fyrir. Hann hefur verið veikur og meiddur og væri gaman að fá hann í það form sem hann var í byrjun tímabils. Mudryk er ekki tilbúinn undir tréverk og málningu ennþá, þannig Felix fékk tækifæri sem kantmaður/tía gegn Leiceister og átti lala leik. Hann greip ekki tækifærið og gerði stöðuna að sinni.
Flestum okkar finnst miðjusamstarf Caceido og Lavia traustara, en Caceido og Enzo. Sem er skrýtið því Enzo er lykilmaður og leikstjórnandi í besta landsliði heims og er með einkunnahæstu landsliðsmönnum Argentínu. Caceido er auðvitað óumdeilt einhver besti miðjumaðurinn í Deildinni. Enzo er þó betri en bæði Caseido og Lavia í að stjórna leik og að dreifa spili. En hann virkar samt töluvert betri með landsliðinu en okkar ágæta Chelsea. Nokkuð sem Maresca þarf að finna lausn á til að fá það besta út úr Enzo. Þó brá svo við að Enzo skreið beint út úr landsleikjaflugvélinni með flugþreytu og “alles” og spilaði einn sinn besta leik í Chelseaskyrtu gegn Leicester. Það er greinilegt að Maresca er að hvetja nafna sinn í að “mæta” inn í teig til að gera usla að hætti Lampard. Maður leiksins að mínu mati en Jackson átti einnig frábæran leik.
Mögulega kæmi nýting á miðjublending inn í það dæmi. Því miður vill Maresca nota Gusto sem mér finnst ansi lítil hjálp í sem miðjublendingur (inverted fullback). Eg segi ekki að hann hlaupi um eins og hauslaus kjúklingur en hann er ekki miðjumaður hvað þá skipulagður sóknarmiðjumaður (eins og Maresca vill) og gerir frekar lítið gagn í sókninni. Nema að ýta Palmer lengra til vinstri á vellinum. Gusto er eiginlega betri sem sóknarbakvörður en miðjublendingur allavega þangað til að hann hefur róast og getur leikið boltanum af skynsemi og yfirvegun. Ennþá fráleitara finnst mér að stilla James upp sem vinstri bakverði með Gusto sem hægri miðjublending. Ef James er heill, sem er því miður allt of sjaldan, er hann hægri bakvörður og Cucurella er okkar besti miðjublendingur og þá vinstra megin. Hann sýnir það ítrekað, bæði gegn sterkum andstæðingum sem veikum. Eins væri möguleiki að nýta sóknarhæfileika og sköpunarkraft Enzo gegn “lakari” liðinum í Deildinni og nota varnarhæfileika Lavia síðan gegn sterkari andstæðingum.
Það sem finnst eiginlega dapurlegast við leiki haustsins er hvað andstæðingarnir fái leyfi og komist upp með að brjóta á okkar jafnbesta manni, Palmer, í hvert skipti sem hann kemur við boltann. Jafnvel það að hugsa ekkert um boltann aðeins að brjóta á drengnum mögulega þannig að hann meiði sig. Þetta er ljótt að segja en því miður satt. Dómarar ættu að vera meira umhugað um velferð leikmanna en einhver orð, viðbrögð og svipbrigði við dómum þar sem spjöldin eru ekki spöruð. Við höfum séð slík brot í tveimur undanförnum leikjum, brot sem hæglega hefðu getað endað ferilinn hjá Palmer. Annað í Man Utd leiknum þegar Martínez takkatæklaði (með læstum fæti) hnéð á Palmer og fékk bara gult en ekki beint rautt. Ndidi tæklaði síðan Palmer aftan frá í hásinina í Leicesterleiknum og fékk að hanga inn á þótt brotið krefðist brottrekstrar. Félagi hans Soumaré fannst þetta sniðugt, gekk á dómaralagið og klippti niður Felix skömmu seinna. Einnig rautt.
Mönnum finnst eflaust skrýtið að ég skuli vera að ræða “bestu” mögulegu liðsuppstillingu hjá Chelsea þegar við eru “bara” að tala um Evrópukeppnina því mat Maresca og Chelsea á andstæðingum okkar á þeim vígvelli eru ekki merkilegt. Látum bara B liðið um þetta. Oft verður dramb og hroki falli næst eins og næstum því gegn Servette. Ég held að lið eins og Heidenheim sem endaði í áttunda sæti í sterkri Bundesligunni í fyrra hafi góða og reynda iðnaðarmenn innanborðs og að reyna að sækja sigur á heimavelli þeirra með B lið Chelsea sé örlítið vanhugsað. Það er ástæða fyrir því að Heidenheim er með jafn mörg stig og Chelsea í Sambandsdeildinni.
Desember er auðvitað einn erfiðasti mánuðurinn í Deildinni en Chelsea er þó heppið að eiga mun hagstæðari og léttari leikjaprógram en t.d. Manchester City eða Liverpool og mörg önnur lið þar sem við erum dottnir úr Carabao Cup. Ef hægt er að tala um að eitthvert lið í Deildinni sé auðveldur andstæðingur. Spurningin er þá hvort Maresca létti á aðalliðinu með því að stilla upp B liðinu eða hvort hann stillir upp sterkara liði í Sambandsdeildinni en venjulega. Hafa ber í huga að við eigum leik við Aston Villa þrem dögum seinna (Sunnudag) sem eiga leik við Juventus deginum áður (á miðvikudeginum). Það er svosem engin goðgá að tapa stigum til Heidenheim því Chelsea á eftir Astana úti í Kasakstan og Shamrock Rovers heima í þessari keppni þannig að aðeins stórslys þarf til þess að Chelsea komist ekki í útsláttarkeppnina.
Ég ætla að segja að Maresca haldi sér við sínar venjur og kenjar og stilli upp eftirfarandi liði: Jörgensen, Disasi, Tosin, Badiashile, Renato Veiga, Dewsbury-Hall, Casadei, Enzo, Neto, Nkunku og Mudryk. Aðrir sem kallaðir verða til eru: Guiu, Chukwuemeka, Sancho, Chilwell, T. George og mögulega Gusto.
Hvernig enda leikar? Leikurinn fer 1-1 og hver annar en Nkunku skorar.
P.s. Við minnum svo aðdáendur á að skrá sig í Chelsea klúbbinn á Íslandi. Núna fer brátt að líða að áramótum þannig að við hvetjum alla til að skrá sig eða endurnýja gamlar skráningar til þess að eiga séns á forkaupsrétti þegar pantað skal miða á leiki með Chelsea. Einnig má líka athuga hvort það sé ennþá pláss í hópferðina á Ipswich leikinn í apríl. Allar leiðbeiningar má lesa á www.chelsea.is
Björgvin Óskar (BOB)
Comments