Keppni: Enska úrvalsdeildin
Tími, dagsetning: Mánudagur 3.febrúar 2025 kl: 20.00
Leikvangur: Stamford Bridge, London
Dómari: Stuart Attwell
Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport
Upphitun eftir: EÓ - Elsa Ófeigsdóttir

Ferðin á Etihad í Manchester reyndist vera enn ein sneipuförin og enn einn leikurinn sem við töpum niður eftir að hafa komist yfir. Reyndar var þetta mark auðvitað gjöf til okkar frá Khusanov sem var að spila sinn fyrsta leik fyrir City. En nóg var af mistökum hjá báðum liðum og Khusanov getur huggað sig við það að hann hefur klárlega ekki gert jafn mörg mistök og Sánchez sem leitt hafa til marka. Í fyrri hálfleik var James í yfirvinnu við að passa upp á bæði Gvardiol og Marmoush. Madueke var svo settur á Gvardiol sem gaf James örlítið meira rými. En Madueke flækti stundum varnarleikinn því hann fylgdi Gvardiol endurtekið aftur fyrir öftustu varnarlínu eða fylgdi honum alls ekki þegar þess þurfti. Það er smá áhyggjuefni að enginn í okkar liði hafi fundið leið til að nýta sér það hvernig bakverðir City spiluðu út um allan völl hluta leiksins. Þeir skoruðu til að mynda jöfnunarmark City og virtust skapa rugling hjá væng- og varnarmönnum okkar við að manna þá, hvor ætti að passa bakvörðinn. Þetta var sérstaklega augljóst hægra megin hjá Madueke og James. Í seinni hálfleik tóku City öll völd, Haaland lék sér að Colwill, skiptingar Maresca skiluðu litlu og okkar menn voru engan veginn nógu skapandi á nokkurn hátt.
Augljóslega eigum við enn í smá erfiðleikum en það er bara óskandi að Maresca sé með plan og fái að halda áfram að vinna að því. Við vitum að það eru engar töfralausnir á vandamálum okkar, það tekur tíma að byggja upp lið og mynda nýjan kjarna sem getur tekið inn nýja leikmenn með tiltölulega lítilli fyrirhöfn eins og t.d. City og Liverpool hafa gert síðustu árin. En það er framtíðarmarkmið, við þurfum að reyna að taka á þessum augljósu veikleikum. Mér finnst Chalobah hafa styrkt vörnina en miðvarðaparið þarf fleiri mínútur til að fá að slípast til. Þá velti ég fyrir mér hvort þeir Colwill hafi líkamlegan styrk til að mynda miðvarðapar með Chalobah, svona eftir að hafa séð hversu illa Haaland fór með Colwill.
Þetta var fótboltaleikur þar sem mistök voru ríkjandi hjá báðum liðum en okkar menn voru einfaldlega ekki nógu gráðugir í sigur í lokin og töpuðu leiknum með tveggja marka mun. Mig langar að vekja sérstaka athygli á því að í marki City sem dæmt var af vegna rangstöðu þá vorum við einfaldlega rosalega heppin að Marmoush skyldi vera svona einbeittur að taka boltann því Silva var einnig mættur og var réttstæður. Leiðinlegt að taka Sánchez fyrir en hann varði þetta skot afskaplega skringilega og frákastið endaði hjá Marmoush. Varnarmenn okkar voru reyndar alveg fullkomlega sofandi enda enginn dökkblár í kringum þessa tvo á seinni myndinni.

Ég tel betra að fróðari sparkspekingar taki umræðuna um hvort Sánchez eigi heima í liðinu eða hver eigi að taka við en Slonina hefur verið kallaður til baka frá Barnsley þar sem hann var á láni og því möguleiki á breytingum. En líklegra er að Slonina verði sendur annað á lán þegar hann hefur jafnað sig á fingurmeiðslum sem hann hefur glímt við síðustu mánuði. Margir hafa nefnt Kepa sem möguleika á að taka við af Sanchéz en Maresca hefur þvertekið fyrir að það sé í spilunum að kalla hann til baka frá Bournemouth. Ég hlakka til að sjá og heyra umræðuna frá Chelsea-spekingum okkar hér á cfc.is, í Blákastinu og Facebook-hópnum.
Leikmannaglugginn var ekki mjög fjörugur hjá andstæðingum okkar í West Ham en þeir lánuðu einn leikmann til Genoa. Hamrarnir í West Ham sitja í 14.sæti deildarinnar með 27 stig. Stjóri Hamranna er enginn annar en Graham Potter en hann var ráðinn í byrjun janúar. Þetta er fyrsta stjórastarf Potter eftir að hann var látinn fara frá Chelsea. Við óskum honum að sjálfsögðu góðs gengis í nýju starfi en ætlumst að sama skapi til þess að okkar menn sigri þennan leik. Hvað snertir leikmannagluggann hjá Chelsea, þá hefur Cesare Casadei verið seldur til Torino á Ítalíu. Aston Villa eru ganga frá kaupum á Axel Disasi, og Tottenham hafa verið einnig orðaðir við hann. Það heyrist ekkert um Ben Chilwell sem sætir nokkurri undrun. Carney Chukwuemeka gæti endað hjá Dortmund á láni. Allt tal um að fá Alejandro Garnacho eða Marcus Rashford hefur hljóðnað, sem betur fer - en ætli það hafi ekki verið einhver froðan frá umboðsmönnum? Hver veit?
Ég spái byrjunarliði okkar þannig að Jorgensen verður á milli stanganna.
Vörnin: James – Chalobah – Colwill – Cucurella
Miðja: Enzo – Caicedo – Palmer
Sókn: Madueke – Jackson – Sancho
Við sigrum þennan leik 3 – 0 með marki frá Madueke og Palmer minnir hressilega á sig með tvennu.
Áfram Chelsea!
KTBFFH!
Kommentare