top of page
Search

Góður sigur í norðri Leikskýrsla - Newcastle vs. Chelsea



Okkar menn unnu góðan sigur á Newcastle á St. James’ Park. Chelsea menn byrjuðu leikinn af miklum krafti og með örlítilli heppni hefði staðan getað verið 0-3 í hálfleik fyrir bláklæddum. Markvörður Newcastle, Karl Darlow, átti stórleik og átti nokkrar frábærar vörslur í fyrri hálfleik. Fyrsta alvöru færi leiksins fékk Werner á 4. mínútu eftir frábæran undirbúining Kanté (sem spilaði frábærlega í dag). Darlow varði boltann með naumindum í hornspyrnu. Darlow þurfti aftur að taka á honum stóra sínum 5 mínútum síðar þegar hann varði fastan skalla Tammy Abraham glæsilega eftir frábæra sendingu Hakim Ziyech. Úr varð hornspyrna sem var tekin stutt, Mason Mount fékk boltann aftur frá Werner og setti fastan bolta fyrir markið sem Farnendez stýrði í sitt eigið net eftir mikla pressu frá Chilwell. Newcastle menn vildu fá dæmda aukaspyrnu á Chilwell en dómari leiksins var aldrei á þeim buxunum.


Eftir markið reyndu okkar menn hvað þeir gátu að bæta við forystuna en heppnin stóð ekki með okkur. Werner átti dauðafæri á 23. mínútu eftir góðan undirbúning Ziyech en renndi boltanum rétt framhjá og aftur á 29. mínútu nánast einn á móti markmanni en boltinn fór rétt framhjá nærstönginni. Eftir þessi dauðafæri fengu Newcastle byr undir báða vængi og var maður orðinn ansi stressaður á því að þeir myndu ná að jafna leikinn. Samt sem áður voru okkar menn 80% með boltann bróðurpart hálfleiksins og miklu líklegri en þeir svart-hvítu. Í seinni hálfleik hélt færaklúður Werner áfram en hann slapp nánast einn í gegn eftir að hafa unnið boltann vel af Schar í öftustu varnarlínu Newcastle. Werner reyndi hins vegar slaka sendingu á Ziyech í stað þess að skjóta og ekkert varð úr sókninni. Okkar menn áttu nokkur góð færi í viðbót áður við náðum loksins að koma boltanum yfir línuna þegar Tammy Abraham kláraði frábærlega færi sem að Werner bjó til frá a-ö. Werner vann boltann langt inni á vallarhelmingi Chelsea, sólaði 3 menn áður en hann renndi honum inn á Tammy sem að skaut boltanum stöngin-inn.


Eftir markið gerðist fátt marktækt í leiknum fyrir utan nokkur færi á báða bóga og Chelsea menn sigldu 3 góðum stigum í hús og komust á topp deildarinnar (í smá stund). 12 leikir í röð án taps er staðreynd, 5. sigurleikurinn í röð í öllum keppnum og 7. hreina lak Mendy í markinu. Ekki amalegt það.


Hér að neðan fer ég yfir mína einkunnagjöf fyrir þennan leik.


Mendy - 8. Öruggur að vanda og hreint lak. Varði virkilega vel frá Almiron á 81. mínútu eftir að boltinn breytti um stefnu af Chilwell. Spurning hvort að Kepa hefði varið þetta.


Chilwell - 7. Solid leikur hjá Chilly. Hann heldur áfram að heilla mig. Örlítið þreyttur þegar líða tók á leikinn, eðlilega eftir allt álagið.


Rüdiger - 7. Merkilega fínn leikur hjá Þjóðverjanum og maður var ekki með hjartað í buxunum í hvert skipti sem hann fékk boltann, sem er gott.


Zouma - 8. Bestur í skallaeinvígum í deildinni, tölfræðin bakkar það upp. Góður leikur hjá Frakkanum.


James - 9. Jafnbesti leikmaður Chelsea í dag að mínu mati. Vann boltann trekk í trekk á hægri kantinum og var hættulegur fram á við.


Kanté - 10. Ég gef honum bara 10 fyrir þessa frammistöðu, ótrúlegur leikur hjá honum í dag. Hann vann alla seinni bolta og var eins og duracell kanína á miðjunni.


Kovacic - 8. Góður leikmaður hjá Kova, góðar sendingar bæði stuttar og langar. Hann ætlar að berjast fyrir sínu sæti í liðinu.


Mount - 8. Frábær í pressunni, ótrúleg vinnsla. Líka góður í sóknarleiknum og var nálægt því að skora geggjað mark.


Ziyech - 7. Örlítið þreyttur í dag. Átti stundum misheppnaðar sendingar sem í eitt skiptið leiddi til skyndisóknar Newcastle. Hins vegar alltaf hættulegur með sínar löngu sendingar og hefði auðveldlega getað lagt upp í dag.


Werner - 8. Hefði skorað þrennu í dag ef að hann hefði verið 100% ferskur. Það sást hins vegar greinilega að hann var vel þreyttur eftir mikið leikjaálag og ferðalög. Einhvernveginn fann hann 6. gírinn þarna í seinna markinu og kláraði leikinn fyrir okkur.


Tammy - 8. Virkilega vel klárað færi hjá honum og skapaði pláss og tíma fyrir kanntmenn í dag. Tammy er að koma mjög skemmtilega á óvart fyrir mitt leiti og er að spila vel þessa daganna. 23 mörk í öllum keppnum frá byrjun seinasta tímabils - 11 mörkum meira en næsti maður á eftir. Vel gert.


KTBFFH

- Þór Jensen


bottom of page