top of page
Search

Fyrsti leikurinn gegn Manchester City

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Tími, dagsetning:  Sunnudagur 18. ágúst kl: 15:30

Leikvangur:  Stamford Bridge, London

Dómari: Anthony Taylor

Hvar sýndur:  Síminn Sport

Upphitun eftir: Hafstein Árnason




Framundan er nýtt tímabil í ensku úrvalsdeildinni. Líkt og við enduðum tímabilið á Stamford Bridge með Anthony Taylor á flautunni, þá hefjum við baráttu þessa tímabils með hann á flautunni einmitt á Brúnni. Maður er með í maganum að hann geri einhver heimskuleg mistök, eins og gjarnan gerist með hann og aðra enska dómara. Við hefjum tímabilið án auglýsingar framan á búningnum, eftir því sem undirritaður kemst næst. Stefna stjórnarinnar er að gera stutta skammtímasamninga, þar sem langtímabinding væri heppilegri þegar klúbburinn kemst aftur í meistaradeildina. Það er þó miður að engin auglýsing er til að hylma yfir aðalbúninginn, sem er líklega með þeim ljótari. Varabúningurinn og sá þriðji eru töluvert betri að mínu auðmjúklega áliti. Hvet félagsmenn til að verða sér út um eintök án auglýsinganna. Líka sérstakt að varabúningurinn ber liti New York Knicks, þegar betur er að gáð. Bleika elementið í þeim þriðja nokkuð spes og líklega góður safngripur.



Markaðurinn hefur verið fullkomlega "kreisí". Chelsea var um það bil að fara selja Conor Gallagher til Atletico Madríd og kaupa Samu Omorodion frá þeim. Allt klappað og klárt hjá Conor. Hann var búinn að fá aldeilis söluræðuna frá Diego Simeone um hans mikilvægi fyrir Atletí, en þeir spænsku geta ekki gengið frá kaupum nema fá pening á móti, sem átti að vera fyrir Samu. Allt virtist vera klárt en samkvæmt fréttum hættu Chelsea við kaupin á þeim spænsk-nígeríska leikmanni. Hvað olli þessum straumhvörfum er ekki vitað nákvæmlega um, en það virðist vera að Napoli hafi eitthvað truflað. Það sem gerðist hjá þeim var að Victor Osimhen hefur óskað eftir sölu, og Napoli vilja kaupa Romelu Lukaku. Fram að þessu höfðu viðræður verið í strand og núna virðast Aurelio De Laurentis eigandi Napoli og Giovanni Manna, yfirmaður knattspyrnumála Napoli, hafa gefið eitthvað eftir gagnvart Chelsea. Þeir vilja ná Lukaku og bjóða Osimhen á móti. Vandræðin snúast aðallega að því hvernig sé hægt að brúa bilið þarna á milli. Það er ekki útilokað að Cesare Casadei verði bíttað líka á móti - og hvort Chelsea fái Osimhen á láni fyrst, með skyldukaupákvæði á næsta tímabili. Það sem liggur fyrir er að Osimhen vill ekki fara á láni nema hann fari alfarið frá Napoli og lækki alls ekki í launum. Hann yrði þó ekki launahæstur í liðinu, en samt með þeim launahærri. Aðrir kaupendur að Osimhen eru PSG og Arsenal. De Laurentis mun aldrei lúffa fyrir PSG og frekar halda út uppsettu verði á þeim nígeríska gegn svoleiðis klúbbi, ólíkt Chelsea. Arsenal virðast frekar vera með augastað á Gyökeres hjá Sporting og Ivan Toney. Það berast einnig slúðurfréttir að John Obi Mikel og Didier Drogba séu að vinna í því á bakvið tjöldin að sannfæra Victor Osimhen um að koma til Chelsea. Undirritaður hefur kallað eftir Osimhen í Chelsea síðan fyrir afríkumótið. Eina sem gæti umbylt þessu eru PSG. Goncalo Ramos meiddist í leik hjá þeim um helgina og verður frá í þrjá mánuði. Þeir gætu því keypt Osimhen á uppsettu verði frá Napoli. Við verðum að bíða og sjá.



En aftur að Conor Gallagher. Hann þurfti því miður að snúa aftur til London eftir tæpa vikudvöl í Madríd. Nú liggur það ljóst fyrir að Chelsea hefur dregið til baka áhugann á Omorodion, sem er pínu leiðinlegt, því Omorodion er virkilega spennandi kostur. Þess í stað hljóp stórkarlinn og umboðsmaðurinn Jorge Mendes í skarðið og er að vinna í því að bítta á Joao Felix og Gallagher. Jói Fel eins og við þekkjum hann, vill koma aftur til Chelsea og það virðist frágengið, en Atletico Madríd verðleggja hann nokkuð hátt útaf bókhaldsbrellum. Þeir vilja ekki sætta sig við tap á kaupunum þrátt fyrir að þeir keyptu Felix á alltof háu verði til að byrja með. Fabrizio Romano segir að samkomulag virðist vera í augsýn. Það leysist vonandi um helgina.


Jorge Mendes var reyndar mjög iðinn síðustu vikuna þegar hann kom að því að Chelsea skyldu kaupa Pedro Neto frá Wolves. Það kom nokkuð á óvart og var frekar skyndileg kaup. Samkvæmt miðlunum voru Chelsea að keppa við Tottenham um kaupin á Neto. Við hjá CFC mælum sérstaklega með analýsum Sam í London is blue hlaðvarpinu. Hann telur kaupin vel réttlætanleg, í ljósi þess hversu kvikur Neto er á litlu svæði, með sinn óhefðbundna bakgrunn úr rúlluskauta-hokkí. Neto er líka þannig leikmaður að honum líður vel í víddinni á meðan aðrir leikmenn vilja frekar fara inn á völlinn. Sá portúgalski er líka öflugur spyrnumaður og krossari, sem er element sem okkur vantar sárlega, einkum þegar Reece James er meiddur. Maður sér fyrir sér að menn eins og Osimhen myndi mæta slíkum krossum, jafnvel Guiu ef svo ber undir.


Chelsea hefur þó selt nokkra leikmenn. Diego Morieira fór til systurklúbssins Strasbourg fyrir litlar tvær milljónir evra. Mason Burstow var svo seldur til Hull City fyrir 2,4m evra. Burstow fékk góð tækifæri á undirbúningstímabilinu með Pochettino og kom við í tveimur leikjum með Chelsea á síðasta tímabili, en var svo lánaður til Sunderland, þar sem hann skoraði aðeins eitt mark í ca 20 leikjum. Ef menn geta ekki gert betur í Championship deildinni, þá eiga þeir ekkert erindi í Chelsea. Lesley Ugochukwu var svo lánaður til Southampton í vikunni. Það gleður því hann þarf sannarlega á mínútum að halda í ensku úrvalsdeildinni. Við sjáum öll glöggt, að Lesley getur orðið að einhverjum moster leikmanni. Hann var nefnilega mjög góður á undirbúningstímabilinu, en þetta léttir á miðjunni þar sem samkeppnin er töluverð um stöður. Bashir Humphreys var svo lánaður til Burnley með skyldukaupákvæði eftir tímabilið. Bashir var klárlega 7. eða 8. miðvörðurinn í liðinu og hefur því ekki neina framtíðarstöðu. Gaga Slonina var svo lánaður til Barnsley eftir frekar misheppnaða dvöl hjá Eupen í Belgíu á síðasta tímabili. Munum að Real Madrid var einnig á eftir honum þegar hann lék með Chicago Fire í MLS. Vonum að þetta gangi betur á þessu tímabili.


Enzo Maresca lét hafa eftir sér á blaðmannafundi að best væri fyrir Ben Chilwell að finna sér annan klúbb. Hlutverk Chilwell hefur verið sáralítið á undirbúningstímabilinu og hann virðist ekki passa vel inn í leikstílinn hjá Maresca. Þetta eru ekki sérstaklega góð tíðindi þar sem Chilwell er einn launahæsti leikmaður liðsins og það verður ekki hlaupið að því að losa hann einhvert annað. Maður getur þó alltaf vonað að Manchester United komi og bjóði eitthvað heimskulegt tilboð. Við skulum aldrei afskrifa snillingana á Old Trafford.


Næstu dagar fram að gluggalokum verða mjög áhugaverðir. Við búumst fastlega við því að Kepa, Lukaku, Broja, Chilwell, Casadei, Petrovic, Datro Fofana, Tino Anjorin, Harvey Vale, Jimi Taurianen, Alex Matos, Leo Castledine og jafnvel fleiri leikmenn fari frá klúbbnum. Við vitum að klúbburinn getur bara lánað sjö leikmenn utan Englands, en Andrey Santos og Caleb Wiley eru hjá Strasbourg og Aron Anselmino er á láni hjá Boca Juniors, eftir að hafa verið keyptur þaðan. Það er því ennþá nokkur pláss til að lána út fyrir landssteina. Maresca vill hafa hóflega stærð á hópnum og það er ekkert annað hægt en að vona að stjórnin geri vel í þeim efnum. Annars verður starfið mun erfiðara fyrir þjálfarann.


Framundan er fyrsti leikurinn á heimavelli gegn Manchester City. Við höfum töluvert miklar áhyggjur af vörninni eftir síðasta leik gegn City í Bandaríkjunum. Þar vannst leikurinn á fyrstu mínútum og þeir ljósbláu krúsuðu auðveldlega í þriðja gír út allan leikinn. Það verður fróðlegt að sjá hvernig Maresca stillir upp nú þegar hann hefur alla leikmenn til taks. Við höfum lítið séð af Disasi og Nico Jackson vegna meiðsla á undirbúingstímabilinu. Robert Sanchez fékk flestar mínútur í þessum leikjum í markinu og má því fastlega búast við honum í rammanum. Við teljum líklegt að Malo Gusto og Marc Cucurella verði bakverðir, en Tosin Adarabioyo og Levi Colwill verði miðverðir. Það er þó alveg eins víst að Fofana fái líka startið. Miðjumennirnir verða Romeo Lavia, Moises Caicedo og Enzo Fernandez sem mun bera líklega fyrirliðabandið. Cole Palmer klárlega á hægri, Nkunku á vinstri og sennilega Jackson upp á topp, ef hann er heill. Annars er líklegt að Marc Guiu fái tækifæri.


Manchester City eru að snigla saman liðinu sínu og líklega er best að mæta þeim snemma á tímabilinu, frekar en seint. Þeir verða þó án Rodri og Oscar Bobb, sem eru frá vegna meiðsla. Að öðru leyti fáum við að sjá öflugt City lið og sennilega eitthvað af þessum nýju brasilísku leikmönnum sem gengu til liðs við City í sumar. Hverig fer leikurinn? Eitthvað sem er mjög líklegt er að Chelsea fái mörk á sig. Maresca hefur ekki fundið ennþá sitt sterkasta byrjunarlið hvað vörnina snertir, en við sem aðdáendur verðum að vera þolinmæðir fyrsta mánuðinn eftir að leikmannaglugganum lokar. Sóknarleikur Maresca hefur alla burði til þess að skila mörkum og þarna tel ég serstaklega tækifæri fyrir Enzo Fernandez til að skína. Við munum svo ábyggilega sjá Noni Madueke og Pedro Neto í þessum leik ef mörkin láta á sér standa. Hinsvegar spái ég að leikurinn fari 2-1 fyrir Manchester City, þar sem norska skrímslið Erling Haaland mun setja bæði mörkin á okkur, en Cole Palmer skorar á móti sínum gömlu félögum.


E.s. Nú hafa nýjir pistlahöfundar bæst við í hópinn hjá CFC. Við óskum samt eftir fleirum og hvetjum alla til að vera í sambandi við undirritaðan á fésbókinni góðu. Einnig viljum vekja athygli á því að skrá sig í Chelsea klúbbinn á Íslandi. www.chelsea.is - upplýsingar um skráningu á síðunni. Þettta kostar skid-og-ingen-ting, tæpar 8000 kr. fyrir árið. Fyrir vikið fáið þið aðgang að miðakaupum í gegnum klúbbinn, hafið áhuga á því að kíkja á leik í vetur.


Áfram Chelsea og KTBFFH!!

Comentários


bottom of page