top of page
Search

FULHAM HEIMA

Keppni: Úrvalsdeildin

Tími, dagsetning:  26. desember  kl:15:00

Leikvangur: Stamford Bridge, London

Dómari: Samuel Barrott

Hvar sýndur: Síminn Sport 2

Upphitun eftir: BFR - Bjarni Reynisson



Gleðilega hátíð kæru bláliðar. Þrátt fyrir jafntefli gegn Everton í síðasta leik og appelsínugula viðvörun og veðurvonsku um jólahátíðina þá rita ég þennan pistil fullur af gleði. Það er gott að vera í öðru sæti, það er gott að vera með stjóra sem er að ná því besta út úr leikmanna hópnum. Það er gott að vita af því að miðsvæðið okkar er skipað af Enzo Fernández og Moisés Caicedo. Það hefði verið kirsuber á toppinn á jólatréð að taka þrjú stig frá Everton, en erfitt að eiga við þann andfótbolta sem að þeir buðu upp á. Enn erfiðara að horfa upp á Jordan Pickford koma fljúgandi á móti Malo Gusto í vítateignum, tveggja fóta háskaleiks tækling sem að verðskuldaði vítaspyrnudóm. Pickford er svolítill ruddi og hefur slysast til að slasa leikmenn í fortíðinni. Það er mér efst í minni þegar hann setti Virgil van Dijk, leikmann Liverpool, á meiðslalistann og orsakaði hálfgert hrun á tímabili þeirra rauðklæddu í kjölfarið. Ef að Gusto hefði ekki stokkið yfir tæklinguna þá hefði hann sannarlega fótbrotnað. Palmer átti ekki sinn besta leik og þegar maður lítur í baksýnis spegilinn veltir maður fyrir sér hvort að Maresca hefði átt að gera skiptingarnar sínar fyrr.


Við velkomnum litla bróðir okkar úr vestur Lundúnum, Fulham, á brúnna á “Boxing Day.” Þeir eru að gera fína hluti í deildinni þetta tímabilið og sitja í níunda sæti, tveimur stigum á eftir Manchester City. Þrátt fyrir að þeir styrktu framlínuna sína duglega á 23/24 tímabilinu með komu Adama Traoré og Raúl Jimenez frá Úlfunum þá er þeirra mest markaskorari á tímabilinu miðjumaðurinn Iwobi. Þeir áttu möguleikann á að kaupa Armando Broja eftir að hann eyddi síðasta tímabili á láni hjá þeim en honum var haldið á bekknum vegna góðrar frammistöðu Rodrigo Muniz.


Þeir mæta ósigraðir úr síðustu fimm leikjum sínum (1W, 4D) en okkar menn eru ósigraðir í síðustu 12 leikjum (9W, 3D). Stamford Bridge hefur reynst óyfirstíganlegt vígi fyrir Fulham en í 17 viðureignum á Brúnni hafa þeir aldrei sótt þrjú stig. Viðureignin á milli Gusto og Traoré verður gífurlega mikilvæg í leiknum þar sem sá síðarnefndi býr yfir miklum sprengikrafti og er öskufljótur. Það er mín heitasta jólaósk að Robert Sanchez viðhaldi leikforminu sínu og haldi hreinu tvo leiki í röð. Svo væri ekki verra ef að dreifingin hans væri í lagi líka.


Á meiðsla listanum er Reece James, sem er þó farinn að taka þátt í æfingum á grasinu. Þar er einnig að finna Wesley Fofana, Badiashile, og Romeo Lavia, en sá síðast nefndi nálgast einnig endurkomu. Meiðslin herja örlítið á varnarlínuna en það er plástur að Acheampong hafi krotað á nýjan fimm ára samning á dögunum, þrátt fyrir að hann fékk ekki mínútur gegn Everton eins og ég bjóst við.


Mín spá fyrir byrjunarliðið er svohljóðandi. Sanchez í markinu, Gusto, Tosin, Colwill, og Cucurella í varnar línunni. Enzo og Moi á miðjunni. Neto á hægri væng, Sancho á vinstri væng, Palmer í tíunni og Jackson upp á topp. Ég vona að Maresca gefi Acheampong, Marc Guiu og Felix mínútur og geri hugrakkar skiptingar á lykilmönnum ef að þeir eru ekki að eiga sinn besta leik. Jafnvel þó að við vitum að þeir gætu breytt leiknum á nokkrum augnablikum með gæðum sínum.


Fulham mun ekki finna neina jólagleði á brúnni og tapa leiknum 2 - 0.



Áfram Chelsea og KTBFFH!! 


Við viljum svo minna fólk á að skrá sig í Chelsea klúbbinn á Íslandi, sérstaklega ef þið lesendur góðir hafið áhuga á að fara á leiki með Chelsea í vetur, þá er Chelsea klúbburinn besti milligönguliðurinn með að útvega miða. Allar nánari upplýsingar á www.chelsea.is

Comentarios


bottom of page