Keppni: Evrópska sambandsdeildin
Tími, dagsetning: Fimmtudagur 7. nóvember kl: 20:00
Leikvangur: Stamford Bridge, London
Dómari: Christian Petru Ciochirca (Austurríki)
Hvar sýndur: Viaplay
Upphitun eftir: GRÞ - Guðni Reynir Þorbjörnsson
Það er komið að næsta verkefni, heimaleik gegn armenska liðinu FC Noah í Sambandsdeild Evrópu. Við situm á toppi þessa gríðarstóra riðils sem við erum í eftir tvær umferðir, en báðir sigrar okkar í keppninni hafa verið mjög sannfærandi þar sem okkar menn hafa raðað inn mörkum í fyrstu tveim leikjum keppninnar. Við ætlumst að sjálfsögðu til þess sama í þessum leik og væri það vel þegið eftir heldur dapran jafnteflisleik í ensku úrvalsdeildinni á Old Trafford um síðustu helgi. Nú viðurkenni ég það fúslega að ég veit mjög lítið um knattspyrnuliðið FC Noah. Ég fór í stutta rannsóknarvinnu og komst að því að félagið var stofnað sem FC Artsakh árið 2017 en árið 2019 var það selt til Karen Abrahamyan sem breytti nafni félagsins í FC Noah. Það er eftir sjálfum Nóa úr biblíusögunum, en örkin hans lá á Araratfjöllum í Armeníu. Þeir enduðu í öðru sæti í deildinni á síðasta tímabili og sitja nú í fjórða sæti í deildinni heima fyrir eftir 10 umferðir.
Með FC Noah leikur Íslendingurinn og sunnlendingurinn Guðmundur Þórarinsson. Fyrir þá sem ekki vita að þá er hann grjótharður stuðningsmaður Chelsea. Það var því ekkert annað í stöðinni en að ná tali af honum í tengslum við upphitun fyrir þennan leik. Hann var svo jákvæður gagnvart okkur, að hann var tilbúinn að svara nokkrum spurningum sem ég henti á hann.
Hvernig kom það til að þú byrjaðir að halda með Chelsea?
Ég var með þjálfara í 7. flokki (Halldór Björnsson) sem fékk mig í að halda með Chelsea og það hefur ekki breyst síðan þá. Svo sá Eiður Smári til þess að maður fór að fylgjast vel með og varð á þeim tíma grjótharður stuðningsmaður.
Hvernig var tilfinningin þegar þú áttaðir þig á því að þið drógust gegn Chelsea og að leikurinn yrði leikinn á Stamford Bridge?
Hún var auðvitað mjög skemmtileg og þetta var svona eitt af liðunum sem að flestra augu beindust að, þannig maður verður að viðurkenna að það kitlaði smá aukalega. Svo verður gaman að mæta á þennan flotta völl og reyna að eiga góðan leik við topp aðstæður.
Hefurðu oft komið á Stamford Bridge?
Ég hef komið þangað á tvo leiki þegar ég var aðeins yngri og fótboltavellir gerast ekki mikið flottari.
Hvaða leikmenn í Noah eiga Chelsea að óttast?
Við erum heilt yfir með flott lið. Eigandi liðsins hefur lagt gríðarlega í þetta verkefni og ætlar sér að ná langt og verða stærsta liðið á þessu svæði. Ég get ekki nefnt neinn sérstakan en heilt yfir höfum við spilað vel og náð í mjög góð úrslit í evrópukeppninni. Þannig vonandi getum við komið á óvart á fimmtudaginn.
Ef þú myndir skora gegn Chelsea, myndir þú fagna markinu?
Að sjálfsögðu. Því miður meiddist ég frekar illa í síðasta leik og verð frá í einhvern tíma. Ég myndi hins vegar fagna af innlifun ef að við náum í góð úrslit. Held svo með Chelsea í ensku deildinni.
Hvað eru margir leikmenn Noah sem eru stuðningsmenn Chelsea og hvernig er stemmingin í hópnum fyrir þennan leik?
Ég er ekki með það á hreinu. Sem betur fer erum við með nokkuð reynslu mikið lið þannig að menn eru svona þokkalega rólegir yfir þessu þó svo að fólk hér í Armeníu sé mjög spennt fyrir þessu verkefni.
Við hvaða leikmann myndir þú helst vilja skipta treyju við eftir leik?
Ég hef verið það heppinn að mæta mörgum góðum leikmönnum í gegnum tíðina að ég er lítið að pæla í því. Ég hefði mögulega spurt Lampard eða Poyet á sínum tíma en núna hefði ég bara mætt fullur einbeitingar að reyna að eiga góðan leik en hefði sennilega beðið Lampard um treyju þegar hann var minn uppáhaldsleikmaður.
Hver er þinn uppáhalds Chelsea leikmaður allra tíma?
Það eru nokkrir sem koma upp. Eiður Smári, Lampard, Drogba, Terry sem dæmi. Þá var ég horfa á flesta leiki og fylgdist vel með liðinu. Ég á búninga með Gullit, Poyet, Lampard, Eið og Essien aftan á bakinu, þannig það verður að vera einn af þeim.
Já við þökkum Guðmundi, eða Gumma Tóta eins og hann er kallaður, kærlega fyrir að gefa sér tímann til veita viðtal. Við óskum honum að sjálfsögðu góðs gengis í sínum verkefnum en við ætlum að vera Chelsea megin í þessum leik. Chelsea munu vonandi koma grimmir til leiks, enda þurfa nokkrir leikmenn að bæta upp fyrir dapra frammistöðu gegn Newcastle í deildarbikarnum í síðustu viku. Ég reikna fastlega með að þetta verði mjög svipað byrjunarlið og hefur verið í þessum bikar-og evrópuleikjum. Jörgensen verður í markinu, Disasi verður líklega notaður sem hægri bakvörður og þeir Tosin og Badiashile verða miðverðir. Ég ætla að leyfa mér að giska á að Renato Veiga verði vinstra megin í vörninni, en hugsanlega gæti það orðið Cucurella. Ég vil samt persónulega sjá Cucurella í byrjunarliðinu á sunnudaginn og ég vil endilega sjá hann aftur í okkar sterkasta byrjunarliði. Á miðjunni verða líklega Enzo, Kiernan Dewsbury-Hall og Joao Felix. Mikhaylo Mudryk og Jadon Sancho verða á sitthvorum kantinum og Christopher Nkunku að öllum líkindum frammi.
Ég ætla að gerast svo djarfur að spá okkur 4-0 sigri, (sorry Gummi) þar sem Nkunku, Felix, Sancho og Tosin skora mörkin.
Áfram Chelsea!
P.s. við minnum lesendur á, og hvetjum ykkur öll til að skrá ykkur í Chelsea klúbbinn á Íslandi. Einnig er ennþá opið fyrir skráningar í hópferðina á leikinn með Ipswich í apríl. Allar nánari upplýsingar á www.chelsea.is
Comments