top of page
  • Twitter Social Icon
  • Facebook Social Icon
Search

Djurgårdens IF gegn Chelsea

  • Writer: Jóhann Már Helgason
    Jóhann Már Helgason
  • 3 days ago
  • 4 min read

Keppni: Evrópska Sambandsdeildin

Tími, dagsetning:  Fimmtudagur 1. maí kl: 19:00

Leikvangur:  Stockholm Arena, Stokkhólmur

Dómari: Sandro Schaerer (Sviss)

Hvar sýndur: Stöð 2 Sport 3  

Upphitun: Hafstein Árnason



Það var ekki mikið um markasprengjur á Stamford Bridge um liðna helgi. Það er eitthvað við það að vinna 1–0 gegn Everton á Brúnni, sem minnir mann á að vera þakklátur fyrir það sem maður hefur, eins og þrjú stig, og að vera ekki aðdáandi Everton. Nicolas Jackson, sem hafði verið markalaus í 13 leikjum, braut loks þögnina með marki á 27. mínútu eftir stoðsendingu frá Enzo Fernández. Leikurinn var ekki sá mest spennandi, en Chelsea hélt boltanum vel og skapaði sér nokkur tækifæri. Everton reyndi að jafna metin í seinni hálfleik, en markvörðurinn Robert Sánchez stóð vaktina vel og tryggði Chelsea fjórða hreina lak sitt í fimm heimaleikjum. Raunar var hann besti leikmaður liðsins og var maður leiksins. Hann átti nokkrar stórbrotnar vörslur og það mætti segja að hann vann þessi þrjú stig fyrir liðið. Það er kærkomin breyting og tími til kominn að hann bjargi andlitinu eftir frekar dapurt tímabil.


En þó Chelsea hafi haldið áfram sinni endurreisn úr myrkrinu – og tengt saman sigra í deildinni – þá er eitt ský á bláum himni: Cole Palmer. Okkar maður, kórdrengurinn sem skoraði þrennu gegn United og fjögur gegn Everton í fyrra, er nú farinn að líta út eins og maður sem gleymdi hvernig markið lítur út. Hann er á 17 leikja markalausu rönni í öllum keppnum. Það er næstum því hálft tímabil. Þetta er farið að vera alvöru áhyggjuefni. Það er eitthvað sem hefur dofnað. Sjálfstraustið? Krafturinn? Eða er hann bara búinn á því eftir að hafa dregið þetta lið á herðunum í marga mánuði? Við viljum ekki gera of mikið úr því – kannski þarf hann bara einn leik, eitt mark, til að kveikja aftur á ljósunum. En þegar jafnvel Marc Cucurella er farinn að ógna marki oftar en Palmer, þá blikka rauðu ljósin í mælaborðinu.

Framundan er leikur í Sambandsdeildinni í undanúrslitunum þar sem við förum til Stokkhólmar. Djurgården IF bjóða okkur í heimsókn á Stockholm Arena. Djurgården þekkjum við ágætlega þar sem Sigurður Jónsson, Sölvi Geir Ottesen og Kári Árnason hafa leikið með liðinu. Þeir sænsku spiluðu einmitt á Kópavogsvelli í leiðindaveðri við Víking Reykjavík í deildarkeppni fyrr á tímabilinu og fóru þar með 2-1 sigur af hólmi. Víkingur stóð ágætlega í þeim leik. Djurgården hefur náð ótrúlegum árangri síðan þá þar sem þeir slógu út Rapid Wien í fjórðungsúrslitum, eftir framlengingu. Rapid Wien reyndar köstuðu frá sér leiknum með óþörfum rauðum spjöldum en þetta er samt eftirtektarverður árangur fyrir Svíana. Þetta er sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að liðið hefur átt í miklum meiðslavandræðum sem hefur leitt til þess að ungir leikmenn hafa fengið tækifæri til að spila. Sá leikmaður sem hefur vakið hvað mesta athygli og sýnt frábæra frammistöðu er Keita Kosugi, 19 ára bakvörður frá Japan. Hann hefur verið sérstaklega áberandi með framlagi sínu bæði í deild og Evrópukeppni. Þrátt fyrir áskoranir hefur liðið sýnt mikla liðsheild og skipulag. Liðið hefur glímt við meiðsli lykilleikmanna eins og Oskar Fallenius og Nino Žugelj. Í Allsvenskan hefur liðið verið óstöðugt og situr í 11. sæti deildarinnar. Fyrir leikinn gegn Chelsea eru þeir með sjö leikmenn á meiðslalista. Enzo Maresca gaf það sérstaklega út á blaðamannafundi að hann ætlar ekki að hvíla leikmenn fyrir Liverpool leikinn á sunnudag, og kvaðst hann vilja byggja upp sigurhugarfar hjá leikmönnum. Eitt verkefni í einu. Þetta er líka kjörið tækifæri til þess að reyna trekkja Cole Palmer í gang. Chelsea verða þó án Malo Gusto, Wesley Fofana, Nkunku og Marc Guiu vegna meiðsla. Okkur þykir líklegt að Filip Jörgensen verði í markinu, Reece James í hægri bakverði, Marc Cucrella í vinstri. Það er líklegt að Chalobah og Tosin fái sénsinn í miðvarðastöðum, þó Badiashile gæti einnig startað. Miðjan verður líkast til Kiernan Dewsbury-Hall og Enzo Fernández með Cole Palmer í holunni. Tyrique George hlýtur að fá vinstri vænginn á meðan Jadon Sancho verði á hægri kantinum. Framherjastaðan er smá spurningarmerki, en líklegast startar Nico Jackson, en það myndi ekki koma á óvart ef Neto fengi traustið þar. Eins furðulegt og það er, þá virðist styrkleiki liða sem mæta okkur í þessum útslætti minnka. FCK var klárlega betra lið en Legia, þrátt fyrir tapið í seinni leiknum gegn þeim pólsku, þá myndi maður áætla að Legia eru betri en Djurgården. En það má ekkert vanmeta andstæðingana og æskilegast væri að strauja Svíana almennilega svo seinni leikurinn verði formsatriði, þar sem baráttan um meistaradeildarsæti í Úrvalsdeildinni er öllu mikilvægara mál. Pistlahöfundur ætlar að gerast svo djarfur að spá 4-0 sigri Chelsea. Cole Palmer brýtur ísinn sem hefur myndast um hann og setur tvö mörk. Jadon Sancho skorar golazo mark fyrir utan teig og Tyrique George laumar marki í skyndisókn. Er það ekki?


P.s. Við hjá CFC bendum lesendum á að horfa á The Overlap þáttinn þar sem Ruud Gullit er í viðtali. Þar kennir ýmissa grasa, en einkum sérstakt álit þess hollenska á ástandi klúbba sem hafa eigendur sem hugsa um fótboltaklúbb sem fyrirtæki frekar en fótboltaklúbb. Nokkrar bransasögur tengjast Chelsea líka þarna. Mjög skemmtilegt og fróðlegt viðtal. Áfram Chelsea!

 
 
 

Comments


  • Grey Google+ Icon
  • Grey Twitter Icon
  • Grey LinkedIn Icon
  • Grey Facebook Icon

© 2023 by Talking Business.  Proudly created with Wix.com

bottom of page