top of page
Search

Chelsea - Wolves

Keppni:  Premier League

Tími, dagsetning: 04.02 kl: 14.00

Leikvangur: Stamford Bridge

Dómari:  Tim Robinson

Hvar sýndur: Síminn sport 2 / Viaplay

Upphitun eftir:  Þráinn Brjánsson

Það er ekki hægt að segja að þessi pistill sé skrifaður af mikilli bjartsýni, en síðasti leikur liðsins gegn spræku liði Liverpool var einn sá versti sem okkar bláklæddu hafa spilað í seinni tíð. Annað eins metnaðar og andleysi hefur maður varla séð og hefur þó verið af nógu að taka undanfarin misseri. Ég veit að þetta eru ekki upphafsorð sem við viljum heyra en ég veit ekki hvernig maður gæti byrjað þetta öðruvísi. Það stefndi í fínann leik og menn að koma inn í liðið eftir meiðsli en svo runnu menn svo hressilega á rassgatið að maður hefur ekki séð annað eins síðan hundarnir drápust. Oft hefur maður horft upp á leiðindi en sjaldan eins átakanleg og í þessum leik og er þetta klárlega einn af þeim leikjum sem maður vill gleyma sem fyrst. Get ekki bent á einn einasta ljósan punkt og fóru leikmenn Liverpool með himinskautum á meðan okkar menn hlupu um eins og höfuðsóttarrollur og vissu hvorki í þennann heim né annan. Lokatölur urðu 4-1 og þó Nkunku hafi borað inn marki þá gladdi það mann nákvæmlega ekki neitt og nýjasti þátturinn af Heimsókn var miklu meiri skemmtun.


Ég veit hreinlega ekki hvað gæti orðið til þess að mótið verði klárað með snefil af reisn en Poch virðist gjörsamlega ráðalaus og ég trúi ekki að hann verði við stjórnvölinn næsta haust og held að hann sé búinn að sýna það og sanna að hann er ekki rétti maðurinn í þetta starf. Eitthvað róttækt þarf að gerast hjá okkar ástkæra liði og legg ég til eftirfarandi aðgerðir! Við ættum að losa okkur við Caicedo í sumar en hann hefur ekki sýnt nokkurn skapaðan hlut sem réttlætir veru hans í liðinu, en það verða væntanlega ekki mörg lið sem vilja hann því miður. Við höfum verið að ræða Lukaku floppið en ó mæ god hvað þetta er vandræðalegt. Mudryk er enn ekki klár á því hvar hann á að vera eða hvað hann á að gera og ekkert hægt að nota hann og Badashile á að fara lóðbeint á sölulistann og við þurfum að minnsta kosti tvo varnarmenn og eina markamaskínu ef eitthvað á að gerast. Það er hundleiðinlegt að vera svona gasalega neikvæður en svona blasir þetta við manni en nú þurfum við eins og einn góðann leik til að hífa upp móralinn og væntingarnar og sunnudagsleikurinn er gegn Wolves sem sitja í 11. sætinu með 29 stig en okkar menn verma það 10. með 31 stig. Það verður gaman að sjá hvernig Poch ætlar að mæta Úlfunum sem eru sýnd veiði en ekki gefin. Gestir okkar þennan sunnudaginn eru harðir í horn að taka og verða ekki auðveldir viðureignar. Eftir allt þetta svartsýnisraus er þó alltaf hægt að vona það besta og þó ekki væri annað en að sköllóttu dómarabölvuninni yrði aflétt.


Liðsuppstilling og spá:
Við smellum okkur beint í spána og Petrovic verður í rammanum og fyrir framan hann verða þeir Gusto, Silva, Disasi og Chilwell. Á miðjunni verða Enzo og Gallagher og þar fyrir framan þeir Palmer, Chukwuemeka og Sterling og fremstur verður Jackson. Nkunku fær mínútur og kemur til með að skora allavega eitt af 3 mörkum Chelsea en það verður væntanlega Neto sem skorar eina mark Úlfanna.


Áfram Chelsea!

bottom of page