Keppni: Enska úrvalsdeildin
Tími, dagsetning: Sunnudagur 5. maí kl: 13:00
Leikvangur: Stamford Bridge, Chelsea
Dómari: Andrew Madley
Hvar sýndur: Síminn Sport
Upphitun eftir: Hafsteinn Árnason
Það var aldeilis flugeldasýningin á Stamford Bridge þegar Tottenham Hotspur mættu í heimsókn. Chelsea liðið spilaði einn sinn besta leik á tímabilinu, og það með 14 leikmenn meidda og nánast einungis Cobham unglinga á bekknum. Ange Postecoglu var farinn að garga á leikmenn Tottenham í fyrri hálfleik fyrir að leika ekki boltanum fram á við. Mörkin hjá Chelsea voru sérlega glæsileg, þá sérstaklega skallamarkið hjá Trevoh Chalobah. Nicholas Jackson stóð sig frábærlega í leiknum og náði að pota inn marki í seinni hálfleik. Tottenham sáu aldrei til sólar í leiknum og voru ansi brothættir til baka. Skemmtilegt, að þrátt fyrir þetta vonbrigðatímabil, þá er það staðreynd að við unnum Tottenham í báðum leikjunum. Það er eiginlega hlægilegt og fyrri leikurinn okkar braut þeirra velgengni. Það er kannski einhver sárabót að geta hlegið að óförum annara þegar allt er í skrúfunni hjá okkur. Þessi sigur gerði það að verkum að við erum einungis þremur stigum á eftir Manchester United. Það ætti að vera markmið í sjálfu sér að enda ofar en það lið, og helst ná einhverju evrópusæti.
Framundan er leikur við West Ham. Fyrri leikurinn við West Ham var 20. ágúst - og í raun fyrsti tapleikurinn á tímabilinu. Carney Chukwuemeka skoraði flott mark en meiddist. Það mætti kannski segja að þarna hófst þessi katastrófa sem þetta tímabil hefur verið. Sá leikur endaði 3-1. Eigum við ekki að vona að þessi leikur marki endalaokin á þessum hremmingum? West Ham eru sannarlega ekki komnir í neitt frí. Þeirra tímabil hefur verið örlítil vonbrigði miðað við í fyrra. Liðið situr sæti aftar en Chelsea, en við eigum aukaleik inni. Það eru engar breytingar á meiðslalistanum þannig að það má búast fastlega við óbreyttu byrjunarliði frá því leiknum gegn Tottenham. Eina líklega breytingin gæti verið að Cesare Casadei geti komið inn í liðið fyrir einhvern leikmann, kannski Mudryk? Einnig vakti athygli innkoma Josh Acheampong fyrir Alfie Gilchrist í hægri bakvarðastöðuna. Sá er 17 ára gamall þannig að það má búast við öðru eins. Hann leit ágætlega út þær mínútur sem hann spilaði leikinn.
Annað er svo sem ekki mikið hægt að segja um þennan leik. Það er mjög mikilvægt að vinna hann til að halda þrýstingnum við að ná þessu blessaða evrópusæti eða hafa montréttinn yfir Manchester United aðdáendum. Hvernig fer leikurinn? Eigum við ekki að segja að hann fari 2-0 fyrir Chelsea? Jackson mun setja 12. markið sitt og Cole Palmer hlýtur að skora. Það eru komnir fjölmargir leikir síðan síðasta mark datt inn!
Áfram Chelsea!
Comments