Keppni: Enska úrvalsdeildin
Dag- og tímasetning: 21. desember 2020 kl. 20:00
Leikvangur: Stamford Bridge
Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport
Upphitun eftir: Árna St. Stefánsson
Inngangur
Síðast þegar undirritaður ritaði pistil fyrir leik gegn West Ham hófst hann á orðunum “Það er gaman að vera stuðningsmaður Chelsea þessa dagana. Liðið er flottu róli í deildinni…” Án þess að gerast of dramatískur þá er óhætt að segja að þess orð eiga ekki jafn vel í dag, nú þegar leikur gegn Hömrunum er á næsta leyti. Töpin gegn Everton og Wolves svíða óneitanlega sárt og kippa draumórastuðningsmönnum á borð við mig hressilega niður á jörðina, a.m.k. um sinn. Toppbarátta, tapleysi og “hrein lök” hafa allt í einu snúist upp í miðjumoð og súr töp. En nóg af væli, skæli, sorg og sút, það er leikur á morgun og hann skal vinnast.
Chelsea
Það er klárlega áhyggjuefni að Chelsea sé einungis búið að vinna lið í neðri hluta deildarinnar það sem af er tímabilinu. Vissulega er mikilvægt að ná sigrum gegn “lakari” liðunum og sem betur fer gefa þeir sigrar jafn mörg stig og aðrir sigrar en á móti eru það ákveðin vonbrigði að liðið sé ekki að ná betri úrslitum en raun ber vitni - lið með einn besta og breiðasta leikmannahóp í heimi (ekki reyna að halda öðru fram). Hafandi stutt Chelsea í ca. 30 ár og fengið að njóta ófárra sigranna og titlanna þá er maður eðlilega orðinn góðu vanur og væntingarnar eftir því. Chelsea FC er klúbbur sem á alltaf að stefna á alla titla sem í boði eru. Minnimáttarkennd gagnvart öðrum klúbbum á ekki að vera til umræðu. Stuðningsmenn ættu ekki gleyma því að Chelsea er sigursælasta lið Englands frá síðastliðin áratug, þ.e. hefur unnið titla en allir okkar keppinautar. Þessi staðreynd hefur að mér fundist átt það til að gleymast að undanförnu. Menn hafa dottið í skotgrafirnar og gripið í hinar og þessar afsakanir á borð við félagskiptabann og fleira. Svo þegar klúbburinn eyðir í heimsklassaleikmenn eins og enginn sé morgundagurinn þá “þarf þjálfarinn meiri tíma” og þar fram eftir götunum. Þvæla. Í tíð Roman hafa menn í brúnni einfaldlega þurft að ná árangri eða þeir eru farnir. Það sama ætti að gilda um Frank Lampard. Eflaust er einhver fegurð falin í því að gömul hetja klúbbsins snúi heim til að taki við stjórnartaumaunum og sóknarenkjandi fótbolta, en þegar á öllu er á botninn hvolft er sú fegurð innihaldslaus ef árangurinn lætur á sér standa. Roman hefur eftir því sem ég best veit ekkert breyst frá því að hann keypti klúbbinn í ágúst 2003 - hann vill titla númer eitt, tvö og þrjú.
En nóg af neikvæðni í bili. Á morgun er leikur nágrannaslagur gegn vinum okkar í Hömrunum og það dylst engum að sigur í þeim leik er bráðnauðsynlegur upp á framhaldið að gera, nú þegar jólatörnin og nýtt ár er framundan. Þá er að sama skapi afskaplega mikilvægt að snúa tveggja leikja taphrinu við með sigri. Eins og svo oft áður á tímabilinu á Lampard úr vöndu að velja þegar kemur að því að velja byrjunarliðið, sér í lagi nú þegar bæði Ziyech og Hudson-Odi hafa náð sér af meiðslum. Það er eitthvað sem segir mér að Lampard fari varfærnislega inn í leiknum á morgun og að byrjunarliðið verði þ.a.l. skipað reynslumeiri mönnum en ella.
West Ham
West Ham er eitt af þeim liðum sem hefur komið hvað mest á óvart það sem af er tímabilinu. Liðið situr í 10. sæti deildarinnar eins og er með þrjár sigra í síðustu fimm leikjum. Moyes má eiga það að hann virðist hafa náð að búa til ágætlega djúsi kjúklingasalat úr hálfgerðum kjúklingaskít. Hamrarnir virðast þó ansi brothættir og það má lítið út af bregða svo að ekki fari að halla verulega undan fæti hjá þeim. Þeir munu vafalaust mæta passífir til leiks á Brúnni annað kvöld og gera heiðarlega tilraun til að þreyta okkar menn með hægri og daunfúlri and-sknattspyrnu, en ef okkar menn ná inn marki þá gætu flóðgáttir opnast.
Spá
Okkar menn eru allan daginn að fara með sigur af hólmi gegn Hömrunum. Giroud heldur áfram að sanna mikilvægi sitt og setur tvö mörk k og Pulisic og Ziyech bæta svo við mörkum í lokin. 4-0 sigur og Roman býður kampavín og kavíar á línuna eftir leik.
KTBFFH
- Árni Steinar
Comments