Keppni: Enska Úrvalsdeildin
Dag- og tímasetning: Laugardagurinn 3. apríl kl 11:30
Leikvangur: Stamford Bridge
Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport og Ölver Sportbar
Upphitun eftir: Þór Jensen
Chelsea tekur á móti fallandi nýliðum West Bromwich Albion í hádegisleik á Brúnni eftir landsleikjahlé sem var alltof lengi að líða. Margir leikmenn Chelsea spiluðu stóra rullu með sínum landsliðum, þ.á.m. Mount, James og Chilwell fyrir England, Rüdiger, Havertz og Werner fyrir Þýskaland, Kanté og Giroud fyrir Frakka, Kovacic fyrir Króata, Pulisic fyrir Bandaríkin, Ziyech fyrir Morocco og Christensen fyrir Dani. Callum spilaði fyrir U21 árs lið Englendinga og meiddist lítillega en er orðinn heill fyrir næsta leik.
Mendy og Jorginho spiluðu ekki með sínum liðum. Mendy vegna tannaðgerðar og Jorginho vegna lítillegra meiðsla en verða báðir heilir fyrir laugardaginn.
N’Golo Kanté meiddist aftan á læri í landsleik Frakka og verður ekki með gegn West Brom. Fyrir utan meiðsli Kanté sluppum við furðulega vel úr þessu landsleikjahléi þegar tekið er tillit til meiðsla, nú skulum við bara vona að enginn komi til baka til Cobham smitaður af Covid.
West Brom eru gott sem fallnir út deildinni með 18 stig eftir 29 leiki og 10 stig í öruggt sæti. Big Sam virðist ekki vera að ná að bjarga þeim frá falli líkt og hann hefur gert með svo mörg lið í gegnum árin, en liðið spilar þó ágætan fótbolta á köflum og hafa náð að kroppa stig af topp liðunum í deildinni, eins og City, Liverpool og auðvitað af okkur í 3-3 jafnteflinu í fyrri leik liðana, þar sem West Brom leiddi 3-0 í hálfleik. Sem betur fer hefur varnarleikurinn okkar tekið stakkaskiptum síðan þá, sérstaklega eftir að Tuchel tók við liðinu og hefur liðið haldið 12 sinnum hreinu í síðustu 14 leikjum og fyrir afrek sín í fyrstu 14 leikjum sínum með liðið var Tuchel valinn þjálfari marsmánaðar í Premier League.
Ljóst er að West Brom liðið mun liggja þétt til baka gegn okkar mönnum og verjast á mörgum mönnum. Það verður þolinmæðisverk að brjóta þá á bak aftur og það verður ekki auðvelt. Ég spái því að Chelsea verði í kringum 65-70% með boltann í leiknum og West Brom munu reyna að beita skyndisóknum þegar að við missum boltann.
Timo Werner greyið hefur verið aðhlátursefni netmiðla síðan hann klúðraði algjöru dauðafæri í tapi Þjóðverja gegn Norður-Makedóníu og ég held að hann verði hvíldur í næsta leik. Fyrir mér er Oliver Giroud rétti maðurinn til að leiða línu Chelsea í þessum leik þar sem West Brom mun verjast aftarlega á vellinum og við munum dæla mörgun boltum inn í teiginn. Með honum frammi verða Mason Mount og Hakim Ziyech. Jorginho og Kovacic munu mynda miðjuparið og James og Alonso, sem fékk góða hvíld í landsleikjaglugganum verða í vængbakvörðum. Varnarlínuna mynda svo Rüdiger, Christensen og Azpiliqueta, en þó tel ég ágætar líkur á að Faðir vor, Thiago Silva, byrji sinn fyrsta leik eftir meiðslin gegn Tottenham. Í markinu verður heimakletturinn Mendy.
Okkar maður, Conor Gallagher, verður ekki með West Brom gegn okkur og munu þeir sakna hans mikið enda lykilmaður í þeirra liði.
Ég spái Chelsea 2-0 sigri með mörkum frá Mason Mount og Oliver Giroud.
KTBFFH
Þór Jensen
Comentários