top of page
Search

Chelsea vs. Tottenham - 4. sætið undir á Stamford Bridge


Keppni: Enska Úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: 22. febrúar 2020 kl. 12:30

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport, beIN Sports HD, Sky Sports 1 HD ofl.

Upphitun eftir: Markús Pálma Pálmason



Chelsea

Ég get náttúrunlega aðeins talað fyrir sjálfan mig en treysti á að að við séum flest öll enn að jafna okkur á ósanngjörnu tapi gegn Manchester United, á heimavelli, í seinasta leik. Anthony Taylor, einn þekktasti dómari Ensku Úrvalsdeildarinnar, dæmdi nánast ekkert með okkur í þessum leik og það voru ekki aðeins mörk tekin af okkur, heldur átti fyrirliði United að fá rautt spjald fyrir ljótt spark í klofið á Batshuayi. Þessi umtalaði fyrirliði skoraði svo seinna mark rauðu djöflanna og má í raun skrifa þetta tap á mjög marga mismunandi þætti, hvort sem það er spilið okkar, dómgæslan eða spil Manchester United. Skemmtilegur fótbolti, hraður leikur og skipulagður varnarleikur hjá gestunum einkenndi þennan leik en öll 3 stigin hurfu til Manchester borgar.

Staðan hjá okkur hefur verið betri. Góð fréttirnar eru hins vegar þær að Ruben Loftus-Cheek er í leikmannihópi Chelsea og gæti mögulega komið inn af bekknum. Tammy Abraham var frá í seinasta leik en óvíst er hvort hann nái leiknum á morgun. Callum Hudson-Odoi og Pulisic eru enn meiddir en stærsti skellurinn hlýtur að vera það að við missum Kante. Kante meiddist eftir aðeins 12 mínútur gegn Man Utd og er mikil sorg í mínu hjarta að við fáum hann ekki strax aftur.



Ég sé fram á það að Lampard muni ekki breyta neinu nema því sem hann þarf. Spurning með hvort að Kepa fái séns og snúi aftur en ég held þetta haldist einhvern veginn svona. Willy fær rammann, Azpi, Reece James, Rudiger og Zouma byrja í marki og vörn. Jorginho, Kovacic og Mount taka miðjuna. Willian og Pedro fá kantana en frammi fær Giroud að byrja, loksins. Maðurinn skoraði í seinasta leik, þó markið hafi verið dæmt af, en hann fær sénsinn fram yfir Batsmann að mínu mati.


Tottenham Hotspur

Tottenham tapaði seinasta leik, gegn RB Leipzig, eftir að hafa unnið 3 leiki í röð. Þeir tóku City og Aston Villa í deildinni og slógu Southampton úr bikarnum í þessum mánuði. Hins vegar eru góðu fréttirnar fyrir okkur þær að Harry Kane og Heung-min Son eru báðir meiddir. Það gæti verið jákvætt fyrir okkur að tveir helstu markaskorarar Tottenham eru meiddir.

Leikmenn Spursara sem hafa verið að standa sig í þeirra fjarveru eru náttúrunlega líka mjög sterkir og hættulegir en Giovani Lo Celso, Steven Bergwijn, Dele Alli og Lucas Moura geta allir skapað sér færi og klárað þau sjálfir, þannig við þurfum að passa okkur vel á þeim því þeir gætu komið okkur á óvart í þessum leik. Stærsti punkturinn að mínu mati er að við þurfum að passa að fara ekki fram úr okkur og halda haus, því strax og við missum niður tempóið eigum við í hættu á að fá á okkur ódýrt mark.


Spá

Okkur hefur gengið erfiðlega í seinustu leikjum, og það getur verið erfitt að koma tilbaka í leikjatörn eins og við erum í núna. Síðustu leikir okkar í deildinni hafa endað í tapi gegn Man Utd, jafntefli gegn Leicester, jafntefli gegn Arsenal, tap gegn Newcastle og sigur gegn Burnley. Ekki bestu úrslit í seinustu leikjum, en heldur ekki það versta sem hefði getað gerst. Lampard er enn reynslulítill stjóri og hópurinn er nokkuð reynslulaus þegar á heildina er litið en ég trúi enn á liðið og vona að aðrir geri það líka.


Ég trúi því að fyrsta heimsókn Jose Mourinho á Brúnna sem stjóri Spurs verðskuldi alvöru HÖRKULEIK. Mikil ákefð, mikil pressa og flottur fótbolti er það sem ég mun biðja um fyrir svefninn í kvöld. Mourinho er þekktur fyrir að spila mikinn varnarleik og þá er lítið annað í stöðunni en að vera skipulagðir á miðjunni, til þess að létta af pressuna af vörninni, og spila sóknarmönnum hátt upp þannig að þegar þeir fá boltann, eins og kantmenn og bakverðir, þá geti þeir dælt fyrirgjöfum inn á Olivier Giroud. Þá endar þetta í stórsigri okkar manna! Mín spá er 2-0 fyrir okkur og Giroud skorar bæði mörkin!

bottom of page