Keppni: Enska Úrvalsdeildin.
Dag- og tímasetning: Annar dagur jóla, miðvikudagur 26. desember kl: 15:00.
Leikvangur: Stamford Bridge.
Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport 3, beIN Sports HD11, Amazon Prime Video (UK) o.fl. (sjá nánar: https://www.livesoccertv.com/match/3329050/chelsea-vs-southampton/).
Upphitun eftir: Elsu Ófeigsdóttur.
Chelsea
Gleðilega hátíð öll sömul!
Jólin komu svo sannarlega snemma í ár. Þvílík frammistaða gegn Tottenham. Það gerði sigurinn enn sætari að Móri skyldi vera að stýra þeim. En einmitt þarna, í þessum leik, sýndu leikmennirnir hversu góðir þeir geta verið. Það var sniðugt af Lampard að breyta leikkerfinu í 3-4-2-1, enda virtist það koma Tottenham mönnum nokkuð á óvart. Frábær frammistaða okkar manna í þessum leik hefur reyndar fallið í skuggann af umræðum um kynþáttafordóma og rauð spjöld. Hvað rauða spjaldið varðaði þá er það mín persónulega skoðun að það hafi átt rétt á sér. Hvort sem þetta hafi verið óviljandi hjá Son eða ekki, það má ekki opna á svona - annar fóturinn var nú bara við djásnin hans Rudigers, og mér skilst að það sé mjög sársaukafullt þegar sparkað er í þessar dýrmætu kúlur. Ég viðurkenni það fúslega að ég öskraði aðeins á sjónvarpið og beið eftir rauðu spjaldi á Gazzaniga eftir glórulaust karatespark hans sem endaði í árekstri við Alonso. Mér fannst þetta jaðra við líkamsárás við fyrstu sýn og hélt að þarna ætluðu Tottenham-menn sér endanlega að gera út af við manninn.
Eins og hann þurfi ekki að þola nóg nú þegar frá stuðningsmönnum Tottenham! En að skemmtilegri hlutum. Mount spilaði allan leikinn og gat faðir hans potað aðeins í Móra á Twitter eftir gagnrýni þess síðarnefnda á Mason frá því í upphafi tímabilsins.
Næsti andstæðingur er Southampton og hefur Chelsea mætt þeim 17 sinnum í ensku Úrvalsdeildinni. Okkar menn hafa unnið ellefu sinnum en Southampton aðeins tvisvar, seinast árið 2015. Sú tölfræði hefur reyndar lítið að segja enda aldrei að vita hvað gerist þegar út á völlinn er komið. Það verður þó forvitnilegt að sjá hvernig Lampard muni tækla Southampton sem spila vanalega 4-4-2. Ég eiginlega vonast til að hann spili áfram 3-4-3 og tel að það gæti einnig hentað mjög vel þar sem Azpilicueta er tæpur fyrir þennan leik. Flest allir aðrir leikmenn eru leikfærir. Loftus-Cheek er ekki væntanlegur fyrr en í janúar og við hlökkum auðvitað öll til þeirrar endurkomu.
Að mögulegu byrjunarliði. Eins og áður sagði þá vonast ég til og mun spá því að Lampard tefli aftur fram 3-4-3. Kepa auðvitað í markinu. Zouma, Tomori og Rudiger öftustu þrír. James hægri wing-back og Alonso vinstri. Kante og Jorginho á miðjunni, Mount og Odoi á köntunum og Abraham frammi. Willian hefur staðið sig frábærlega undanfarið og á svo sannarlega skilið sæti í byrjunarliðinu en ég ætla að skipta honum út fyrir Odoi í minni spá en reikna með honum ferskum inn á í seinni hálfleik til að setja eitt mark. Það er líka mikilvægt að nýta hópinn vel því leikjaálagið er gríðarlega mikið um þessar mundir.
Southampton:
Lærisveinar Ralph Hasenhüttl í Southampton sitja í 17. sæti deildarinnar með 18 stig, þremur stigum meira en Aston Villa í 18. sæti. Þeir unnu einmitt sannfærandi sigur gegn Villa í seinustu umferð 1-3. Það má því alveg reikna með vel stemmdum Southampton mönnum sem ætla sér að komast í öruggt skjól frá fallsætunum.
Nokkrir leikmenn Southampton sem vert er að hafa auga með í leiknum eru meðal annars einn heitast framherjinn í deildinni, Danny Ings, hann skoraði tvö mörk í seinasta leik gegn Aston Villa og ætti því að hafa sjálfstraustið í lagi fyrir þennan leik. Þá gæti framherjinn Shane Long átt eitthvað inni en hann skoraði einmitt hraðast mark sem hefur verið skorað í ensku deildinni 23. apríl sl. en þá skoraði hann eftir 7,69 sekúndur. Að lokum langaði mig að nefna bakvörðinn og fyrrum leikmann Chelsea Ryan Bertrand en hann fór til Southampton sumarið 2014. Bertrand þessi spilaði sinn fyrsta leik fyrir Chelsea í úrslitaleik Meistaradeildarinnar gegn Bayern München árið 2012. Draumabyrjun fyrir þann leikmann.
Það gerður margir ráð fyrir því að Hasenhüttl yrði látinn taka pokann sinn eftir útreiðina sem Southampton fékk gegn Leicester City fyrr í vetur. Forráðamenn Southampton ákváðu að halda sig við Austurríkismanninn sem virðist hafa náð að kveikja góðan neista hjá sínum mönnum og koma þeir inn í þennan leik á fínu skriði með þrjá sigurleiki í síðustu fimm leikjum.
Spá:
Southampton eru eitt af þessum liðum sem mér finnst við alltaf eiga að vinna en eftir rússíbanagengið undanfarið er aldrei að vita hver úrslitin verða. Ég ætla þó að spá sigri, 2-1. Abraham og Willian með sitt hvort markið.
KTBFFH
Comments