top of page
Search

Chelsea vs Sheffield Utd - uphitun


Keppni: Enska Úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: Laugardaginn 31. Ágúst 2019 kl. 14:00

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur: Síminn Sport í opinni dagskrá

Upphitun eftir: Sigurð Torfa Helgason


Chelsea

Laugardaginn fyrir viku síðan kom okkar fyrsti sigur á tímabilinu og var hann alveg lífsnauðsynlegur fyrir alla sem tengjast klúbbnum. Tammy kom sterkur inn og setti tvö mörk eftir erfiða daga undanfarið hjá honum. Að auki voru þetta fyrstu mörk hans fyrir félagið. En ´´the man of the moment´´ það sem af er leiktíðar er klárlega Mason Mount. Hann skoraði sitt annað mark í deildinni eftir góðan undirbúning frá Christian Pulisic. En þó svo að það hafi verið gríðarlega góð tilfinning að fá þessi þrjú stig þá hefur maður ennþá áhyggjur af varnarleiknum en þegar Kante og Rudiger eru orðnir heilir þá ættu raðirnar okkar að þéttast til muna.


Það verður athyglisvert að sjá hvernig Lampard mun stilla upp miðjunni í þessum leik. Það er töluvert um meiðsli í liðinu og margir leikmenn tæpir. Ef Pedro hefði byrjað leikinn gegn Norwich þá hefðu uppstillingin að öllum líkindum verið 4-2-3-1. En Ross kom inn og þá var stillt upp í 4-3-3. Ég hef á tilfiningunni að Lampard reyni aftur við 4.2-3-1 í þessum leik. Vörnin mun að ölum líkindum vera óbreytt þar sem Rudiger er ekki kominn í nógu gott leikform, en hann verður að öllum líkindum í hóp.


Ef Kante er heill þá kemur hann bókað mál í liðið en á kostnað hvers er ég ekki alveg viss því Kovacic var gríðarlega sterkur í leiknum gegn Norwich. Pedro tognaði aftan í læri í upphitun fyrir leikinn gegn Norwich og eru ekki komnar neinar fréttir um hvenær hann verður klár, líklega þó ekki fyrr en eftir landsleikjahléið. Ég held að þetta sé tilvalinn leikur til að koma Willian í smá leikform og myndi ég byrja hann Pulisic á köntunum með Mount fyrir aftan Tammy. Mount fór meiddur af velli gegn Norwich en hann æfði af fullum krafti á fimmtudag og verður vonandi klár í slaginn. Þess ber að geta að Mount var valinn í enska landsliðið í vikunni og undirstrikar það hversu gríðarlega vel hann hefur verið leika í byrjun tímabilsins. Fari svo að bæði Mount og Kanté geti ekki spilað verður miðjan líklega sjálfvalin af þeim Jorginho, Kovacic og Barkley.


Sheffield United

Ég get ekki sagt að ég sé mikill viskubrunnur hvað varðar vitneskju mína um þetta Sheffield United lið. Ég lít á leikmannahópinn og í fljótu bragði þá sé ég ekki mikla Premier League reynslu. Eitt nafn sem náði athygli mína er Billy Sharp. Reynslumikill framherji á Championship leveli og fyrirliði liðsins, en hann var á bekknum í síðasta leik hjá þeim gegn Leicester.


Þjálfari liðsins heitir Chris Wilder. Hann er búinn að vera í harkinu í neðri deildunum í tæp 20 ár. Eftir þrjú góð ár með Northampton Town fékk hann kallið frá Sheffield United þegar liðið var í League 1. Wilder er heimamaður og var stuðningsmaður Sheffield Utd í æsku þannig tengin hans við klúbbinn er mikil og er hann gríðarlega vinsæll meðal stuðningsmanna Sheffiled Utd. Hér er greinilega um að ræða nokkuð fær enskur þjálfari frá gamla skólanum.


Sheffield menn reyndu að styrkja sig aðeins fyrir komandi átök í ensku Úrvalsdeildinni og eyddu um 40 milljónum punda í nýja leikmenn. Bróðurparturinn af þeirri upphæð fór í að sækja framherjana Lys Mousset frá Bournemouth og Oliver McBurnie frá Swansea en þeir kostuðu samtals um 25 milljónir punda. Einnig tók Wilder þá umdeildu ákvörðun um að gefa vandræðagemsanum Revel Morrison samning en margir muna eftir honum sem einum efnilegasta leikmanni heims er hann var hjá Man Utd.

Fyrir umferðina situr Sheffield United liðið í 9 sæti deildarinnar með fjögur stig. Nokkuð góð byrjun á tímabilinu hjá þeim. Síðasti leikur liðssins var gegn Leicester þar sem þeir biðu lægri hlut 1-2. Þeir stóðu vel í liði Leicester en það var ekki fyrr en á 70 mínútu sem sigurmarkið kom.


Spáin

Ef allt er eðlilegt þá ætti þetta að vera þægilegur dagur á skrifstofunni hjá okkar mönnum. Emerson mun koma liðinu yfir á 12 mínútu. Tammy Abraham mun koma liðinu í 2-0 með skoti utan teigs á 32 mínútu. Sheffield mun minnka muninn á 59 mínútu. Og svo mun Oliver Giroud loka þessum leik á 82 mínútu með góðu skallamarki.

Comments


bottom of page