top of page
Search

Chelsea vs. Sheffield United

Keppni: Enska Úrvalsdeildin.

Dag- og tímasetning: Laugardagurinn, 7. nóvember kl. 17:30.

Leikvangur: Stamford Bridge.

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport, Sky Sports o.fl.

Upphitun eftir: Elsu Ófeigsdóttur.Chelsea

Seinasti leikur Chelsea fyrir landsleikjahlé er gegn Sheffield United á Brúnni á laugardag. Bláu strákarnir okkar hafa átt góðu gengi að fagna undanfarið. Þeir hafa haldið hreinu í síðustu fimm leikjum og skorað tíu mörk. Sjálfstraustið ætti því að vera í hæstu hæðum og við vonumst að sjálfsögðu eftir áframhaldandi velgengni þegar við mætum Sverðunum (The Blades).


Seinasta vika var góð fyrir okkar menn. Þeir áttu góðan leik gegn Burnley. Það var verulega gaman að fylgjast með samspili liðsins, bæði sóknar- og varnarleikur liðsins voru til fyrirmyndar. Burnley átti fremur slakan leik sem lét okkur svo líta enn betur út. Ziyech skoraði fyrsta markið eftir stutta sendingu frá Abraham. Hann (Ziyech) hefur komið vel inn í hópinn. Ég skil núna hvers vegna stuðningsmenn voru margir hverjir svona spenntir fyrir honum. Léttur, fljótur, skapandi og skemmtilegur leikmaður, auk þess virðist ávallt vera stutt í brosið hjá honum. Zouma hefur heldur betur sprungið út við hlið Silva og hefur einnig gert það gott í sóknarleiknum en hann skoraði annað mark liðsins gegn Burnley með frábærum skalla eftir hornspyrnu frá Mount. Zouma hefur skorað þrjú mörk í sex leikjum. Áfram Zouma!


Við áttum einnig leik gegn Rennes í Meistaradeildinni í vikunni. Þrátt fyrir að við höfum verið betri aðilinn þá eyðilagði það leikinn svolítið að Dalbert skyldi fá annað gula (og rautt) fyrir hendi-vítadóminn. Ég, eins og fleiri, finn til með stráknum og reikna með þeim dýrvitlausum og í hefndarhug þegar við mætum þeim í Rennes 24. nóvember nk. Mér fannst við reyndar ekki vera að eiga okkar besta leik svona heilt yfir. Mér fannst Chilwell til dæmis vera að eiga með slakari leikjum fyrir okkur – en ég er reyndar búin að fylgjast með honum gjörsamlega hugfangin síðan hann byrjaði að spila fyrir okkur og hef nánast gleymt gamla vinstri bakverðinum okkar með fallega hárið. Chilwell hefur spilað fjóra leiki fyrir okkur í ensku deildinni, skorað eitt mark og átt tvær stoðsendingar. Það er varla hægt að ætlast til þess að bakvörður sé með svona tölfræði út tímabilið, er það? En það má vona. James átti einnig frábæran leik eins og Werner og Mount, þá var Kante einnig góður í leiknum. Mér fannst varnarleikur okkar eiga undir högg að sækja svona 10-15 mín. eftir að Silva var tekinn út af, þá var einsog „Silva-áhrifin“ væru búin í vörninni. Silva er klárlega með mikilvægustu „kaupum“ okkar í sumar. Þessi yfirvegun sem er komin í varnarlínuna hjá okkur er frábær, ég er allavega hætt að missa hjartað í buxurnar í föstum leikatriðum gegn okkur. Það var svo óvænt ánægja að sjá Giroud loksins fá mínútur á vellinum. Sá franski skoraði ekki að þessu sinni en komst iðulega nálægt því þegar hann fékk boltann í teig andstæðingsins.


Þetta er kannski að verða óþarflega langt hjá mér en það eru bara svo margir sem eiga skilið að vera nefndir sérstaklega en það er líklega óþarfi að telja upp megnið af liðinu. Þetta er nýtt lúxusvandamál við ritun upphitunarpistils. Leikmannahópurinn okkar hefur eflst töluvert við viðbótina eftir sumarið og er gaman að sjá hvað það virðist vera góður mórall í hópnum. Breidd hópsins hefur komið vel í ljós og eru fleiri en einn topp leikmaður um flestar stöður.


Nokkrir leikmenn munu þó ekki vera í leikmannahópnum sem mætir Sheffield en það eru Kai Havertz, Christian Pulisic, Kepa Arrizabalaga og Billy Gilmour. Kai Havertz greindist með Covid-19 fyrir leikinn gegn Rennes og er í einangrun. Hæfileikar hans eru óumdeilanlegir og gleðja svo sannarlega augað. Hann hefur því miður sýnt einhver einkenni vírussins. Við óskum honum góðs og skjóts bata, vonandi snýr hann aftur á völlinn sem fyrst. Þá er Christian Pulisic enn tæpur vegna meiðsla á aftari lærvöðva sem hann hlaut í upphitun fyrir leikinn gegn Burnley um seinustu helgi. Talið er að hann verði orðinn góður eftir landsleikjahléið. Hinn ungi og efnilegi Skoti, Billy Gilmour, er að koma til baka eftir að hafa farið á aðgerð á hné í sumar. Hann tók þátt í æfingu með Kante, Jorginho, Havertz og Werner fyrir Burnley leikinn og er reiknað með að hann geti jafnvel verið kominn í leikmannahópinn í þessum mánuði. Elsku spænski markmaðurinn okkar hann Kepa er að glíma við meiðsli í öxl sem hann hlaut við æfingar. Samkvæmt nýlegum fréttum er hann á réttri leið en það gæti tekið nokkurn tíma fyrir hann að ná góðu leikformi.


Þá er það spurning um hvaða byrjunarliði Lampard muni stilla upp. Varnarlínan virðist vera komin hjá okkur og ég held henni óbreyttri frá seinasta leik. Mendy – James – Silva – Zouma – Chilwell. Ég set þetta upp í 4-3-3 kerfi: Mount, Kante og Jorginho á miðjunni. Odoi og Ziyech skiptast á sitt hvorum sóknarvængnum og Werner frammi.Sheffield United

Sheffield Utd situr í 19. sæti deildarinnar með heilt eitt stig og hefur liðið ekki unnið leik síðan í september þegar þeir unnu Derby með tveimur mörkum gegn engu í vináttuleik. Sheffield hefur aðeins skorað þrjú mörk í sjö leikjum en fengið á sig tíu. Það hlýtur að teljast agaleg tölfræði fyrir hvaða lið sem er. Ég kíkti aðeins á leik Sheffield United gegn Manchester City í seinustu umferð og var sá leikur eiginlega einstefna að marki Sheffield. Það er líklega til marks um varnarleikinn að City náðu aðeins að skora eitt mark úr þessum átta skotum sem þeir hittu á rammann, í heildina voru skotin þeirra sextán. Sheffield átti aðeins þrjú skot að marki City og hitti aðeins eitt þeirra á rammann. En nokkrum leikmönnum Sheffield tókst þó að eiga ágætis tölfræði í leiknum. Hann McGoldrick var með 100% sendingahlutfall og átti flestar sendingar inn á hættuleg svæði andstæðingsins. Þá vann varnarmaðurinn McBurnie sjö skallaeinvígi í leiknum og varnarmaðurinn Stevens komst inn í tíu sendingar City. Hann lék reyndar sama leik gegn Liverpool í umferðinni á undan, þ.e. að komast inn í tíu sendingar andstæðingsins. Okkar lánsmaður í Sheffield, Ethan Ampadu, hefur staðið sig vel og er á topp 3 yfir blokkeraðar sendingar/ fyrirgjafir, hann er með þrjár blokkeringar. Annar maður sem er duglegur í hættulegum sendingum er miðjumaður John Fleck en hann er á toppnum þar hjá Sheffield. Úr því ég nefndi markahlutfall Zouma á hvern leik að meðaltali fyrr í pistlinum þá er gaman að segja frá því að framherjinn Billy Sharp hefur „aðeins“ skorað 0,33 mörk að meðaltali í leik það sem af er tímabils. Öll þessi tölfræði gefur til kynna að Chelsea eigi að valta yfir þennan andstæðing.


Spá

Þrátt fyrir miklar væntingar finnst mér nauðsynlegt að mæta hverjum andstæðing með virðingu og ganga ekki að sigrinum sem vísum. Ég mundi að sjálfsögðu helst vilja sjá okkar menn mæta gallharða og jarða Sheffield strax í fyrri hálfleik. En út frá leik Sheffield gegn Man.City tel ég það geta verið mikilvægt að sýna þolinmæði og vera skapandi í sóknarleiknum. Sjö skot City á rammann fóru forgörðum og það sama gæti gerst hjá okkur. Ég hef reyndar fulla trú á þessum flotta hópi leikmanna og held að þetta verði öruggur sigur í London. Ég spái þægilegum 5-0 sigri, markaskorararnir verða Werner (2), Abraham [varamaður], Odoi og James.

Komentar


bottom of page