top of page
Search

Chelsea vs. Liverpool - Upphitun

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: 22. september kl 15:30

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn sport og Sky Sports Main Event/Premier League

Upphitun eftir: Þór Jensen


Eftir svekkjandi byrjun á Meistaradeild Evrópu snúum við á nýjan leik í uppáhalds deildina okkar allra og bestu deild í heimi, ensku Úrvalsdeildina. Framundan er stærsta áskorun Frank Lampard á sínum þjálfaraferli, stórleikur við Evrópumeistara Liverpool á brúnni. Bæði lið þurftu að líta í lægri hlut á þriðjudag en Liverpool tapaði aftur fyrir Napoli á útivelli, líkt og í fyrra. Chelsea stuðningsmenn fengu frábærar fréttir á fimmtudag en vonarstjarna okkar Callum Hudson-Odoi hefur skrifað undir glænýjan 5 ára samning við Chelsea sem fjölmiðlar segja að hljóði upp á 120.000 pund á viku, frábært fyrir kauða og frábært fyrir okkar klúbb, þessar fréttir komu á góðum tíma fyrir okkur stuðningsmenn.


Leikurinn gegn Valencia var vægast sagt mikil vonbrigði fyrir okkur stuðningsmenn Chelsea. Það sló þögn á Stamford Bridge þegar Mason Mount varð fyrir hörmulegri tæklingu Francis Coquelin og fór meiddur útaf stuttu seinna. Coquelin hefur greinilega ekki enn jafnað sig eftir það hvernig Eden Hazard fór með hann í stórkostlegu marki sínu gegn Arsenal um árið og ætlaði svo sannarlega ekki að láta það koma fyrir sig aftur. Líklega var þetta nú ekki vilja verk hjá kauða en eitt er víst að tæklingin var skelfileg og að mínu mati verðskuldaði hún rautt spjald. Sem betur fer er Mount ekki illa meiddur og gæti mögulega, skv. ummælum Lampard á síðasta blaðamannafundi, spilað á sunnudag.


Lampard setti Pedro inn á í stað Mount, líklega vegna reynslu hans í Meistaradeildinni. Eftir að Mount fór útaf var eins og slökkt hefði verið á allri sköpunargáfu Chelsea liðsins. Sóknaraðgerðir okkar voru hægar og fyrirsjáanlegar, stundum eins og slæmt Déjá vu frá versta tímabili Sarri hjá Chelsea þegar boltanum var fleitt frá hægri til vinstri og aftur til baka án þess að skapa nokkurn skapaðan hlut.


Willian virtist vera sá eini sem þorði að reyna, hann átti nokkra góða spretti og kom sér í álítlegar stöður en lokaafurðin var aldrei nægilega góð. Þetta höfum við séð alltof oft frá Willian. Nokkrum sinnum hefði hann getað fundið Pedro dauðafrían en ákvað að skjóta eða taka aðra snertingu sem eyðilagði tækifærið. Sjá mynd hér að neðan til dæmis.


Talandi um Pedro, þá gat hann nákvæmlega ekki neitt í þessum leik og var nánast ósýnilegur bróðurpart leiksins. Fyrir mér er Pedro ekki lengur leikmaður sem getur spilað heilann leik fyrir Chelsea, hann á það til að hverfa og láta lítið sem ekkert til sín taka þó hann sé frábær leikmaður til að skipta inn á þegar 15-20 mínútur eru eftir til að sprengja upp varnir þreyttra andstæðinga. Þess vegna hefði ég viljað sjá Lampard setja Pulisic inn í stað Pedro, sem hefði getað komið inn síðar í leiknum.


Valencia gerðu vel í því að halda sóknarleik okkar í skefjum en sköpuðu sér lítið sjálfir. Á 74. mínútu brutu gestirnir múrinn og enn og aftur fáum við á okkur mark úr föstu leikatriði. Erfitt að kenna einhverjum einum um en liðið þarf að bæta sig í að verjast föstum leikatriðum, reyndar þurfum við að bæta okkur í að skora úr þeim líka.


Eftir markið færðist meira líf í leikinn og okkar menn sóttu harðar og á fleiri mönnum sem endaði með vítaspyrnudómi eftir langa VAR athugun. Ross Barkley gekk rakleiðis að boltanum og setti hann á punktinn nánast áður en dómarinn benti á punktinn. Eins og eflaust flestir stuðningsmenn hélt undirritaður að Jorginho væri vítaskytta númer 1 hjá Chelsea þar sem hann hefur verið afar öruggur á punktinum með Chelsea og skorað úr 13 af 14 vítaspyrnum á ferlinum, ansi góð tölfræði. Barkley stóð hins var harður á sínu á meðan Willian og Jorginho reyndu að sannfæra hann um að láta sig taka spyrnuna. Meira að segja var Tammy Abraham kominn inn í spilið en hann virtist nú frekar vera að hvísla ráðum í eyra Barkley. Eins og við öll vitum tók Barkley slaka spyrnu sem fór í slánna og yfir.


Áður en við krossfestum Ross Barkley fyrir þetta klúður, munum að það geta allir klúðrað vítaspyrnu hvort sem þeir heita Cristiano Ronaldo, Eden Hazard, Frank Lampard eða Ross Barkley. Lampard sagði í blaðamannafundi eftir leik að það væri enginn vafi á að Barkley væri vítaskytta nr. 1 og þegar hann kæmi inn á tæki hann vítin. Það virtist hins vegar ekki svo ljóst fyrir Jorginho og Willian, sem settu kárlega aukna pressu á Barkley með því að þjarma að Barkley og reyna að sannfæra hann um að taka ekki spyrnuna sjálfur. Atvikið minnti óþægilega mikið á vandræðalegar rökræður Rashford og Pogba um hvor tæki víti Manchester United á dögunum.


Fyrir mér er aðal skúrkurinn í þessu máli fyrirliði okkar, Cesar Azpilicueta. Hvar var hann þegar fjórir leikmenn stóðu yfir boltanum og rökræddu um hvor ætti að taka vítið? Hvað var hann að gera þessar mínútur sem það tók dómarann að skoða myndbandsupptökur og ákveða dóm sinn? Þarna hefði hann átt að vera mættur, standa upp sem fyrirliði og setja fót sinn niður og segja að Barkley sé fyrsta vítaskytta og hann taki vítið eða taka boltann af Barkley og segja að Jorginho taki vítið þar sem Barkley er tiltölulega nýkominn inn á og ekki æskilegt að hann taki vítið. Azpilicueta brást sem fyrirliði á þriðjudag og hann brást sem fyrirliði á móti Manchester City í deildarbikarnum á seinasta tímabili þegar Kepa neitaði að fara útaf. Ég velti því fyrir mér hvort það sé ekki einhver annar leikmaður hæfari í þetta hlutverk en hann og fyrst í huga kemur Antoni Rüdiger, en hvort skynsamt sé að skipta um fyrirliða á miðju tímabili eða ekki veit ég ekki.


Til að enda umræðuna um þennan leik á jákvæðum nótum þá verður maður að hrósa Fikayo Tomori fyrir sína frammistöðu. Þvílíkur leikmaður sem við erum að sjá taka sín fyrstu skref fyrir klúbbinn í fullorðinna manna fótbolta. Hraðinn, styrkurinn og öryggi hans á boltanum eru þættir sem er unaðslegt að horfa á. Öruggur í öllum sínum aðgerðum og spilar eins og miklu reynslumeiri leikmaður.


Okkar menn verða núna að rífa sig upp og mæta einbeittir til leiks gegn besta liði Evrópu um þessar mundir, Liverpool. Þrátt fyrir neikvæð úrslit á þriðjudag er ég skemmtilega bjartsýnn fyrir þennan erfiða leik. Liverpool sýndu að þeir eru ekki ósigrandi og ef okkar menn þora að spila sinn bolta á sunnudag og spila agaðan varnarleik þá eigum við góðan séns. Chelsea á það nefnilega til að koma skemmtilega á óvart á móti liðum sem eru að spila frábæran bolta þegar enginn býst við því, t.d. 2-0 sigurinn á City í fyrra.


Ansi erfitt er að spá fyrir um byrjunarlið Chelsea í næsta leik. N’golo Kanté, Mason Mount og Callum Hudson-Odoi gætu allir spilað eitthvað en gætu líka allir verið hvíldir. Eitt er víst að það er stutt í endurkomu þeirra og það munar ekki um minna. Aðeins lengra er í endurkomu Rüdiger og Emerson. Ég spái því að Lampard haldi sig við 5 manna varnarlínu vegna fjarveru Emerson. Vonandi spila Kanté og Mount en ég ætla að vera raunsær og spá byrjunarliðinu svona:


Liverpool

Ég fékk góðvin minn og harðan Liverpool stuðningsmann Stefán Frey Gunnlaugsson til að spá fyrir um leik Liverpool manna, hann hafði þetta að segja:


Alisson er ennþá frá vegna meiðsla. Spái því að varnarlínan haldist óbreytt. Joe Gomez gæti komið inn fyrir Matip en held það sé ólíklegt miðað við hversu vel Matip hefur verið að spila.


Joe Gomez mun sennilega spila gegn MK Dons í deildarbikarnum núna í vikunni og þá gefst tækifæri til að hvíla leikmenn eins og Van Dijk, Trent og Matip.

Fabinho er orðinn svo mikilvægur fyrir liðið að hann er fyrsti miðjumaðurinn á blað. Klopp hefur verið að notast við Wijnaldum og Henderson í stóru leikjunum. Þeir eru báðir reynslumiklir, duglegir og halda boltanum vel undir pressu. Það er mikilvægt í stórum leikjum eins og gegn Chelsea á Stamford Bridge. Keita er ennþá frá vegna meiðsla, Oxlade-Chamberlain og Milner gætu komið inn af bekknum.

Origi er að díla við smávægileg meiðsli en gæti þó verið í hóp. Það er þó nánast sjálfgefið að tríóið Salah, Bobby og Mané byrji.


Chelsea liðið er svolítið óskrifað blað. Nýr þjálfari, nýjar áherslur, ný kerfi sem eru ennþá í mótun og fulltaf ungum og spennandi leikmönnum. Það er erfitt að spá fyrir um leikinn en ég held að þetta gæti orðið erfiðasti leikur tímabilsins hingað til fyrir Liverpool.

Bæði lið töpuðu leikjum sínum í meistaradeildinni. Það yrði mjög sterkt fyrir Lampard og Chelsea liðið að binda endi á fjórtan-leikja sigurgöngu Liverpool í deildinni með sigri eða með jafntefli.


Spái því að Chelsea muni byrja leikinn af krafti, pressa Liverpool stíft fyrstu 20 mín, reyna að skora snemma og/eða koma í veg fyrir að Liverpool nái stjórn á leiknum snemma leiks. Leikurinn verður opinn þó svo Liverpool verði meira með boltann.

1-2 fyrir Liverpool.


Sjálfur spái ég 2-2 jafntefli í hörku leik, Tammy Abraham með bæði mörkin eftir frekar slakan leik gegn Valencia. Mané og Salah skora mörkin fyrir Liverpool. KTBFFH

Comments


bottom of page