top of page
Search

Chelsea vs Crystal Palace

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: 9. nóvember 2019 kl. 12:30

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Símanum Sport og BT Sport.

Upphitun eftir: Árna St. Stefánsson


Inngangur

Það er óneitanlega gaman að vera Chelsea-maður um þessar mundir – liðið er á góðu skriði í deildinni og liðið jafnframt búið að ná í sjö stig af níu mögulegum í Meistaradeildinni að undanförnu. Árangur liðsins á útivelli er sérstaklega athyglisverður, en Lampard og hans menn hafa unnið síðustu fimm útivallarleiki í deildinni, sem er frábær árangur og ekki nóg með það þá hefur liðið skoðar samtals 18 mörk í þessum fimm leikjum! Októbermánuður var sérstaklega gjöfull enda Chelsea eina liðið sem náði fullu húsi stiga í deildinni þann mánuðinn. Það kom því ekki óvart að Lampard skyldi hljóta útnefningu sem stjóri mánaðarins – vonandi sú fyrsta af mörgum. Þetta góða og í raun óvænta gengi hefur orðið til þess að allt umtal um liðið er orðið einstaklega jákvætt og gaman að sjá og heyra þegar stuðningsmenn annarra liða eru farnir að dásama liðið út í eitt.


Leikurinn liðsins gegn Ajax í vikunni fer vafalaust í sögubækurnar sem ein besta endurkoma í sögu klúbbsins. Staðan var ekki beinlínis björt þegar tæpar 30 mínútur voru til leiksloka – Chelsea var þá 1-4 undir, búnir að fá á sig tvö klaufaleg sjálfsmörk, Mount farinn út af meiddur og spilamennskan ekki upp á marga fiska. Þá ákvað Gianluca Rocchi, dómari leiksins, hins vegar að taka til sinna ráða þegar hann rak tvo leikmenn Ajax útaf ásamt því að gefa Chelsea vítaspyrnu, sem Jorginho skoraði að sjálfsögðu úr. Þetta kveikti heldur betur í okkar mönnum og í kjölfarið jafnaði liðið leikinn og var í raun óheppið að vinna ekki. Niðurstaðan var hins vegar jafntefli og þegar upp er staðið þá verða það að teljast ásættanleg úrslit. Endurkoma liðsins var mögnuð og sýnir hvaða karakter og trú Lampard er að ná að byggja upp innan liðsins. Ég gæti vissulega ritað nokkur orð um það sem olli vonbrigðum í leiknum, sbr. frammistöður Kepa og Alonso og Tomori, en ég ætla þess í stað að nota lyklaborðið til að hrósa t.a.m. Lampard fyrir vel heppnaðar innáskiptingar sem klárlega höfðu mikil áhrif á gang leiksins, sbr. Reece James og Hudson-Odoi. En umfram allt þá var þessi leikur stórkostleg skemmtun og verður lengi í minnum hafður.


Þá að leik morgundagsins – heimavallarviðureign gegn Crystal Palace. Liðið verður vonandi búið að ná sér niður á jörðina eftir rússíbanareiðina í vikunni. Lampard er sem betur eldri en tvívetra í þessum fræðum og nær eflaust að stilla hausinn rétt á menn fyrir leikinn – ég treysti því a.m.k. Vonandi verður Kante loksins klár til að byrja, en hann kæmi þá inn í byrjunarliðið á kostnað Jorginho sem verður í banni vegna fimm gulra spjalda. Það er óvíst hvort Mount geti byrjað leikinn eftir höggið sem hann fékk í leiknum gegn Ajax en vonandi nær sjúkrateymið að tjasla piltinum saman. Barkley gæti snúið til baka úr meiðslum en hann mun þó væntanlega ekki byrja. Að því sögðu þá ætla ég að spá byrjunarliðinu eins og það sést hér til hliðar.


Crystal Palace hefur farið áætlega af stað á leiktíðinni og eru í 9. sætinu með 15 stig eftir 11 leiki. Liðið hefur náð góðum úrslitum gegn liðum á borð við Man Utd og Arsenal en á móti hefur þeim verið kippt niður á jörðina gegn t.a.m. Tottenham og Leicester. Liðið er í einkar erfiðu leikja prógrammi um þessar mundir en leikur liðsins á morgun verður sá fjórði af fimm leikja hrinu gegn liðum sem teljast til þeirra sterkustu í deildinni. Hodgson gamli veit hins vegar mætavel hvaða lið hann er með í höndunum og þekktur fyrir að ná að kreista það allra besta út úr sínum mönnum gegn „stóru“ liðunum. Liðið er með tvo fyrrverandi Chelseamenn innan sinna raða, þá Patrick van Aanholt og Gary Cahill. Það hefur verið gaman að sjá hversu vel Cahill hefur farið af stað með sínum nýja klúbbi, en það er reyndar óvíst hvort þessi öflugi leikmaður nái leiknum gegn sínum gömlu félögum vegna smávægilegra meiðsla.


Spá Chelsea ætti undir eðlilegum kringumstæðum að klára þennan leik, en þar sem heimvöllurinn hefur ekki verið mjög gjöfull þar sem af er tímabilinu þá er aldrei að vita nema að Palace nái að stríða okkar mönnum. Ég ætla að spá því að Chelsea nái að kreista fram 2-1 sigur í blálokin með skallamarki frá Zouma.

Commenti


bottom of page