top of page
Search

Chelsea vs Aston Villa - Upphitun

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: Mánudagurinn 28. des kl: 17:30.

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport

Upphitun eftir: Jóhann M. Helgason



“Inside the ring or out, ain't nothing wrong with going down. It's staying down that's wrong.” - Muhammad Ali


Þið afsakið dramatíkina í mér, en ég þarf einhverja svona tilvitnun til að rífa mig í gang eftir þessa hörmung gegn Arsenal á öðrum degi jóla. Muhammad Ali var nefnilega oft sleginn niður en tókst svo oft að koma til baka - okkar menn í Chelsea þurfa núna að koma til baka.


Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum í þennan Arsenal leik, bendi bara á frábæra leikskýrslu frá Snorra Clinton hér.


Það er ótrulega stutt á milli leikja, aðeins 48 klst, og þess vegna er undirbúningur fyrir þennan leik með öðruvísi hætti en áður þekkist. Lampard sagði það sjálfur í viðtali fyrir leikinn gegn Arsenal að hann hefði haft Villa leikinn í huga þegar hann stillti upp byrjunarliðinu í leiknum gegn Arsenal - hvað svo sem það nú þýddi.


Eitt er víst að við munum sjá liðinu róterað!


Edouard "Heimakletturinn" Mendy verður á sínum stað í markinu, þessir markmenn þurfa ekkert að hvílast neitt. Ég ætla að geta mér til að Rudiger komi inn á kostnað Thiago "Faðir vor" Silva, Lampard hefur farið sparlega með Silva og reikna ég með að Lampard gefi honum pásu. Zouma verður við hlið Rudiger. Ég vil sjá Lampard skipta út báðum bakvörðum okkar þar sem þeir voru báðir hálf ryðgaðir og meiddir gegn Arsenal, Captain Dave og Emerson mæta því sprækir í öftustu línu.


Það er aðeins erfiðara að spá í miðjuna. Lampard gaf það í skyn að Kante myndi byrja leikinn gegn Villa, þess vegna var hann tekinn af velli gegn Arsenal. Ég held að Havertz og Billy Gilmour komi inn í liðið fyrir Kovacic og Mount. Mount gæti reyndar pott þétt spilað leikinn en hann þarf nú einhvertíma að hvílast. Svo er spurning hvort Jorginho komi inn í liðið?


Framlínan er svo örlítill höfuðverkur. Ziyech er ennþá frá vegna meiðsla. Það er bókað mál að Olivier Giroud komi inn í liðið og að Hudson-Odoi verði á hægri vængnum. Ég held að Lampard láti Pulisic ekki spila þennan leik, enda kláraði hann leikinn gegn Arsenal og vöðvarnir hans eiga það til að togna undan álagi - það væri rússnesk rúlleta að láta hann spila! Þá er eiginlega eini raunhæfi valmöguleikinn hinn ískaldi Werner sem er búinn að vera heillum horfinn í undanförnum leikjum, spilandi á vinstri vængnum! Ekki nema Mount eða Havertz taki það á sig að spila á vængnum? Ég hef lúmskan grun um það að Werner byrji þennan leik - hvað sem okkur kann svo að finnast um það.



Ég ætla að taka það fram að ef ég fengi að ráða þá myndi ég láta Chelsea spila 3-5-2 í þessum leik þar sem Werner yrði frammi með Giroud! En ég sé það ekki gerast. Hef sagt það áður að 4-3-3 kerfið kallar á nátturulega vængmenn til að virka fullkomlega.


Aston Villa

Dean Smith er að gera frábæra hluti með Aston Villa. Þetta er lið sem bjargaði sér ævintýralega frá falli á síðustu leiktíð en hafa síðan þá fjárfest mjög skynsamlega auk þess sem leikmannakaup síðasta árs hafa skilað sér betur inn í þetta tímabil en það síðasta. Þeir eru eitt heitasta liðið í deildinni, í 7. sæti deildarinnar með 25 stig eftir aðeins 13 leiki. Þeir eiga tvo leiki inni og gætu því allt eins verið í 2. sæti, ef við myndum bæta sex stigum í sarpinn þeirra.


Á öðrum degi jóla gerðu þeir sér lítið fyrir og flengdu Crystal Palace 3-0 og það þrátt fyrir að vera manni færri lungað úr leiknum! Þeirra besti maður er klárlega Jack Grealish og má segja að hann sé á þessu tímabili búinn að stimpla sig inn sem einn besti maður deildarinnar. Hann er dyggilega studdur áfram af leikmönnum eins og John McGinn, Ollie Watkins og Ross "okkar" Barkley. Þeir hafa svo frábæran markmann í Emi Martínez.


Við verðum að spila okkar ALLRA besta leik til þess að sigra Villa menn, því þeir eru á miklu skriði og bara drullugott fótboltalið (afsakið orðbragðið).


Aston Villa hafa ekki sömu breiddina og okkar menn. Þannig það verður áhugavert að sjá hvernig Dean Smith nálgast leikinn. Mun hann hvíla einhvern af sínum bestu mönnum? Bæði Barkley og Tyrone Mings verða ekki með þannig strax þar eru ákveðin skörð höggvin í þeirra lið.


Spá og pælingar

Eins og fyrr segir verða okkar menn að stíga upp og hrissta þennan slaka leik af sér. Eins og deildin er að spilast núna geta 2-3 sigurleikir í röð komið aftur "inn í umræðuna" líkt og við vorum hérna fyrir 3-4 vikum síðan.


Spái 2-1 sigri í naglbít sem ræðst á síðustu fimm mínútum leiksins.


KTBFFH

- Jóhann Már

bottom of page