top of page
Search

Chelsea vs Aston Villa - Endurkoma John Terry á Stamford Bridge

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: 4. desember kl 19:30

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport 3, BeIn sport og Amazon Prime

Upphitun eftir: Jóhann M. Helgason



Chelsea

Okkar menn þurfa heldur betur að hysja upp um sig brækurnar eftir dapra frammistöðu gegn West Ham í síðasta leik. Eftir sjö leikja sigurgöngu í ensku Úrvalsdeildinni hefur Chelsea núna tapað tveimur leikjum í röð og ekki unnið í þremur leikjum í röð, ef leikurinn gegn Valencia er tekinn með. Varnarleikurinn er okkar helsti höfuðverkur; Kepa er búinn að vera óöruggur nánast allt tímabilið, Zouma og Tomori eru báðir flottir leikmenn en hvorugur þeirra er þessi stóri karakter sem vörnin okkar þarf á að halda – við söknum Toni Rudiger mikið þessa dagana. Það segir mikið um varnarleik liðsins að Chelsea braut aldrei af sér í leiknum gegn West Ham á meðan West Ham fékk dæmdar á sig 16 aukaspyrnur.


West Ham leikurinn var aðeins þriðji leikurinn á þessu tímabili þar sem okkar mönnum mistekst að skora. Munaði þar mest um að Giroud, sem tókst engan veginn að fylla skarð Tammy Abraham. Það virkaði hreinlega eins og Frakkinn væri að spila með Chelsea í fyrsta sinn í mörg ár, allar hans staðsetningar voru slakar og hann náði ekki að tengja vel við væng- og miðjumennina. Pedro fékk einnig langþráð tækifæri sem hann nýtti sér engan veginn og greinilegt að hann á langt í land með að vera einhver ógn við Willian, Pulisic og Hudson-Odoi.


Heilt yfir var þessi leikur gegn West Ham bara slakur og Lampard þarf að hugsa sig um tvisvar áður en hann hvílir aftur leikmenn eins og Kanté. Fyrir mér undirstrikaði þetta tap einnig að Chelsea er ennþá lið í mótun sem mun taka tíma til þess að slípa saman og þroska. Velgengnin undanfarnar vikur var orðin slík að maður var farin að gæla við 2. – 3. sætið og jafnvel einhverja titilbaráttu ef Liverpool myndi eitthvað misstíga sig. Ef Chelsea ætlar sér slíka hluti, þá eru töp á heimavelli gegn West Ham einfaldlega ekki í boði.


Snúum okkur þá að leiknum gegn Aston Villa. Ég held að Lampard muni gerar nokkrar breytingar á byrjunarliðinu, ég á von á því að Christensen og Alonso komi inn í vörnina á kostnað Zouma og Reece James. Á miðjunni kemur N‘Golo Kanté alltaf inn í liðið og líklega á kostnað Kovacic. Framlínan er svo stærsta spurningamerkið. Lampard sagði að Tammy gæti mögulega verið í leikmannahópnum á morgun sem þýðir að líklega byrjar hann á bekknum. Ég held að Willian, Batshuahyi og Pulisic munu byrja frammi en það er líka líklegt að Hudson-Odoi komi inn í liðið á kostnað Batsman og þá myndi Pulisic leiða línuna líkt og hann gerði undir lok leiksins gegn West Ham.


Aston Villa

Það merkilegasta við Aston Villa gagnvart okkur Chelsea mönnum er að sjálfsögðu sú staðreynd að John „Okkar“ Terry er aðstoðarþjálfari liðsins. Hann hefur verið það núna í rúmlega eitt ár, eða eftir að Dean Smith tók við liðinu í fyrra. Það hefur spurst út að Chelsea sé að plana eitthvað sérstakt til handa Terry fyrir leik og verður áhugavert að sjá hvað það verður.


Fyrir leikinn eru Villa menn í 15. sæti deildarinnar með heil fimmtán stig eftir. Þeir eru í fallbaráttu en hafa sýnt að þeir eru með alvöru lið sem inniheldur flotta leikmenn eins og Jack Grealish, John McGinn, Tyrone Mings og brasilíska framherjann Wesley. Aston Villa eru búnir að vera í erfiðu prógrami, en í undanförnum fimm leikjum hafa þeir m.a. mætt Liverpool, Man City, Wolves og núna síðast Manchester United á Old Trafford. Leikurinn gegn Man Utd var mjög vel leikinn að hálfu Villa og voru þeir óheppnir að fara ekki með sigur af hólmi, leikurinn endaði með 2-2 jafntefli.


Það var miklu til tjaldað hjá Aston Villa fyrir tímabilið, þeir keyptu samtals tólf leikmenn fyrir rúmlega 125 milljónir punda. Þetta er stór klúbbur, með mikla sögu sem ætlar sér greinilega að festa sig aftur í sessi í deild þeirra bestu á Englandi.


Spá

Það er engin leikur auðveldur í ensku Úrvalsdeildinni og leikurinn annað kvöld verður það ekki heldur. Ég ætla samt að spá því að okkar menn snúi við blaðinu og vinni Aston Villa með góðri 3-1 frammistöðu. Pulisic, Kanté og Mount með mörkin. Wesley klórar í bakkann fyrir Aston Villa.

KTBFFH

bottom of page