top of page
Search

Chelsea vs Arsenal - upphitun

Keppni: Enska Úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: Miðvikudagurinn 12. maí 2021 kl 19:15

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport

Upphitun eftir: Jóhann M. Helgason


Chelsea

Þegar Thomas Tuchel tók við liði Chelsea í janúar sl. þá sagði hann að markmið sitt væri að gera Chelsea að liði sem væri erfitt að vinna. Hann hefur heldur betur staðið við stóru orðin enda liðið bara tapað tveimur af 25 leikjum undir stjórn Þjóðverjans þar sem annað tapið var gegn Porto í Meistaradeildinni og telst varla með, því Chelsea vann einvígið. Þessi frábæri árangur gerir það að verkum að Chelsea er nú í góðri stöðu með að ná Meistaradeildarsæti og komið í tvo úrslitaleiki.


En eins og Tuchel segir sjálfur – næsti leikur er alltaf sá mikilvægasti.


Chelsea mætir Arsenal í 35. umferð ensku Úrvalsdeildarinnar á miðvikudagskvöld. Með sigri getur Chelsea farið langleiðina með að tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu, sérstaklega ef önnur úrslit detta okkur í hag eins og raunin hefur verið undanfarnar vikur. Okkar menn eru mjög góðu skriði eftir frábæra sigra gegn Real Madrid og Man City, í raun má segja að Chelsea sé heitasta lið Evrópu, liðið fær varla á sig mark og sóknarleikurinn alltaf að verða þéttari með hverjum leiknum sem líður.


Thomas Tuchel sat fyrir svörum á blaðamannafundi fyrr í dag og staðfesti þar að bæði Andreas Christensen og Mateo Kovacic væru báðir meiddir og tæku því ekki þátt í þessum leik. Tuchel tók þó fram að Kovacic gæti vonandi verið í hóp í bikarúrslitaleiknum um næstu helgi og að meiðsli Christensen væru ekki eins alvarleg og óttast var í fyrstu.


Eins og lesendur CFC.is hafa orðið varir við að þá er hægara sagt en gert að reyna spá fyrir um byrjunarlið Chelsea, en ég ætla þó að gera mitt besta. Mendy verður alltaf í markinu og fyrir framan hann verður úthvíldur Thiago Silva, með honum í vörninni verða svo Kurt Zouma og Cesar Azpilicueta. Ég held s.s. að Rudiger fái frí eftir að hafa haltrað örlítið undir lok leiks gegn City.


Vængbakverðirnir verða svo þeir Reece James og Ben Chilwell – það er eflaust hart að henda Alonso á bekkinn eftir sigurmarkið í síðasta leik en Chilly er búinn að vera frábær undanfarnar vikur. Ég reikna með að Kante og Jorginho verði saman á miðjunni, Billy Gilmour var góður gegn City en hann hefur lítið spilað og því gæti verið erfitt fyrir hann að spila tvo erfiða leiki á fjórum dögum.


Framlínan er svo hvað erfiðust viðureignar! Mason Mount kemur alltaf inn í liðið, enda hvíldur gegn City. Ég ætla að tippa á að með honum verði þeir Kai Havertz og Callum Hudson-Odoi! CHO átti frábæra innkomu gegn City og á skilið smá spiltíma. Werner var orðinn þreyttur gegn City og Pulisic hefur spilað mikið. Mögulega verður Hakim Ziyech í liðinu í staðinn fyrir CHO en ég ætla veðja á Englendinginn unga.



Arsenal

Þetta tímabil er búið að vera ein allsherjar vonbrigði hjá Arsenal. Í raun er ástandið svo slæmt að margir spá því að Mikel Arteta fái sparkið ef þeir tapa illa gegn Chelsea á morgun. Það voru miklar vonir bundnar við Arteta á þessu tímabili eftir að hafa landað FA bikarnum á síðasta tímabili og að einhverju leiti rifið liðið upp eftir slakar frammistöður undir stjórn Unai Emery.

En það hefur ekkert gengið upp í ár og þeirra bestu leikmenn valdið miklum vonbrigðum. Aubameyang krotaði undir nýjan þriggja ára samning í haust og er síðan þá bara búinn að vera telja peningana á bankabókinni. Þeir fengu okkar ástkæra Willian sem hefur mjög lítið getað en tókst þó að skora sitt fyrsta mark fyrir liðið í síðustu umferð. Thomas Partey er annað hvort meiddur eða slakur og nýi miðvörðurinn þeirra, Gabriel, hefur ekki heillað marga. Í raun má segja að þeirra langbestu menn hafi verið ungu leikmennirnir eins og Saka og Smith-Rowe.


Arsenal sitja sem stendur í 9. sæti deildarinnar með 52 stig og eru í baráttu við Everton og Leeds um 8. sætið.


Það er ekki þar sem sagt að Arsenal séu dauðir úr öllum æðum. Þeir hafa haft einstakt lag á því að mæta almennilega til leiks þegar þeir mæta Chelsea eins og við munum eftir um síðsutu jól, í þeim leik rúlluðu þeir yfir okkur 3-1 þar sem okkar menn sáu aldrei til sólar.


David Luiz og Granit Xhaka eru sagðir tæpir hjá Nöllurunum þar fyrir utan virðast þeir hafa úr sínu besta liði að velja.


Spá

Ég get ekki annað en verið bara brattur. Spái 2-0 sigri þar sem okkar menn gera þetta fagmannlega með einu marki í hvorum hálfleik fyrir sig. Mason Mount kemur okkur á bragðið og Kai Havertz klárar málið!


KTBFFH

- Jóhann Már

bottom of page