top of page
Search

Chelsea vs Ajax

Keppni: Meistaradeild Evrópu

Dag- og tímasetning: Þriðjudaginn 5. nóvember kl. 20:00

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur: Stöð 2 Sport 4 og BT Sport 2 (UK)

Upphitun eftir: Þór Jensen

Chelsea

Eftir svekkjandi tap í deildarbikarnum gegn Manchester United í síðustu viku snéru okkar menn við blaðinu gegn Watford á útivelli í leik sem hefði átt að vera þægilegur sigur en skildi stuðningsmenn Chelsea eftir í svitabaði síðustu mínútur leiksins.


Chelsea menn voru mun betri aðilinn í fyrri hálfleik en magnaðar markvörslur Ben Foster í marki Watford komu í veg fyrir að okkar menn skoruðu fleiri en tvö mörk í leiknum. Fyrra markið var af dýrari týpunni, Jorginho með ótrúlega stungusendingu sem Cesc Fabregas hefði verið stolltur af og Tammy Abraham tímasetti hlaupið sitt fullkomlega og kláraði vel í mark Watford. Þessa sendingu höfum við séð Jorginho reyna áður en framherjinn á hinum enda sendingarinnar hefur ekki verið nægilega góður (Morata).


Í seinni hálfleik hélt Ben Foster áfram að verja eins og óður maður og kom í veg fyrir að okkar menn næðu að auka forskotið. Jorginho og Kovacic spiluðu sem kóngar á miðjunni og minntu á köflum á samspil Iniesta og Xavi. Kovacic, sem var maður leiksins að mínu mati, gerði gríðarlega vel í að rekja boltann djúpt inn á vallarhelming Watford og skapaði þeim mikil vandræði, hann var einnig duglegur að vinna boltann af líkamlega sterkum miðjumönnum Watford líkt og Doucouré og losa liðið undan pressu heimamanna. Hann var meira að segja nálægt því að skora! Jorginho heldur áfram að vera leiðtogi liðsins og stjórna spilinu og hraðanum í leiknum eins og herforingi. Alvöru fótboltaheili þar á ferð.


Á endanum kom þó seinna markið þar sem Pulisic staðsetti sig vel og kláraði hlaupið inn í teiginn og renndi boltanum inn eftir góðan undirbúning Willian og Tammy. Ameríski draumurinn heldur áfram að vinna sig inn í hjarta stuðningsmanna Chelsea með enn einni góðri frammistöðu. Eftir seinna markið urðum við e.t.v. heldur afslappaðir og vantaði áræðni til að sækja þriðja markið og reka síðasta naglann í kistuna. Við Chelsea menn fengum það í bakið eftir glórulausan VAR skandal sem dæmdi víti á Jorginho fyrir að hafa snert fótlegg Deulofeu innan teigs. Klaufalega gert hjá Jorginho að hafa ekki verið búinn að koma boltanum í burtu, en aldrei nokkurn tíman vítaspyrna að mínu mati. Deulofeu renndi boltanum í netið og í staðinn fyrir þæginlegan skyldusigur á móti sigurlausu liði Watford voru stuðningsmenn á nálum síðustu 15 mínútur leiksins. Sem betur fer varði Kepa meistaralega gegn engum öðrum en Ben Foster á síðustu sekúndu leiksins, þvílík frammistaða hjá markverði Watford manna. Jorginho nældi sér í gult spjald fyrir leiktöf sem setur hann í bann í næsta leik gegn Crystal Palace fyrir uppsöfnuð gul spjöld, sem þýðir að hann verður 100% klár fyrir leikinn gegn Manchester City, því má færa rök fyrir því að fá á sig þetta spjald hafi verið útpælt.


Kurt Zouma átti nánast fullkominn dag í vörninni, Jorginho og Kovacic spiluðu óaðfinnanlega eins og fram hefur komið, Mason Mount með gríðarlega vinnusemi og óheppinn að skora ekki. Pulisic og Tammy með góðar frammistöður og heilt yfir góður leikur hjá okkar mönnum. 3 stig í hús, 5 sigurleikir í deildinni í röð og 6 útisigrar í röð í deildinni, maður getur ekki beðið um mikið meira en það.


Ég reikna með að byrjunarlið Chelsea gegn Ajax verði það sama og það var gegn Watford á laugardaginn, að undanskildinni einni breytingu: Alonso inn fyrir Emerson.


Ajax

Eftir tapið á heimavelli gegn Chelsea í síðustu umferð Meistaradeildarinnar hafa Ajax unnið báða deildarleikina sína sannfærandi, 4-0 heimasigur á Feyenoord og 2-4 útisigur á PEX Zwolle. Enn taplausir í deildinni með 32 stig eftir 12 leiki með markatöluna 39-9, einfaldlega of góðir fyrir sína eigin deild. Þeir mæta væntanlega dýrvitlausir á Brúnna eftir tapið gegn Chelsea fyrir framan sína eigin stuðningsmenn, sem verða þó ekki á staðnum á morgun þar sem stuðningsmenn Ajax fá enga miða á útivelli vegna brots á agalögum UEFA. Það ætti að gefa okkar mönnum byr undir báða vængi þar sem aðeins mun heyrast í stuðningsmönnum Chelsea og vonandi veita okkur þann kraft sem okkur hefur vantað á heimavelli það sem af er þessarar leiktíðar.


Ajax menn halda líklega í sitt vanalega 4-3-3 eða 4-2-3-1 kerfi með Dusan Tadic fremstan, Quincy Promes, Hakim Ziech og David Neres sem byrjaði ekki síðasta leik gegn okkur fyrir aftan. Það er hellingur af hæfileikum í þessu liði en ef við getum lokað á þeirra aðgerðir með sömu pressu og skipulagi og við gerðum í útileiknum þá eigum við góðan möguleika á a.m.k. stigi úr leiknum, jafnvel þremur, sem myndu fara langleiðina með að sigla okkur inn í 16 liða úrslit Meistaradeildarinnar - ekki amalegt það!


Spá

Ég spái Chelsea mönnum 2-1 sigri í hnífjöfnum leik með mörkum frá Willian og Batshuayi sem kemur inn af bekknum. Hakim Ziyech skorar mark gestanna frá Hollandi.


KTBFFH

コメント


bottom of page