Keppni: FA Cup
Tími, dagsetning: Laugardagur 6. janúar kl: 17.30
Leikvangur: Stamford Bridge, London
Dómari: Thomas Bramall
Hvar sýndur: Stöð 2 Sport 2
Upphitun eftir: Hafstein Árnason
Chelsea lauk annus horribilis árinu 2023 með ágætum sigri á Luton Town á útivelli. Liðið spilaði alveg leiftrandi sóknarbolta þar sem Cole Palmer var allt í öllu. Við fengum einnig að sjá stórglæsilegt mark hjá Noni Madueke. Staðan var 2-0 fyrir Chelsea í hálfleik og svo 3-0 á 70. mínútu. Eftir það fengum við ansi klaufaleg mörk á okkur. Annað markið var skallamark þar sem Cole Palmer fór ekki upp í skallaeinvígi og hitt markið mætti skrifa örlítið á Petrovic í markinu fyrir að verja boltann, en blaka honum aftur í teiginn þar sem Luton skoruðu úr því "frákasti". Leikmenn Luton sóttu mjög að marki til að ná jafnteflinu, en allt kom fyrir ekki. Góður sigur, en það mátti ekki miklu muna að þetta hefði klikkað. Alfie Gilchrist fékk aftur nokkrar mínútur á vellinum og stóð sig prýðilega. Það sem vakti athygli var að bæði Mudryk og Raheem Sterling sátu á bekknum allan leikinn. Pochettino var spurður á blaðamannafundi hvað Sterling þyrfti að gera til að komast aftur í enska landsliðið. Hann svaraði með þeim undarlega hætti að það væri ekkert víst að hann myndi spila þennan leik, eða a.m.k. vék sér undan spurningunni. Þetta eftirminnilega klúður hjá Sterling gegn Wolves virðist því hafa dregið dilk á eftir sér.
Framundan er einvígi í fimmtu umferð FA bikarkeppninnar, þeirri elstu og virtustu. Preston North End koma í heimsókn á Brúnna. Liðið situr um miðja Championship deildina. Liðið hefur skorað 31 mark, en eru samt með 21 mark í xG tölfræðinni. Flest mörkin hafa verið úr opnum leik, en aðeins sjö úr föstum leikatriðum, þar af tvær vítaspyrnur. Will Keane hefur skorað flest mörkin, eða um sex talsins. Annars eru ekki þekktar stærðir í Preston liðinu nema Ched Evans, sem er frægur fyrir aðra hluti en knattspyrnu, og svo Robbie Brady, sem lék með Norwich og Hull í ensku úrvalsdeildinni. Hann er reyndar eini leikmaðurinn hjá Preston sem er skráður tæpur, en annars eru allir leikmenn klárir til leiks. Því er ekki að fagna hjá okkur, auðvitað. Það er klárt að Chilwell og Carney Chukwuemeka verða ekki með í leiknum, eins og vonir stóðu til. Enzo er eitthvað tæpur en það er gert ráð fyrir honum í hóp. Það má búast við því að Pochettino róteri hópnum eitthvað. Á blaðamannafundi sagði hann að nokkrir leikmenn myndu fá traustið í byrjunarliðinu sem hafa ekki verið þarna. Ef ég ætti að lesa á milli línanna, þá myndi ég telja að Alfie Gilchrist muni fá tækifærið í hægri bakverði, þrátt fyrir að hann sé miðvörður. Það er líka klárt að Armando Broja leiði línuna fyrst Nico Jackson er farinn á Afríkumótið með Senegal. Benoit Badiashile verður líka fjarverandi. Christopher Nkunku er ennþá í aðlögun þannig að ég tel að hann fái mínútur í leiknum og komi af bekknum.
Byrjunarliðið verður sennilega svona:
Hvernig fer leikurinn? Preston halda sjaldan markinu hreinu, þannig að Chelsea skorar 3 mörk. Segi að Broja, Palmer og Madueke skori. Þar varnarlínan gerir alltaf einhver mistök er líklegt að við fáum eitt á okkur.
Áfram Chelsea! KTBFFH!
Comments