top of page
Search

Chelsea - Nottingham Forest

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Tími, dagsetning: Laugardagur 13. maí kl: 14.00

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur: Síminn sport

Upphitun eftir: Hafstein Árnason




Eftir nokkuð óvæntan sigur gegn Bournemouth á útivelli síðastliðna helgi, hefur það verið staðfest að Frank Lampard er ekki jafn slæmur stjóri og Frank De Boer. Liðið var þó ljónheppið að fá ekki á sig fleiri mörk, enda óðu þeir rauðsvörtu í marktækifærum. Þeir hefðu á betri degi geta skorað 2-3 fleiri mörk en þeir gerðu þarna. Allt kom fyrir ekki, og Chelsea vann 3-1 útisigur með mörkum frá Gallagher, Badiashile og Joao Felix. Það er svo sem ekki mikið meira um leikinn að segja, annað en það að Ben Chilwell meiddist aftan í læri og líklega missir af flestum leikjum sem eftir eru.


Það hefur lítið verið að frétta utan vallar. Sagt er að viðræður við Mauricio Pocchettino séu á lokametrunum. 90% klárt hafa einhverjir spekúlantar sagt og meira sé að frétta í næstu viku. Engar konkret fréttir um leikmenn á leiðinni inn, frekar, hverjir séu á leiðinni út. Þó má kommenta að orðrómurinn að Chelsea ætli að kaupa André Onana séu úr lausu lofti gripnar, þar sem Beppe Marotta, framkvæmdastjóri Inter, blés á þær sögusagnir. Önnur frétt sem vakti athygli í vikunni var að hinn 14 ára Charlie Holland, fyrirliði Chelsea U14 fékk að taka þátt í æfingu með liðinu. Ekki er þó búist við því að hann taki þátt í neinum leikjum, en eftir því sem mér skilst, þá voru U21 og U19 liðin fjarverandi til að fylla upp í mannskap á æfingu sökum meiðsla, og Charlie og félagar hafi unnið titla í sínum flokki. Kannski fáum við að sjá meira af Charlie Holland á komandi árum. Eitt er þó ljóst, að Lewis Hall verður í hóp í leikjunum út tímabilið. Hann mun koma til að vera backup fyrir vinstri bakvarðarstöðuna, þar sem bæði Chilwell og Cucurella eru meiddir. Reyndar er furðulega mikið um meiðsli á vörninni, því þeir bætast á listann með Fofana og Koulibaly. Í sókn eru Broja og Mason Mount taldir frá, ásamt Marcus Bettinelli - þriðja markverði.


Framundan er leikur gegn Nottingham Forest á heimavelli. Fyrirfram hefði maður haldið að þetta ætti að vera skyldusigur. En þar sem liðið er mikið í því að ræpa reglulega á sig, þá er við öllu að búast. Forest eru einnig í fallhættu þannig að þeir mæta eflaust grimmir til leiks. Í því samhengi verður Lampard að hafa sorterað út leikmenn sem ganga til leiks með hálfum hug. Í þessu samhengi við ég nefna Ziyech og Kovacic sérstaklega. Leikmenn sem telja sig ekki hafa hlutverk hjá liðinu eiga heima á bekknum. Þetta er tíminn til að gefa þeim leikmönnum sem hafa framtíðarhlutverk lykil að liðinu, mönnum eins og Badiashile og Noni Madueke, sem stóð sig prýðilega í síðasta leik.


Ég ætla að skjóta á að Frank haldi sig við 4-3-3 uppstillinguna, en noti Azpilicueta í vinstri bakverði, frekar en Lewis Hall. Badiashile og Thiago Silva í miðvörðum, og votturinn í hægri bakverði og Kepa í búrinu. Miðjan verður Enzo, Conor og Kante. Framlínan Sterling, Kai og Madueke. Persónulega er ég lítið hrifinn af Sterling, en í ljós þess að ekkert kom útúr Mudryk í síðasta leik tel ég líklegt að Lampard gefi Sterling enn einn sénsinn.




Ég er ekki bjartsýnn fyrir þennan leik. Þetta getur farið á alla vegu. Ætla leyfa mér að vona að Chelsea vinnur öruggan 2-0 sigur með mörkum frá Enzo Fernandez og Kai Havertz.

bottom of page